Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég átti reyndar von á því að hæstv. forsrh. mundi verða viðstaddur umræðuna, en staðgengill hans, hæstv. sjútvrh., gegndi því embætti með ágætum meðan hæstv. forsrh. var á flakki erlendis svo að við skulum láta okkur það duga.
    Mig langar til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í gærkvöld, en þá fór öll umræðan upp í háaloft við yfirlýsingu hæstv. forsrh. þegar hann lýsti því yfir að hann mundi beita sér fyrir því að ákvæðið í 4. gr. bráðabirgðalaganna frá því í maí sl., þ.e. seinni málsgr. sem bannar verkföll og verkbönn, yrði fellt niður. Það er hins vegar enginn vafi á því í mínum huga, eftir að hafa átt fund með fulltrúum vinnumarkaðarins í morgun í hv. fjh.- og viðskn., en þá komu á okkar fund helstu forsvarsmenn bæði launþega og atvinnurekenda til að ræða við okkur um þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. og um þeirra álit og skoðun á því sem fram hefði farið í sambandi við yfirlýsinguna og þau orðaskipti sem áttu sér stað í fjölmiðlum í gærkvöld sem voru afar athyglisverð, að fulltrúar vinnumarkaðarins voru í raun jafnringlaðir og við þingmennirnir eftir þessi orðaskipti. Þeir voru alls ekki samhuga í sínum viðbrögðum og lái þeim það hver sem vill. Þó kom fram hjá sumum að hæstv. forsrh., sem ég sé að kemur nú í salinn, hefur eina ferðina enn látið plata sig því að sumir töldu að hann hefði látið frá sér fara yfirlýsingar í gær í fjölmiðlum sem ekki fá staðist og væri þakkarvert ef hæstv. forsrh. vildi koma eina ferðina enn í ræðustól og gera nákvæmari grein fyrir því hverju hann svaraði t.d. Ásmundi Stefánssyni, forseta ASÍ.
    Það var, eins og kom fram á fundinum í morgun, mjög misjafnt hvað fulltrúar launþega höfðu um þetta mál að segja. Þeir voru flestir sammála því að það eitt að fella niður málsgr. sem bannar verkbönn og verkföll er einskis virði. Efnislega gerist ekki neitt nema, eins og forseti ASÍ sagði ef ég fer nokkurn veginn rétt með eftir honum, að storkunin væri tekin úr þessu ákvæði, en eftir sem áður væri sama ástand. Þar vísa menn að sjálfsögðu í kafla um stéttarfélög og vinnudeilur, lög nr. 80 frá 1938, en í 14. og 17. gr. þeirra laga er skýrt tekið fram að séu samningar í gildi eða samningar bundnir með öðrum hætti eins og t.d. með lögum þar sem samningar eru frystir til ákveðins tíma, þá eru öll verkföll og vinnustöðvanir og verkbönn óheimil þannig að það hefur ekkert í för með sér að fella þessa málsgr. niður úr lögunum. Það er hrein sýndarmennska.
    Þegar við fulltrúar Borgfl. ákváðum í okkar hópi að við gætum ekki lengur sætt okkur við að verkalýðshreyfingin og launþegarnir væru í fjötrum eins og bráðabirgðalögin frá því í maí og reyndar bráðabirgðalögin frá því í september gera ráð fyrir vegna þess einfaldlega að launþegar fengu ekkert fyrir það að vera með bundna samninga og raunverulega bannaða samninga fram á næsta ár, þá þótti okkur sjálfsagt að flytja brtt. við lögin þannig að samningsrétturinn kæmist á strax, þ.e. við gildistöku laganna. Ég spurði fulltrúa launþegahreyfingarinnar á

