Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma hér til að staðfesta hvað kvennalistakonur varðar að ríkisstjórnin hefur ekki haft neitt samráð við kvennalistakonur um þau þingmál sem hafa verið lögð hér fram. Þau orð sem eru tilefni þessarar umræðu eru kannski út af fyrir sig ekki ýkja þungvæg. Það er þó vissulega ástæða til að hafa orð á þessu og ræða þetta vegna þess að þau samtöl sem hafa átt sér stað virðast hafa fengið óeðlilega mikið vægi meðal fréttamanna og meðal almennings. Við höfum orðið varar við, kvennalistakonur, misskilning vegna þessara orða og það er ekki í fyrsta sinn sem við höfum orðið þess varar að eðlileg samtöl manna á milli, sem vinna hér saman í þinginu, hafa orðið að viðræðum og samráði þegar frá slíku er skýrt. Ég sé nú kannski ekki ástæðu til að ásaka einn eða neinn, en það er afskaplega augljóst að ýmsum er í mun að menn trúi því almennt að ríkisstjórnin hafi tök á málunum og geri sitt til þess að afgreiða mál í einhverju samráði við stjórnarandstöðuna. Við kvennalistakonur leynum því ekkert að við höfum átt samtöl við ýmsa stjórnarliða og því er kannski ekkert að neita heldur að þau eru fleiri og greinilega eftirsóknarverðari í augum stjórnarliða en áður einfaldlega vegna veikrar stöðu ríkisstjórnarinnar. En að kalla slíkt viðræðufundi eða samráð er algjörlega af og frá og út í hött og ég frábið mér að vera borin fyrir slíku, enda vita ráðherrar og aðrir stjórnarliðar að kvennalistakonur finna ekki til neinnar sérstakrar ábyrgðartilfinningar gagnvart þessari ríkisstjórn. Við teljum okkur ekki hafa neinum skyldum að gegna gagnvart ríkisstjórninni. Við höfum hins vegar að sjálfsögðu eins og aðrir hv. þm. skyldur gagnvart þinginu og þjóðinni og leitumst við að rækja þær eftir mætti og til slíkra skyldna felst að láta ekki samskiptaörðugleika og að mörgu leyti erfiðar aðstæður koma í veg fyrir eðlileg þingstörf. Þetta vil ég undirstrika af þessu tilefni og staðfesta þau orð að um samráð ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um framlagningu eða um þingmál hefur ekki verið að ræða heldur samtöl sem óþarft er að gefa meira vægi en sem slíkra.