Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og ég vék að í ræðu minni áðan er ásamt frv. um samþykkt ríkisreikninga fyrir árin 1981--1986 lagt hér fram frv. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1979. Þetta frv. á sér þá sérstæðu sögu að frv. um þetta efni var lagt fyrir 105. löggjafarþingið 1982--1983, en varð ekki útrætt. Ég vil fyrir hönd allra aðstandenda á þeim tíma harma þau mistök að það skyldi ekki verða gert að málið fengi eðlilega málsmeðferð og þess vegna nauðsynlegt að það liggi ljóst fyrir, bæði hvað snertir stjórnskipun landsins og síðari tíma sagnfræði, að Alþingi hafi ekki hliðrað sér hjá því að taka afstöðu til þessa máls. Þess vegna var ákveðið að leggja þetta einnig fyrir hér og nú og láta það verða samferða þeim árum sem ég kynnti hér áðan og öll þau ummæli sem ég flutti þá eiga einnig við hvað þetta frv. snertir.