fundinum í morgun að því hvaða álit þeir hefðu á því, hvort það breytti nokkru hvort samningsrétturinn kæmist á núna, við skulum segja nokkrum dögum fyrir jól, eða hvort samningar væru áfram bundnir til 15. febr. Ég gat ekki heyrt betur en þeir væru sammála okkur um að þetta skipti ekki nokkru einasta máli. Það að halda því fram að einhverjir hátekjuhópar muni ríða á vaðið í ársbyrjun ef samningar verða aftur frjálsir og spenna upp laun er gersamlega fráleitt. Það var m.a. bent á að samningar verkalýðsfélaga á Vestfjörðum verða lausir 1. jan. og samningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja verða sömuleiðis lausir frá áramótum. Um er að ræða miklu fleiri láglaunahópa sem eru með lausa samninga. Þar af leiðandi vísuðu fulltrúar launþega því algerlega á bug að það skipti í rauninni nokkru máli hvort samningar væru frystir til 15. febr. eða hvort þeir væru gefnir frjálsir strax, rétt fyrir jól. Það tekur að sjálfsögðu langan tíma að gera þessa samninga og það kom fram í viðræðum okkar við þessa fulltrúa í morgun að það er í hæsta lagi í kringum febrúar/mars að einhverjir samningar verði komnir á ef það tekur þá ekki enn þá lengri tíma.
    Þá kom einnig fram spurning: Er nokkuð sem bannar mönnum að setjast að samningaborði og hefja viðræður? Þetta er túlkunaratriði sem mér þætti afar vænt um ef einhver hér í hv. þingdeild kann betri skil á. Er í raun og veru hægt að hefja samningagerðina, ganga nokkurn veginn frá samningum, en geyma að undirrita þá þangað til samningsveð sé komið á aftur? Það er spurning sem ég mundi gjarnan vilja fá svör við hjá t.d. þeim hv. fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar sem eiga sæti í hv. deild.
    En ég held að það hafi verið samdóma álit fulltrúa launþega að þessi tillaga og reyndar yfirlýsing hæstv. forsrh. um að fella einungis niður þessa einu málsgr. en að öðru leyti breyta í engu ákvæðum um skerðingu á samningsfrelsinu væri hrein sýndarmennska. Þó kom reyndar fram sú skoðun hjá einum, Ögmundi Jónassyni, formanni BSRB, að þetta væri spor í rétta átt og væri rétt að fella þessa málsgr. niður eina sér þó ekki yrði um aðrar breytingar að ræða þar sem hún opnaði leið til samningafrelsis. En ég held að
ég taki frekar undir þá skoðun forseta ASÍ að hér sé einungis verið að taka storkunina í garð verkalýðshreyfingarinnar í burtu en ekki breyta neinu. (Gripið fram í.) Ja, spurningin er hvort það er einhvers virði. Það er eins og það er að menn lifa ekki af því þó að storkunin sé tekin í burtu. Það lagar ekki afkomu fólks. ( KP: Um hvað eru tillögur Borgfl.?) Tillögur Borgfl., ef hv. þm. hefur ekki lesið þær, ganga út á það að samningsréttur komist á strax við gildistöku þessara laga. ( KP: Gengur út á að fella þennan þátt niður úr 4. gr.) Það gengur út á að fella þennan þátt niður ásamt því að samningar taki gildi, að samningsfrelsi komist á strax og við göngum frá og samþykkjum þessi lög hér í hv. deild og frá hinu háa Alþingi. Það er töluvert annað mál en einungis með sýndarmennsku að fella niður þessa einu grein sem skiptir ekki nokkru máli. ( EKJ: Forseti ASÍ

sagði storkandi smekkleysa, hef ég skrifað niður.) Já, þakka þér fyrir, hv. þm. Þetta er jafnvel enn þá betri lýsing á því sem um er að ræða.
    Þá þótti mér líka afar merkilegt að heyra viðbrögð fulltrúa atvinnurekenda, en þeir voru í öllu sammála okkur. Niðurfelling þessarar greinar breytir engu í þeirra huga einnig. Þeir vísa líka í vinnulöggjöfina og benda á að hún sé tæmandi þar eð hún muni banna hvort sem er öll verkföll og verkbönn þangað til samningsréttur sé kominn á á nýjan leik. Það var hins vegar athyglisvert að heyra þá skoðun þeirra og reyndar kom hún mér ekkert á óvart að allt þetta skipti engu máli, hvenær samningsréttur kæmist á, hvenær samnngar væru á ný frjálsir. Það eina sem skipti máli í þeirra huga var að það mætti ekki verða um neinar launahækkanir að ræða. Það var alfa og omega hjá fulltrúum vinnuveitenda að um engar launahækkanir mætti vera að ræða hvort sem yrði byrjað að semja núna fyrir jól eða í febrúar eða seinna. Það út af fyrir sig er mjög athyglisvert. Það er alveg ljóst að það fer líklega sem horfir að launþegum verður eina ferðina enn ætlað að standa undir efnahagsóstjórn gömlu flokkanna sem hér hefur varað um langt árabil.
    Þá var bent á að í fyrri mgr. 4. gr. Þorsteinslaga, bráðabirgðalaganna frá því í maí, er talað um að þegar samningar á ný verða frjálsir, þ.e. með þeim breytingum sem hafa nú verið gerðar með bráðabirgðalögunum frá því í september, að samningsréttur komist aftur á 15. febr., þá sé heimilt að segja öllum kjarasamningum upp með gildandi uppsagnarfresti sem í þeim kjarasamningum kann að vera. Nú kom það fram hjá fulltrúa Vinnuveitendasambandsins að í þeirra samningum er um engan uppsagnarfrest að ræða og er þá vísað í 6. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem segir að sé ekki um neinn uppsagnarfrest að ræða beri að líta svo á að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir. Hins vegar vildi fulltrúi og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins ekki fallast á þetta og taldi að hugtakið ,,lausnardagur samninga`` væri yfirsterkara. Hann ýjaði að því nánast að færu verkalýðsfélög og launþegahreyfing almennt í það að segja upp kjarasamningum með þessum þriggja mánaða uppsagnarfresti, þá í samræmi við 6. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, mundi væntanlega verða höfðað mál á hendur þeim fyrir brot á vinnulöggjöfinni þar sem vinnuveitendur telja augsýnilega að það sé enginn uppsagnarfrestur í neinum samningum þar sem um ákveðinn lausnardag sé að ræða. Hann sé yfirsterkari því ákvæði að um nokkurn uppsagnarfrest geti verið að ræða. En ég mundi vilja skora á fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í hv. þingdeild að segja álit sitt á þessum málum því hér er um mjög alvarlega hluti að ræða.
    En að lokum vil ég ítreka að við fulltrúar Borgfl. teljum fráleitt að takmarka og binda samningsréttinn lengur en til gildistöku þessara laga og teljum að það fari saman að fella niður þessa mgr. úr 4. gr. Þorsteinslaga og að samningsréttur komist á við

gildistöku laganna.