Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Við höfum heyrt fulltrúa Borgfl. Júlíus Sólnes lýsa því yfir að niðurfelling málsgr. sem hér um ræðir sé hrein sýndarmennska, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.`` Hann hefur lýst því yfir að tillagan um að fella þetta brott og stuðningur forsrh. og stjórnarsinna við þessa tillögu sé reyndar hrein sýndarmennska og einskis virði. Þetta skrifaði ég eftir hv. þm. áðan. Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum Borgfl. er þá að flytja þessa tillögu sem við ætluðum að samþykkja hér.
    Ég held að það sé rétt, herra forseti, að gera í mjög stuttu máli grein fyrir fundi fjh.- og viðskn. í morgun sem haldinn var að ósk sjálfstæðismanna sérstaklega. Maður er orðinn svolítið ruglaður í því hvenær stjórnarandstaðan talar einum rómi og hvenær hún talar í þrennu lagi því það er alveg á víxl, og menn koma upp í ræðustól til að árétta að það megi ekki tala um stjórnarandstöðuna í einu lagi svo að ég held að ég hafi þetta bara svona. Þessi fundur var haldinn í morgun og þangað komu eftirtaldir --- og nú er skylt að geta þess að nefndin hafði í rauninni lokið sinni umfjöllun um þetta mál þegar þetta kom upp í gær og óskað var eftir þessum fundi og hann var að sjálfsögðu haldinn: Frá Alþýðusambandi Íslands: Ásmundur Stefánsson forseti og varaforsetarnir Ragna Bergmann og Örn Friðriksson. Lára Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ. Frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja: forseti bandalagsins, Ögmundur Jónasson, varaforsetarnir Haraldur Hannesson og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Formaður Verkamannasambandsins hafði einnig verið boðaður á þennan fund en hafði ekki getað komið. Einnig komu á þennan fund framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, komu síðar á fundinn, Þórarinn V. Þórarinsson, og Hjörtur Eiríksson, framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna.
    Ég skal hér reyna að gera langa sögu stutta. Það fóru fram umræður um þýðingu þess að fella þetta ákvæði niður. Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Ögmundur Jónasson, fagnaði því að þetta skyldi fellt út úr lögum. Hjá mörgum öðrum, hjá forseta Alþýðusambands Íslands, kom fram að þetta ákvæði hefði enga efnislega þýðingu og spannst af þessu nokkur umræða á fundinum sem ég held að sé nauðsynlegt að sé aðeins vikið að hér og fleiri munu væntanlega gera. Því var sem sagt haldið fram af hálfu Alþýðusambands Íslands að þetta hefði enga efnislega þýðingu og varaforseti Aþýðusambandsins sagði að þetta hefði ekkert gildi varðandi samningsrétt.
    Varðandi það orðalag um efnislega þýðingu sagði Ögmundur Jónasson: ,,Mannréttindi hafa efnislega þýðingu að mínu mati.`` Það skrifaði ég niður eftir honum á fundinum. Það spunnust raunar orðaskipti milli hans og forseta Alþýðusambandsins af þessu

tilefni.
    Forseti Alþýðusambands Íslands sagði að hér væri einungis um áréttingarákvæði að ræða og raunar hef ég heyrt þeirri skoðun haldið fram að sagt hafi verið í sumar þegar bráðabirgðalögin voru gefin út 20. maí að það skipti ekki meginmáli hvort þetta ákvæði væri í lögunum eða utan þeirra. Það væri til áréttingar, en engu að síður hefur Þorsteini Pálssyni forsrh. þótt rétt að hafa það inni.
    Það er rétt, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kallaði fram í áðan, að forseti Alþýðusambandsins kallaði þessa klausu storkandi smekkleysu. Við höfum báðir skrifað það niður. Hann talaði um storkun. Ég spurði forseta Alþýðusambands Íslands hvort í storkun hlytu ekki að felast efnisleg atriði. Annars gæti vart verið um storkun að ræða ef þar væri ekkert efnisinnihald. Forseti Alþýðusambands Íslands svaraði mér á þann veg að þetta væru útúrsnúningar formanns fjh.- og viðskn. Ég spurði hann hvort bæri þá að skilja orð hans svo, ef það væri ekkert efnislegt í þessu, að þá skipti engu máli hvort þetta ákvæði, sem forsrh. hefur lagt til að væri fellt niður, væri inni í lögunum eða utan laganna. Hann svaraði mér til að þetta væru útúrsnúningar formanns nefndarinnar og þetta væri spurning sem ekki væri hægt að svara játandi eða neitandi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég get ekki tekið þátt í umræðum á slíkum grundvelli. Ég hygg að þeir hv. nefndarmenn sem voru viðstaddir þennan fund geti vottað að þetta er rétt frá greint. ( HBl: En ekki í fullri frásögn samt.) Þetta er rétt frá greint.
