Almannatryggingar
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. Hér er á ferðinni gamall kunningi í megindráttum sem ég kannast við ásamt hv. flm. úr heilbr.- og trn. Nd. frá fyrri tíð. Þetta mál hefur þar margoft verið tekið til umræðu en aldrei verið afgreitt.
    Mér fannst ýmislegt merkilegt koma fram í framsöguræðu hv. flm. sem þýðir að ástæða sé fyrir hæstv. ríkisstjórn, og þá einkum og sér í lagi hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh., að skoða málið rækilega eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, ekki síst vegna þess að hv. flm. er gamall starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins.
    Það hefur staðið til um nokkuð langa hríð að endurskoða löggjöf um almannatryggingar, en ég tek undir það með öðrum að endalaust er ekki hægt að bíða eftir slíkri endurskoðun. Það þarf auðvitað margt að athuga og ekki síst það að gera verður greinarmun á annars vegar örorkumati og hins vegar örorkubótum og held ég að menn geti ekki verið ósammála um það. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli og rekur mig hingað í ræðustól er að nú er hv. þm. stjórnarþm. Hæstv. ráðherra er ekki við og það kann að vera að ástæða sé til þess að hæstv. ráðherra fái tækifæri í 1. umr. til þess að segja frá því hvort hann hefur slíkar tillögur á prjónunum eða hvort ætla má að hv. þm. flytji þetta frv. af því að það hefur ekki hlotið náð sem stjórnarfrv. Mér finnst það skipta máli því að í máli hæstv. ráðherra kunna að koma fram einhver efnisrök fyrir því að ekki er flutt stjórnarfrv. um þetta mál. Ef það tefur ekki málið nema einn dag eða svo finnst mér ástæða til þess að bíða eftir hæstv. ráðherra og heyra álit hans á málinu, ekki síst vegna þess að hann hefur nú haft rúmt ár til stefnu til þess að líta á þetta mál og önnur er varða Tryggingastofnun ríkisins.
    Þetta er aðalerindi mitt hér í ræðustól, en ef hv. flm. telur að heppilegra sé að málið gangi til nefndar án þess að hæstv. ráðherra fjalli um málið í 1. umr. ætla ég auðvitað ekki að leggja stein í götu þess.