Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara nákvæmlega út í orðaskipti í fjh.- viðskn., en vegna fremur ósmekklegra ummæla formanns nefndarinnar um forseta Alþýðusambands Íslands tel ég óhjákvæmilegt að skýra frá því að forseti Alþýðusambands Íslands spurði formann nefndarinnar beint um það, ég man ekki hvort það var tvisvar, hvaða efnisþýðingu það hefði að fella niður 2. mgr. 4. gr. Eftir svar formanns nefndarinnar sagði forseti Alþýðusambandsins: Ég verð jafnruglaður að hlusta á þig og forsrh. --- Ég held að það sé enginn vafi á því að það hefur enga efnisþýðingu að fella þetta niður eins og ég vakti raunar athygli á þegar við umræðurnar í gær og skal víkja nánar að því síðar.
    Upphafið að því að umræður í deidinni snúast sérstaklega um vinnuréttarmálin er það að í umræðum í gær komst hæstv. forsrh. svo að orði: ,,Í viðræðum við fulltrúa launþega og athugun á stöðu atvinnulífsins upp á síðkastið hefur sú hugmynd komið fram að rétt væri að fella niður 2. mgr. 4. gr. frv., þ.e. að endurreisa rétt til samninga frá t.d. næstu áramótum. Þetta var rætt í ríkisstjórninni í morgun og menn á einu máli um að þetta bæri að gera.`` Annað sem hæstv. forsrh. sagði við umræðurnar í gær hefur ekki efnislega þýðingu.
    Ég gerði þá strax þá athugasemd að sú breyting á frv. sem hæstv. forsrh. lagði til hefði enga efnislega þýðingu og breytti ekki samningsréttarákvæðum bráðabirgðalaganna í þá veru sem hæstv. forsrh. gaf í skyn. Ég var því miður á fundi í gær þegar hæstv. forsrh. ræddi við forseta Alþýðusambands Íslands, en okkur var sagt nefndarmönnum á fundi með fulltrúum Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og opinberra starfsmanna í morgun að forsrh. hefði í sjónvarpinu lýst því yfir að þessi breyting á frv. hefði þau áhrif að stéttarfélögum væri frjálst að semja og knýja á um samninga frá 1. jan. nk. með verkfallsaðgerðum þó slíkur samningur tæki ekki gildi fyrr en 15. febr. Þegar þetta kom í ljós óskaði ég eftir því við formann nefndarinnar að nefndarmenn fengju útskrift af öllu því sem hæstv. forsrh. lét sér um munn fara í hinum ýmsu fjölmiðlum í gærkvöld þannig að við gætum fengið sem gleggsta mynd af því hvað raunverulega vakir fyrir hæstv. forsrh. Því að það er áreiðanlega ekki að ástæðulausu sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins spurði um á fundinum í morgun hvort það væri tilgangur nefndarinnar og kannski ríkisstjórnar að fjölga eða fækka þeim deilumálum sem uppi væru á milli aðila vinnumarkaðarins. Það hefur að sjálfsögðu afskaplega óheppilega þýðingu hvenær sem er og auðvitað ekki síst þegar í gildi eru lög sem takmarka samningsrétt og banna hækkun launa um tiltekinn tíma þegar forsrh. landsins ræðir þau mál ekki af fullri hófsemi og gætni heldur lætur út úr sér detta það sem maður gæti haldið að væri munninum næst hverju sinni. Þetta hlýt ég að segja að sé mjög ámælisvert og harma mjög að umræðurnar skuli hafa lent inn á þessa

braut. En það með öðru lýsir þeirri lausung sem núna er í stjórnarfarinu.
