Almannatryggingar
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa sýnt áhuga á þessu máli og það tel ég mjög mikilsvert. Ég vil svara nokkrum spurningum sem hafa komið fram.
    Það skal upplýst að í fyrsta skipti sem þetta frv. eða frv. svipaðs efnis var flutt var það reyndar flutt sem stjórnarfrv. af hæstv. þáv. heilbrrh. Svavari Gestssyni. Það náði samt ekki fram að ganga. Síðan hefur frv. verið þingmannafrv. í gegnum árin og þessi útgáfa einnig. Ég skal játa það hreinskilnislega að ég hef ekkert borið það undir ríkisstjórnina hvort hún vilji flytja þetta sem stjórnarfrv. Í fyrsta lagi er ég ekkert boðin til ríkisstjórnarinnar á hverjum degi, en ég kynnti málið að sjálfsögðu í mínum þingflokki og það var ákveðið að ég skyldi flytja það. Ég hef satt að segja ekkert látið á það reyna hvort hæstv. trmrh. hefði viljað flytja svipað frv. Þó geri ég ráð fyrir að hann hefði sagt eitthvað á þá leið að hann væri með nefnd í gangi sem væri að endurskoða lög um almannatryggingar, en mér er nú eins og fleirum svo farið að ég er orðin ærið langeyg eftir þeirri endurskoðun. Ég hef lýst þeirri skoðun minni í mörg ár og geri það enn að ég trúi ekki á neina heildarendurskoðun almannatryggingalaga fyrr en hægt verður að draga inn í þau lög afgreiðslu lífeyrisgreiðslna lífeyrissjóðanna og það held ég að við hv. 16. þm. Reykv. vitum jafn vel að þangað til á eftir að líða langur tími að það takist, að sameina lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna og almannatrygginga. Og á því held ég að sú endurskoðun muni stranda þangað til.
    Hver viðbrögð Tryggingastofnunar hafa verið við frv. skal það upplýst að þau hafa engin verið því að enginn hefur séð þetta frv. Ég sé enga ástæðu til þess að þeir aðilar sem fara með framkvæmd slíks máls þurfi endilega að sjá það fyrr en búið er að leggja það fram. Auðvitað verður það kynnt þeim þegar málið kemur til vinnslu, en ég hef hins vegar haft með mér í ráðum ýmsa þá sem hafa unnið í Tryggingastofnun, þá sem gjörkunnugir eru högum fatlaðra og lækna sem hafa unnið í návígi við Tryggingastofnun ríkisins, þannig að ég tel að þar hafi verið faglega að farið.
    Það er nú einu sinni eðli manneskjunnar að vera dálítið fastheldin á þau störf sem hún hefur sjálf átt að fjalla um þannig að ég sé enga ástæðu til þess að fara í smiðju hjá einmitt þeim embættismanni eða þeim starfsmanni sem þessi mál annast til þess að semja slíkt frv. Það eru svo ótal margir aðrir fullfærir um það og hef ég ekki meira um það að segja.
    Varðandi það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson sagði áðan má vel vera að þær hugmyndir séu ekki fráleitar að héraðslæknar fari í meira mæli með örorkumat í samráði við starfsfólk t.d. heilsugæslustöðva. Sannleikurinn er sá að fjölmargir heimilislæknar og héraðslæknar hafa kvartað yfir því að þau örorkumöt sem þeir gera fyrst og senda síðan tryggingayfirlækni séu að engu höfð og því síður sé aðstaða heima í héraði virt, hvorki varðandi atvinnu

né annað. Ég get því verið innilega sammála því að athugað væri hvort héraðslæknum væri ekki falið meira verk þarna en nú er. Ég hygg að nú tíðkist það í æ meira mæli að fólk sé kallað suður þó að komið sé skriflegt örorkumat frá héraðslækni heima í héraði og svo virðist sem öll læknisskoðun sé meira eða minna framkvæmd í Tryggingastofnun ríkisins. Sú er ekki hugsunin í lögum um almannatryggingar. Það er alveg ljóst.
    Hv. 1. þm. Reykv. harmaði mjög að hæstv. heilbrmrh. væri ekki hér og á því hefur komið fram skýring og er ekkert við því að segja frekar. Ég held að engin ástæða sé til þess að fresta málinu þangað til hann gengi hér í sal. Vitaskuld hef ég rætt þetta við hæstv. heilbrmrh. mörgum sinnum og honum er ósköp vel kunnugt um það ástand sem er á þessum málum og þá umfangsmiklu óánægju sem er fyrir hendi í landinu. Vitaskuld orðaði ég það við hann hvort hann hefði nokkuð á móti því að slíkt frv. kæmi fram og hann sagði síður en svo. Ég er ekkert hrædd um að hann styðji ekki frv. og mælist því eindregið til þess að frv. fari sína eðlilegu boðleið til nefndar.
    Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. 16. þm. Reykv. að auðvitað vill hver einasta manneskja vinna. Það er mikill misskilningur að menn vilji mjólka kerfið og lifa á bótum. Í fyrsta lagi er ekki hægt að lifa af þeim bótum sem í boði eru og í öðru lagi er það auðvitað hverjum einasta manni eðlilegt að vilja vinna. Það er hárrétt hjá henni að allt of lítið er lagt upp úr atvinnuleit fyrir fatlað fólk. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan að til mín leitaði starfsmaður sem hefur einmitt atvinnu við þetta og telur fulla ástæðu til þess að kanna hvernig það fé nýtist sem sett er í atvinnuleit fyrir fatlaða. Sjálf segir hún að hún sé bæði ómarkviss og beri lítinn árangur en kosti töluvert fé. Þannig á auðvitað ekki að vinna og ég get upplýst það hér að ég lofaði þessum starfsmanni að bera hér fram fsp. um hvernig þau fjárframlög sem í þessi mál eru sett hafi nýst og mun gera það. Ég held því að þarna hafi verið komið inn á einn þátt lífskjara fatlaðs fólks sem kannski er ekki hvað þýðingarminnstur sem er atvinnuleit.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekkert vera að eyða meiri tíma í þetta að sinni. Ég treysti því og vona það af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að þessu máli verði sýndur sómi þegar það nú gengur til hv. heilbr.- og trn. og Alþingi geri sig ekki sekt um það í sjötta sinn að hirða ekki um þessi mjög svo mikilvægu kjaramál stórs hluta þjóðarinnar. ( FrS: Vill hv. þm. bíða eftir hæstv. ráðherra?) Hv. flm. hefur þegar sagt að hann telur enga ástæðu til þess og mælist til þess að málið verði sent til nefndar.