Almannatryggingar
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessarar till. og tek mjög eindregið undir bæði það sem hún sagði og það sem í tillögunni felst. Ég tek einnig undir það að ekki er verið að deila þarna á einn eða neinn, en það er gamalt máltæki sem segir: Enginn gerir svo að öllum líki og ekki guð í himnaríki. Það er auðvitað alveg ómögulegt að einn maður, sem þar að auki er yfirmaður í stofnuninni, Tryggingastofun ríkisins, að það sé eiginlega leggjandi á hann að honum sé einum ætlað þetta verk, fullkomlega óeðlilegt líka. Það er ekkert last á manninn þó að maður líti þannig á.
    Það er kannski alls staðar of lítið gert af því að koma til móts við þá sem misst hafa af orku sinni, koma til móts við þá þannig að þeir geti unnið fyrir sér á eðlilegan hátt. Ég er bara ekkert viss um að það sé neitt verra úti á landi. Það er að vísu þannig að þar sem er mjög afskekkt er kannski ekki um neina vinnu að ræða. Mér finnst að í fjölbýlinu, hér á þessu landsvæði, sé bara allt of lítið hugsað um þetta. Það langar engan til þess að vera dæmdur frá því að vinna. Að vísu getur einhver verið það mikið sjúkur að hann finni sig í því, en yfirleitt langar engan til þess. Fólk langar til að vinna fyrir sér, sjá fyrir sér sjálft. Það er allt of lítið gert af því að leita að tækifærum fyrir það.
    Ég hef komið inn á vinnustaði þar sem ég sé fullfrískt og þrekmikið fólk í störfum þar sem ég veit að fólki með litla orku hefur verið neitað um störf sem það gæti unnið alveg eins. Við erum allt of skipulagslaus í þessu. Auðvitað eigum við að kappkosta það, bæði manneskjunnar vegna, ekki síst hennar vegna, sem sækir um starf þó að hún sé eitthvað fötluð, að hún geti fengið að vinna fyrir sér og auðvitað er það þjóðhagslega hagkvæmt líka. Ég kannast ákaflega vel við það sem hv. 13. þm. Reykv. minntist á að það eru auðvitað fáránlegar tillögur sem fólk fær þegar það gefst upp í einhverju starfi sökum þess að það er ofvaxið þreki þess og kröftum.
    Það er líka nokkuð sem ég rakst á á mínum lokaferli í mínu félagi og það var það að ef fólk gafst upp t.d. í fiski, sem er erfið vinna eins og allir vita, var ræsting á sjúkrahúsum talin geta hentað því vegna þess að hún væri mun léttari. Ég vildi óska þess yfirleitt að þeir sem ráðleggja slíkt færu í dálítinn tíma í ræstingu á sjúkrahúsum sjálfir og athuguðu og kynntu sér það hversu létt sú vinna er, enda hefur svo farið að margt af því fólki sem kemur úr þessum mjög svo erfiðu störfum, viðurkenndu erfiðu störfum í þjóðfélaginu, staldrar aðeins stutt við á þeim stað sem það leitar til. Það fer yfir á einhvers konar örorku. Þetta er fólk sem er búið að þræla sér út, sem er búið með sitt þrek langt um aldur fram.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja þetta mál meira. Ég bara vona að þingmenn standi saman um það að þetta fái góða afgreiðslu hér á þessu þingi. Þetta er nauðsynjamál og ég harma það að hæstv. trmrh. --- ja, hæstv. fjmrh. er kominn inn. Hæstv. fjmrh. hefði haft gott af að heyra það sem Guðrún var að segja um öll stöðugildin þarna inni í tryggingum og allt

pappírsvesenið. Þið ættuð að kynna ykkur allt slíkt dálítið vel á ríkisstofnununum þegar þið eruð að tala um niðurskurð og að spara. Það hefur kannski gengið óþarflega mikið út á það þegar ríkið er að spara að það fer að spara kannski á einhverjum fáeinum ræstingakonum eða svoleiðis fólki, en það gleymir því að víða innan þeirra veggja eru embætti og skriffinnska sem öllum væri eiginlega fengur að að losna við. Pappírsflóðið þarna inni í almannatryggingum er svoleiðis að fólk kom oft til mín skelfingu lostið. Það ruglaðist í þessu öllu saman. Það vissi ekkert um hvað það átti að sækja. Það getur hreinlega verið stórhættulegt að hella yfir fólk öllu þessu pappírsflóði sem er þá oft með einhverju orðskrúði sem venjulegt fólk, sem kann þó góða íslensku, hefur lært hana af foreldrum sínum, öfum og ömmum, bara hreinlega skilur ekki. Ég vil beina þessum orðum til hæstv. fjmrh. og vona að hann kynni sér þetta rækilega og geri þarna helst góða siðabót.