    Eins og fram kom hjá þeim nefndarmönnum báðum sem töluðu á undan mér liggur alveg ljóst fyrir að bæði forseti Alþýðusambands Íslands og lögfræðingur Alþýðusambands Íslands telja augljóst mál að 2. mgr. 4. gr. hafi ekki þýðingu vegna þess að í almennum vinnuréttarlögum er lagt bann við því að efnt sé til verkfalla eða verkbanna á samningstíma. Þess vegna var ástæðulaust að setja þetta ákvæði inn í bráðabirgðalögin í vor. En ástæðan fyrir því að það var gert var hreinlega sú að --- ég veit ekki hvort ég á að segja frá fornu fari eða a.m.k. alllengi hefur sú venja verið að setja slíkt jákvætt ákvæði inn í bráðabirgðalög af þessu tagi til þess að öllum megi ljóst vera án þess að fletta upp í öðrum lögum að almenn vinnuréttarákvæði gildi jafnt um slíka lagasetningu sem um samninga sem orðið hafa á milli aðila vinnumarkaðarins. Það kom til álita og var rætt þegar bráðabirgðalögin voru sett í maímánuði hvort rétt væri að taka þetta ákvæði inn í og ég veit að hæstv. forsrh. man vel að menn létu það fylgja til frekari glöggvunar og áherslu en ekki af því að þeir héldu að það væri nauðsynlegt. Fyrir þessu hef ég fulla vissu, a.m.k. veit ég með vissu að þáv. forsrh. ræddi þetta mál við þá starfsmenn Stjórnarráðsins sem undirbjuggu löggjöfina þó mér hafi að vísu láðst að spyrja forsrh. að því hvort þáverandi utanrrh. hafi gert athugasemd við að þetta ákvæði væri inni. En ef svo er, ef utanrrh. þáv. hefur talið að nauðsynlegt væri að setja ákvæðið inn á þeim tíma var það greinilega í hans huga nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að verkföll gætu orðið í landinu, sem auðvitað hefur sömu merkingu, því að um það var ekki ágreiningur innan þeirrar ríkisstjórnar að bráðabirgðalögin væru með öllu gagnslaus ef menn gætu eftir sem áður gengið til samninga um launahækkanir eða ef menn gætu með verkfallsaðgerðum knúið á að launahækkanir yrðu þann tíma sem lögin voru í gildi í samræmi við þá samninga sem breytt hafði verið með lögunum.
    En auðvitað liggur alveg ljóst fyrir að samkvæmt bráðabirgðalögunum í septembermánuði er ákveðið að fella niður tvær samningsbundnar launahækkanir sem áttu að koma til framkvæmda nú á þessu hausti þannig að enginn ágreiningur
er um það í nefndinni né við aðila vinnumarkaðarins að í bráðabirgðalögunum felst launalækkun frá því sem samið hafði verið um. Ég held líka að um það sé ekki ágreiningur, hvorki við Vinnuveitendasambandið né Alþýðusamband Íslands, að það ákvæði, sem hv. 3. þm. Vesturl. vísaði til áðan í sambandi við 1. gr. frv., ,,Ákvæði í kjarasamningum um launahækkanir eftir 1. mars 1989 halda gildi sínu``, skiptir í rauninni engu máli í sambandi við þá almennu kjarasamninga sem eru í landinu einfaldlega af þeirri ástæðu að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur gildir það að ef ákvæði um uppsagnarfrest vantar í kjarasamninga skuli uppsagnarfrestur almennt vera þrír mánuðir. Á hinn bóginn hlýt ég að leggja áherslu á að

aðilar vinnumarkaðarins voru um það sammála að í lögunum fælist sá skilningur að kjarasamningar sem hefðu eindaga eftir 15. febr. skyldu halda sínu fulla gildi þannig að þeir almennu samningar sem gerðir hafa verið á vegum þorra félaga úr Verkamannasambandinu t.d. halda gildi sínu fram í aprílmánuð en falla úr gildi 10. apríl, ef ég man rétt. Þá er auðvitað heimilt að efna til vinnustöðvana og verkfalla eftir almennum ákvæðum með viku fyrirvara eins og gildir um kjarasamninga.
    Það kom fram hjá framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins að engar óskir hefðu komið frá einstökum verkalýðsfélögum til Vinnuveitendasambandsins um að annar skilningur eða annar háttur skyldi á hafður og ég held raunar að um þetta sé ekki ágreiningur. En ég ítreka í þessu sambandi að það er mjög ámælisvert ef stjórnvöld hverju sinni eru að vekja upp óróa um kjaramálin með vanhugsuðum orðum sem látin eru falla auðvitað í auglýsingarskyni til að reyna að lyfta pínulítið sjálfum sér um stundarsakir og koma með óverulegum hætti höggi á pólitíska andstæðinga sína.