    Þetta mál var rætt allítarlega og ýmislegt fleira í þessu sambandi og samhengi. Það er sem sagt alveg ljóst að niðurfelling þessa ákvæðis er ekkert annað en það, sem hér hefur verið sagt, að þetta ákvæði er numið brott úr lögunum. Það breytist ekki annað. Það stendur eftir sem áður væntanlega, eftir samþykkt laganna, með leyfi forseta: ,,Með þeim breytingum á kaupgjaldsákvæðum kjarasamninga sem kveðið er á um í lögum þessum framlengjast allir gildandi og síðast gildandi kjarasamningar til 15. febr. 1989. Heimilt skal þó að segja upp kjarasamningum frá 15. febr. 1989 með þeim uppsagnarfresti sem um þá gildir.`` Þetta er alveg skýrt eftir orðanna hljóðan, að menn geta sagt upp
samningum þennan dag.
    Það kunna svo hins vegar að vera ágreiningsefni hvernig þetta skuli útfært og ég hygg að það sé ágreiningsefni lögfræðinga. Það er sjálfsagt álitamál. En það sem hér liggur fyrir er alveg skýrt. Eina breytingin sem orðið hefur frá því að við töluðum saman um þessi mál í gær er að það hefur verið lagt til að fella niður tvær línur úr lögunum. Allt annað er óbreytt. Það sem menn eru að tala um núna í sambandi við 15. febr. var allt saman fyrir hendi í gær þegar umræðan fór hér fram. Það er engin breyting á því. Það hefur verið komið til móts við verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin í landinu með því að taka út þetta ákvæði sem forseti ASÍ kallar storkandi smekkleysu. Það er úr lögum

Þorsteins Pálssonar. Menn geta kallað það hverju nafni sem þeir vilja nefna. En mér fannst það mjög einkennilegt að forseti Alþýðusambands Íslands vildi nánast ekkert fyrir það gefa og ekkert um það segja hvort þetta ákvæði ætti að vera innan eða utan laganna. Það fannst mér mjög einkennilegt.
    Forseti BSRB, Ögmundur Jónasson, viðurkenndi það hreinskilnislega, hispurslaust og umbúðalaust að hann mæti mikils að þetta ákvæði yrði tekið út úr lögunum. (Gripið fram í.) Hann sagði: Mannréttindi hafa efnislega þýðingu. Það sagði hann á miðjum fundinum, hv. þm. Eyjólfur Konráð, og hann endurtók það. En hann lýsti jafnframt andstöðu sinni við bindingu samninga og við lögin í heild. Það er alveg ljóst. Ég ætla ekkert að draga úr því. Mér dettur það ekki í hug. En Ögmundur Jónasson lýsti ánægju með að þessar línur skyldu felldar niður. Það kom alveg skýrt og ótvírætt fram á fundinum.
    Við eigum sjálfsagt eftir að ræða þetta nánar og lengur. Mér finnst það mjög einfalt mál og skil satt að segja ekki hvers vegna það vefst fyrir mönnum. Ég heyrði ekki betur í sjónvarpinu í gær en að hv. þm. Halldór Blöndal fagnaði þessu og þakkaði Sjálfstfl. að sá áfangi skyldi nú hafa náðst að þetta væri tekið út úr lögunum. Hann gerði það mjög skýrt og það var ekki nokkur vandi að skilja hann og engin leið að misskilja, hv. þm. Hann fagnaði því og þakkaði sjálfstæðismönnum að þetta skyldi hafa verið numið brott. Ég er að vísu ekki búinn að fá útskrift af þessum hans ummælum, ég á von á þeim áður en langt um líður, en ég hygg að ég hafi heyrt rétt og tekið rétt eftir.
    Aðeins að lokum, herra forseti. Á fundinum í morgun var óskað eftir útskrift af samtali þeirra hæstv. forsrh. og Ásmundar Stefánssonar sem fram fór á Stöð 2 um kl. 8 í gær. Ég gerði strax eftir að þessi beiðni barst ráðstafanir til að fá þessa útskrift. Hún mun væntanlega berast í þingið á hljóðbandi innan hálfs annars klukkutíma eða svo og ég hef gert ráðstafanir til þess að það verði þegar vélritað upp og afhent nefndarmönnum í hv. fjh.- og viðskn. sem um þetta hafa beðið. En ég endurtek það að lokum og ítreka að hér er í rauninni um afar einfalt mál að ræða, þ.e. að fella niður tvær línur úr þessum lagatexta, línur sem verkalýðshreyfingin hefur verið mjög ósátt við og forseti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja lýsti ánægju sinni með að felldar yrðu niður, en forseti Alþýðusambands Íslands vildi ekki kveða upp úr um og taldi ekki hafa neina efnislega þýðingu og vildi ekki segja hvort þetta ákvæði ætti að vera innan eða utan laganna og sagði að alfarið væri þar um útúrsnúninga nefndarformannsins, þ.e. þess sem þetta mælir, að ræða og þeirri spurningu hvort þetta ætti að vera inni í lagatextanum eða utan hans væri ekki hægt að svara með jái eða neii.