Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hefur orðið um þingsköp. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að umræður um vinnubrögð þingsins og um sjálfa þingræðisregluna hljóti að tilheyra umræðum um þingsköp.
    Það hefur komið greinilega fram og er kannski hollt fyrir þá fréttamenn sem á þetta hlýða að hæstv. fjmrh. notar hugtakið ,,viðræður`` í æðisérstakri merkingu. Sú merking hefur orðið til þess að fréttamenn hafa talið að einhvers konar samningaviðræður hafi átt sér stað á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Nú hefur hæstv. ráðherra neyðst til að leiðrétta það og er auðvitað þakkar vert þegar hæstv. ráðherra gerir slíkt.
    Hitt atriðið sem ég held að skipti mjög miklu, sem við þurfum að gefa gaum hér, er að hæstv. ráðherra hefur sagt frá því að nú sé búið að leggja fram öll tekjuöflunar- eða skattheimtufrumvörpin. Að vísu hefur hann einhvern fyrirvara um að önnur frv. séu í smíðum og viðræður standi yfir. Í dagblöðum hefur hann reyndar enn fremur skýrt frá því að hægt sé að finna peninga án atbeina Alþingis. En við erum kannski komin hér að þeim kjarna sem skiptir öllu máli og það eru, virðulegur forseti, tilraunir hæstv. ráðherra til að beina ábyrgðinni að stjórnarandstöðunni. Vegna hvers er þetta gert? Þetta er gert vegna þess að nú kemur í ljós að hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er ekki meirihlutastjórn í þeim skilningi sem venjulegir menn skilja það orð.
    Það voru miklar fréttir í framhaldi af stjórnarmyndun þessarar ríkisstjórnar þar sem því var haldið fram að ótilteknir einstaklingar, stundum kallaðir huldumenn, mundu styðja þessa ríkisstjórn. Hér er kannski komið að grundvallaratriði þessara umræðna í dag og það er að hæstv. ríkisstjórn er mynduð á fölskum forsendum. Hún er ekki meirihlutastjórn, hún þarf á atbeina stjórnarandstöðunnar að halda og þess vegna hlýtur hún að leita eftir viðræðum við stjórnarandstöðuna til að koma málum fram, ekki einungis um þau frv. sem hér eru til umræðu heldur, eins og hv. 1. þm. Suðurl. sagði réttilega, um allar forsendur þeirra mála. Því það er ekki hægt að taka eitt og eitt frv. fram og ræða það eitt út af fyrir sig. M.ö.o.: Hæstv. ríkisstjórn viðurkennir með ummælum hæstv. ráðherra að hún afhendi Alþingi Íslendinga völdin. Þetta snertir sjálfa þingræðisregluna. Og það er þess vegna ákaflega mikilvægt að fjölmiðlar, sem bera boð til þjóðarinnar frá Alþingi, geri sér grein fyrir því að hinn 13. desember, þegar síðasta skattafrv. er lagt fram, lýsir hæstv. ráðherra því yfir að það sé ekki hægt að koma málum fram, tilvist ríkisstjórnarinnar hæstv. styðjist ekki við þingræðisregluna og að ríkisstjórnin hafi verið mynduð á fölskum forsendum. Það, herra forseti, skýrir það nákvæmlega hvers vegna hæstv. ríkisstjórn hefur nákvæmlega ekki neitt gert allan þann tíma sem hún hefur setið til að gera þær nauðsynlegu ráðstafanir sem beðið hefur verið eftir, einkum og sér í lagi í

atvinnulífinu.