    Ég verð sérstaklega að harma það ef satt er að hæstv. forsrh. hafi sagt það í útvarpi í gær, annaðhvort hljóðvarpi eða sjónvarpi, að sjálfstæðismenn hafi tekið því illa að þetta ákvæði yrði fellt úr bráðabirgðalögunum. Ég tók það skýrt fram í minni fyrstu ræðu að þetta ákvæði hefði ekki efnislega þýðingu um leið og ég vakti athygli á því að ef hæstv. forsrh. vildi að samningsrétturinn tæki gildi 1. jan. yrði að breyta öðrum ákvæðum kaflans um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Þetta er í sjálfu sér, herra forseti, stærra mál en virðist við fyrstu sýn vegna þess að það er öldungis ljóst að fjölmiðlar hafa að engu þau skýru ákvæði, sem eru í lögum um sjónvarp og hljóðvarp, að öll sjónarmið eigi að njóta sama réttar í slíkum stöðvum, allir eigi að fá að flytja sitt mál jafnt, burtséð frá því hvort þeir eru í meiri eða minni hluta, stórir eða smáir á hinu háa Alþingi. Það er raunar grundvallarregla í okkar þingsköpum þegar ákveðið er að allir stjórnmálaflokkar, burtséð frá stærð þeirra, skuli hafa sama tíma og meira að segja utanþingsflokksmaður sem einn er, eins og Stefán Valgeirsson, helming þess tíma sem heill stjórnmálaflokkur hefur. Með þessu er auðvitað greinilegt að Alþingi Íslendinga leggur meira upp úr því að sjónarmiðin heyrist en hinu hversu margir menn eru á bak við sjónarmiðin. Af þessum sökum liggur auðvitað þung ábyrgð á þeim mönnum sem eru í þeirri aðstöðu í þjóðfélaginu, eins og hæstv. forsrh. þegar hann getur hlaupið til hvenær sem hann vill og allar sjónvarps- og útvarpsstöðvar eru opnaðar upp á gátt fyrir honum, að láta a.m.k. kyrrt liggja en sé ekki í skjóli þess að enginn er til andsvara að gera pólitískum andstæðingum sínum hér í þinginu upp rangar skoðanir. Það er a.m.k. lágmarkskrafa sem maður hlýtur að gera til forsrh. og ég held raunar, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé, ef stjórn Alþingis vill halda virðingu sinni og vill rísa undir þeim trúnaði sem hún hefur, að stjórn þingsins taki upp

viðræður við sjónvarps- og útvarpsstöðvar um það með hvaða hætti sé hægt að tryggja að sjónarmið hinna einstöku þingflokka sem eru hér í þinginu fái a.m.k. hæfilegan rétt til þess að heyrast hjá þjóðinni. Á þetta vil ég leggja ríka áherslu.
    Ég hlýt, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu líka að leiðrétta það sem formaður nefndarinnar sagði í sambandi við ummæli Ögmundar Jónassonar. Það er rétt hjá formanni nefndarinnar að í byrjun lýsti formaður BSRB yfir ánægju yfir þeirri breytingu sem hæstv. forsrh. vildi gera á bráðabirgðalögunum, en eftir að hann hafði sannfærst um að í breytingunni fólst engin efnisbreyting, skipti í rauninni engu máli og var spurður beint að því hvort honum þætti betra eða verra að niðurlagsorð 4. gr. væru inni, þá svaraði hann ekki beint heldur almennt hinu, að stjórn BSRB væri andvíg því að með lögum væru settar hindranir fyrir samningsfrelsi eða verkfallsrétti og talaði um mannréttindabrot í því sambandi. Ég gat með engum hætti skilið Ögmund Jónasson þannig að hann teldi sér duga að banna verkföll á einum stað ef þau væru leyfð á öðrum stað í lögunum. Auðvitað var hann að tala um samnings- og verkfallsréttinn í heild og öll skírskotun til hans ummæla á annan veg er auðvitað meiðandi fyrir hann sem forustumann launþegasamtaka og af þeim sökum óhjákvæmilegt að leiðrétta það þegar hér á Alþingi að auðvitað sagði hann ekki fyrir hönd síns fólks að hann sætti sig við eitthvert hálfkák í þessum efnum. Auðvitað var það víðs fjarri hans huga og auðvitað hlýtur hann að líta á það eingöngu hverjar séu efnisástæður, hvernig lögin séu í landinu og hvort
samningsrétturinn sé með einhverjum hætti tepptur með þessum lögum, skertur frá því sem er í hinum almennu lögum um verkfallsrétt opinberra starfsmanna.
    Nú getur hæstv. forsrh. flett upp í þeim lögum ef hann er á öðru máli og gengið úr skugga um hvort ekki eigi sömu almennu vinnuréttarsjónarmiðin við gagnvart opinberum starfsmönnum og hinum sem eru á hinum almenna vinnumarkaði.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni: í viðræðum við fulltrúa launþega og athugun á stöðu atvinnulífsins upp á síðkastið. --- Það var auðvitað óhjákvæmilegt vegna þessara orða hæstv. forsrh. í deildinni í gær að spyrja þá sem við fengum til fundar við okkur hvort viðræður hefðu verið í gangi á milli forsrh. og þeirra sem hann segir fulltrúa launþega. Nú var ég svo mikið barn þegar ég hlýddi á hæstv. forsrh. að ég gætti ekki að því að í þolfalli eintölu og þolfalli fleirtölu hljómar orðið fulltrúi eins. Hæstv. forsrh. sagði ,,í viðræðum við fulltrúa launþega`` og það sem hann í raun og veru meinti var: í viðræðum við einn fulltrúa launþega. Það kom m.ö.o. í ljós á fundinum í morgun að af þeim mönnum sem þar voru hafði einungis einn átt viðræður við forsrh. um þetta efni nú, það var Ögmundur Jónasson, og hann átti að því frumkvæði í gær að hans eigin sögn. Forseti Alþýðusambands Íslands sagði að upp á síðkastið hefði hann ekkert viðtal átt við forsrh. nema í beinni útsendingu í Stöð 2 í gær og þegar ég spurði þá

framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins hvort nokkuð hefði verið rætt við þá um stöðu atvinnuveganna var svar þeirra að það hefði ekki verið gert. Það væri af þessum sökum mjög fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það frá hæstv. forsrh. við hverja aðra, ef einhverjir eru, fulltrúa launþega var rætt ef hið litla og stutta samtal sem átti sér stað í gær var eina samtalið sem verið hefur upp á síðkastið milli þessara tveggja manna fyrir utan það samtal að vísu sem Ögmundur Jónasson tiltók og fjmrh. og forsrh. áttu við forustumenn BSRB eftir þing þess um daginn þar sem þeir lýstu almennt þeim sjónarmiðum sem þingið hafði til þess sem það kallar brot á mannréttindum. (Gripið fram í.) Já, fyrir langa löngu. Það er öldungis ljóst að þarna er ekki um neitt samráð að ræða sem maður gat a.m.k. merkt á þessum fundi, en ég býst á hinn bóginn við því, ef formanni nefndarinnar hefði verið slíkt kunnugt, að hann hefði þá gætt þess að slíkir launþegafulltrúar kæmu til fundar við nefndina í morgun ef hugmynd meiri hl. er þá að upplýsa okkur í minni hl. um hvernig þessar umræður gangi og hvert efnisinnihaldið er.
    Ég hlýt, herra forseti, að velta upp þeirri spurningu hvort ekki verði að líta svo á að alvarlegt ástand sé í landinu að mati þeirra sem setja bráðabirgðalög þess efnis að afnema umsamdar kjarabætur og banna samningsrétt í landinu. Ég vek athygli á því að hæstv. menntmrh. og aðrir í ríkisstjórninni voru fullkomlega sammála því að ákvæði 2. mgr. 4. gr. stæði áfram í lögum svohljóðandi: ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.`` Auðvitað liggur í hlutarins eðli ef skoðað er hvernig bráðabirgðalögin frá því í september eru byggð upp að með beinum jákvæðum hætti hefur Alþb. staðfest að á þeim tíma taldi það nauðsynlegt að þetta ákvæði héldist í lögum. Ef flett er upp í 15. gr. þeirra laga sem hér eru til umræðu stendur þar, með leyfi hæstv. forseta: ,,1. mgr. 4. gr. bráðabirgðalaga nr. 14 20. maí 1988 orðast svo:`` Ekki þurfti annað en að strika út einn tölustaf og þrjá stafi til þess að niður félli 2. mgr. 4. gr. Þá hefði þetta paragraf í bráðabirgðalögunum orðið: ,,4. gr. bráðabirgðalaga nr. 14 20. maí 1988 orðast svo:`` Það eru m.ö.o. fjórir stafir, einn tölustafur og þrír bókstafir, sem bætt er fram fyrir 15. gr. bráðabirgðalaganna, sem kveða skýrt á um að það var ekki handvömm sem olli því að síðari málsgr. hélst inni heldur var þess vandlega gætt að málsgr. héldist. Það er líka auðséð af uppbyggingu bráðabirgðalaganna að öðru leyti að þessi var vilji meiri hl. vegna þess að aðrar greinar þeirra laga sem meiri hl. vildi halda inni, handhafar bráðabirgðalagavaldsins, voru látnar standa. Þær greinar bráðabirgðalaganna sem gátu efnis síns vegna staðið óbreyttar og féllu að stefnu ríkisstjórnarinnar voru látnar standa óbreyttar. Það er af þessum ástæðum fullkomlega ljóst að hæstv. menntmrh. ber fulla stjórnskipulega ábyrgð á því að þetta ákvæði skuli vera inni í lögunum og þýðir ekki

fyrir hann að koma hingað upp eftirleiðis og reyna að lýsa einhverju öðru yfir nema honum farist svo að honum líði best þegar hann er í skugga Sjálfstfl.
    Ég sagði áðan að það hljóti að vera mjög alvarlegir tímar þegar handhafar bráðabirgðalagavaldsins taka ákvörðun um það beinlínis að lækka laun frá samningum eins og gert var með septemberlögunum, beinlínis banna nýja samninga og afnema verkfallsréttinn til næsta árs. Fyrir því hljóta að sjálfsögðu að liggja mjög alvarlegar og knýjandi ástæður og ekki verður öðru trúað en að þeir menn sem fyrir slíku standa telji nauðsynlegt að á bak við slíka lagasetningu sé mikil festa til þess að þjóðin geti fundið að þeir sem beri ábyrgð á henni standi saman um þær aðgerðir sem þessir menn vilja grípa til í þeim erfiðu aðstæðum sem þeir meta svo.
    Það er þess vegna vil ég segja fyrir venjulegan Íslending með öllu
óhugsandi að ríkisstjórnin hafi á þeim tíma þegar bráðabirgðalögin voru sett verið ósammála um hvaða ákvæði ættu að vera í gildi varðandi framkvæmd þeirrar kjaraskerðingar og þess rofs á samningsrétti sem kveðið var á um því að auðvitað getur þessi ríkisstjórn ekki frekar en aðrar ríkisstjórnir sem eins er ástatt um ætlast til þess að þjóðin treysti þeim, að þjóðin sætti sig við kjaraskerðinguna, að þjóðin sætti sig við að vera svipt umsömdum launahækkunum, að þjóðin sætti sig við að vera svipt samningsrétti og verkfallsrétti nema hún finni að þeir sem komu þessu öllu í kring hafi haft eitthvað þarflegt fyrir stafni sem þeir vilji hrinda í framkvæmd. En nú er það ekki svo.
    Við höfum hér verið í umræðum um tvenn bráðabirgðalög, bráðabirgðalög á þskj. 8 og þskj. 20. Þeir fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem hér hafa talað hafa talað í hálfkæringi. Hæstv. menntmrh. tók til máls og hafði óskaplega gaman af því að einn þingmanna Sjálfstfl. skyldi ekki hafa verið sammála ritara Reykjavíkurbréfs. Og þegar formaður fjh.- og viðskn. kom upp áðan talaði hann um að Þorsteinn Pálsson hafi viljað hafa þetta inni í maí, 2. mgr. 4. gr., Þorsteinn Pálsson. Ekki ríkisstjórnin, ekki Alþfl., ekki Framsfl. heldur Þorsteinn Pálsson. Og undir öðrum kringumstæðum þegar þessi hv. þm. tekur til máls, ef hann gleymir sér, streymir frá hjarta hans alls konar óhróður um Sjálfstfl., sem ég hef satt að segja pínulítið gaman af að hlusta á, í staðinn fyrir að honum væri nær að tala um þær alvarlegu aðstæður sem hér eru í þjóðfélaginu.
    Það var alveg laukrétt, sem hv. 7. þm. Reykn. sagði áðan, að fulltrúi Vinnumálasambands samvinnufélaganna lét í ljós þá skoðun í nefndinni í morgun að það fólk, sérstaklega úti á landi, sem þekkti hvernig búið er að sjávarútveginum og framleiðsluatvinnuvegunum, mundi ekki fara í harðar verkfallsaðgerðir nú vegna þess að þetta fólk skilur hversu völtum fótum atvinnuöryggi þess stendur. Við getum farið frá einu byggðarlagi til annars. Ég get talið upp mörg byggðarlög þar sem búið er að loka frystihúsum og með öllu er óvíst hvort þau verði opnuð eftir áramótin. Við fáum fréttir af því að af

þessum ástæðum, erfiðleikum í sjávarútveginum, sé verið að selja skip frá ýmsum stöðum sem þurfa á þeim að halda til að afla hráefnis fyrir fólkið vegna þess að atvinnulífið er svo einhæft í sjávarplássunum eins og við öll vitum að þetta fólk getur ekki gripið upp aðra vinnu.
    Ef við t.d. bara rifjum upp hvaða áhyggjur þingmenn Suðurnesja hafa haft af því ef Hraðfrystihús Keflavíkur verður lokað getum við rétt reynt að setja okkur í spor fólksins á Stöðvarfirði, fólksins á Ólafsfirði, fólksins við Súgandafjörð. Ég get talið upp ótal marga staði aðra, hvernig þessu fólki líður. Og allt þetta fólk, hver einasti maður og hver einasta kona veit að erfiðleikarnir í þeirra heimabyggðum eru ekki komnir til af því að þeir menn sem sótt hafa sjóinn hafi ekki staðið sig né af því að þeir menn sem staðið hafa fyrir útgerðinni eða rekið frystihúsin hafi ekki lagt sig fram og komið á margvíslegri hagræðingu né því að afköstin í frystihúsunum hafi ekki verið nógu mikil og fólkið hafi ekki reynt að leggja sig fram, bæði hraða til að bjarga hráefni eða um vöruvöndun. Þetta fólk veit að það eru aðrar ástæður sem valda þessum erfiðleikum og það gerir sér grein fyrir því að höfuðástæðan fyrir því hversu illa stendur á hjá því á þessari jólaföstu er sú að forustumenn þjóðarinnar, forsrh., sjútvrh., svo ég taki þá ráðherra sem þeirra mál varða mest, hafa viðurkennt fyrir mörgum vikum og mánuðum að gengi krónunnar sé ekki í samræmi við rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna. Báðir þessir menn, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh., hafa lýst því yfir opinberlega að gengi krónunnar sé of hátt skráð og báðir þessir menn fá til sín --- ég skal ekki segja á hverjum einasta degi en ég fullyrði að í hverri einustu viku fái þeir ekki einn heldur fleiri menn til viðtals, annaðhvort persónulega eða í síma eða þeir fá bréf og erindi sem sýna fram á það að staðan hjá þessum fyrirtækjum er að versna og heldur áfram að versna. Þetta fólk spyr auðvitað þá menn sem bera ábyrgð á atvinnulífinu á stöðunum, hvort sem það eru sveitarstjórnarmenn, stjórnarmenn í frystihúsum, útgerðarfélögum, hjá saltfiskverkunum eða annars staðar, þegar þeir koma til baka: Hverjar voru undirtektirnar? Eru einhverjar líkur á því að vilji stjórnvalda standi til þess að rétta stöðu okkar? Eigum við einhvern málsvara í Stjórnarráðinu? Heyrist rödd okkar inn í Stjórnarráðið? Er þar einhver sem lætur sig einhverju skipta hvernig okkur líður?
    Þetta eru hin alvarlegu tíðindi og því eru það mjög sorgleg og skýr skilaboð til þessa fólks ef þeir menn sem bera ábyrgð á stjórn landsins, hvort sem það er forsrh. sjálfur, formaður fjh.- og viðskn., sem ég sé að hlær mjög yfir þessari ræðu, eða aðrir, geta einungis talað í hálfkæringi um erfiðleika þessa fólks og um þá stöðu sem þjóðarbúið er komið í.
    Við getum líka spurt sjálfa okkur, ekki síst vegna þess að alþýðubandalagsmenn hafa talað um að fyrirtækin eigi að breyta rekstrinum, sýna meiri hagkvæmni í rekstri, þá getum við spurt sjálfa okkur: Hefur sá maður sem nú situr í sæti fjmrh. gert

eitthvað eftir að hann tók eftir því að
tekjuliðir fjárlaganna eru að bregðast? Hvaða ráðstafanir hefur hann gert á þessari jólaföstu til þess að hagræða eða draga úr rekstrarkostnaði ríkissjóðs? Það er kannski ekki neitt. Það má vel vera að það sé ekki neitt. Það getur vel verið.
    Að síðustu, herra forseti, vil ég aðeins minna á að þegar þetta mál var til 1. umr. spurði ég hæstv. forsrh. að því hvort þessi bráðabirgðalög styddust við meiri hluta hér á Alþingi. Þá sagði hann að forseta lýðveldisins væri fullkunnugt um valdahlutföll á Alþingi. Ég skildi hans orð svo að allir þeir sem styðja ríkisstjórnina hafi lýst yfir stuðningi við bráðabirgðalögin. Í ljósi þeirra umræðna sem nú hafa orðið í deildinni um verkalýðs- og samningsréttarmál er óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. skýri frá því hvort allir þingmenn Framsfl., Alþfl. og Alþb., auk Stefáns Valgeirssonar, hafi lýst yfir stuðningi sínum við bráðabirgðalögin án fyrirvara. Við vitum um þann fyrirvara sem hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson hefur gert og hann ítrekaði í umræðunum í gær þannig að fyrirspurn mín lýtur ekki að honum heldur að öllum öðrum þingmönnum Alþfl., Alþb., Framsfl. og Samtaka jafnréttis og félagshyggju. Ég held að hæstv. forsrh. geti ekki skorast undan að svara þessu í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa orðið.
    Ég vona, herra forseti, að hæstv. menntmrh. tali efnislega um frv. þannig að við getum skilið hvaða stefnu Alþb. hefur í efnahagsmálum og atvinnumálum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, þar sem hæstv. ráðherra vitnaði í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, að fá upplýst hvort hann er sammála því sem ég hafði eftir hæstv. fjmrh. í gær og hefur m.a. birst í mjög snjallri grein í Morgunblaðinu sl. þriðjudag þar sem gerðar eru athugasemdir við Reykjavíkurbréf.
    Ég vil, herra forseti, vekja athygli á því að ekki sást einn einasti ráðherra Alþfl. við 1. umr. um bráðabirgðalög um aðgerðir í efnahagsmálum eða 1. umr. um bráðabirgðalög um efnahagsaðgerðir og ekki heldur við 2. umr. bráðabirgðalaga um aðgerðir í efnahagsmálum né nú við umræður um bráðabirgðalög um efnahagsaðgerðir nema kannski smástund eins og fiðrildi. Ég hlýt að lýsa þeirri skoðun minni að það sé skylda forseta að sjá til þess að einhver af ráðherrum Alþfl. sé viðstaddur umræðuna og geti eftir atvikum tekið þátt í henni. Það er ekki vansalaust að flokkurinn skuli með þessum hætti reyna að skjóta sér undan því að fjalla um það sem hér fer fram og þeim réttmætu spurningum sem einstakir þingmenn hljóta að bera fram við forustumenn Alþfl.
    Ég vil líka vekja athygli á því að samningsréttarmálin taka mjög til hæstv. fjmrh. og auðvitað er óviðkunnanlegt annað en að hann sé a.m.k. viðstaddur þegar hæstv. forsrh. gerir grein fyrir sínu máli hér á eftir þannig að maður geti spurt ráðherrann að því sem handhafa samningsréttar opinberra starfsmanna hvaða skoðanir hann hafi á því sem hæstv. forsrh. segir. Því eins og ég lagði þunga áherslu á áðan þá á ríkisstjórnin ekki að búa til vandamál, fleiri ágreiningsefni og álitamál, allra síst á

tímum eins og núna. Við ætlumst til þess, ekki aðeins þingmenn stjórnarandstöðunnar heldur þjóðin öll, að þeir menn sem eru í ábyrgðarstöðum tali af hófsemi og gætni um þessi mál ef þeir á annað borð telja nauðsynlegt að skerða verkfalls- og samningsréttinn.