Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég held að það sé ágætt að hv. deild ræði þessi mál í rólegheitum sem hér eru uppi, bæði hin almennu efnahags- og atvinnumál og ekki síður bráðabirgðalögin að því er snertir vinnudeilumálin sérstaklega.
    Hæstv. forsrh. hefur farið ítarlega yfir þessa þætti, bæði varðandi stöðu atvinnuveganna og eins þessi vinnudeilumál, og er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að lengja þá umræðu sérstaklega að öðru leyti en því að ég vil vísa til þess að þær tölur sem hann flutti hér um stöðu atvinnufyrirtækjanna hljóta náttúrlega að vera talsvert alvarlegt umhugsunarefni, að fyrirtæki sem velta 11 milljörðum kr. skuldi 16 milljarða kr. Menn geta svo spurt sig alveg í fullri einlægni: Er það endilega rétt að segja sem svo að gengislækkun hljóti að leysa þann vanda sem hér er uppi?
    Ég vísa til þess álits sem fram kom frá forstjóranefndinni sl. sumar þar sem menn voru þeirrar skoðunar að gamaldags gengislækkun, ef ég má nota það orð, gæti í raun og veru ekki leyst vanda fyrirtækjanna með þeim hætti sem menn töldu þá og telja enn að sé óhjákvæmilegt að gera. Þetta finnst mér vera talsvert mikið umhugsunarefni og gera það að verkum að viðhorf atvinnurekenda til gengisbreytinga séu núna allt önnur en þau voru t.d. á tímum viðreisnarstjórnarinnar af eðlilegum ástæðum, í fyrsta lagi þeirri ástæðu að þá voru skuldir fyrirtækjanna ekki á sama hátt á erlendum grunni og þær eru núna, í öðru lagi vegna þess að vextir voru þá yfirleitt lægri en þeir eru núna og í þriðja lagi vegna þess að viðreisnarstjórnin tók alltaf um það ákvörðun í leiðinni, bæði í gengisbreytingunum 1967 og 1968, að þrátt fyrir þessa gengisbreytingu skyldi kaupgjaldsvísitala ekki hækka sem svaraði gengisbreytingunni. Það þýddi m.ö.o. það að sú fjölgun á krónum sem menn fengu út úr gengisbreytingunum hélst lengur inni hjá fyrirtækjunum nettó en er við núverandi aðstæður sem hafa sem sagt breyst í fyrsta lagi með þessum hætti að fyrirtækin skulda núna í erlendri mynt, fjármagnskostnaður er hærri og allir vita að þó að kaupgjaldsvísitala sé ekki í gangi munu verkalýðsfélögin, strax og þau hafa möguleika til, sækja viðbót út á þá kaupskerðingu sem í gengislækkuninni felst. Þá kemur aftur á móti þessi hugmynd sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er hér með, og ég verð að segja alveg eins og er að ég dáist að honum fyrir það hvað hann er duglegur við að hamra á þessu. Ég dáist að honum sérstaklega fyrir það að yfirleitt alltaf þegar hann er að flytja þessar ræður sínar er að jafnaði fjöldi manns í salnum sem yfirleitt hristir hausinn, a.m.k. hér í þessu húsi. En ég hlusta á hann og ég segi þá um úrræðið sem hann hefur á hina hliðina að því er launafólkið varðar sem er niðurfærsla kostnaðar: Þetta er aðferð sem oft hefur verið notuð í tengslum við gengisbreytingar. Það var t.d. gert haustið 1978 þegar söluskattur var felldur niður af matvörum og það nam í vísitölu 3--4 prósentustigum og söluskattur var felldur niður af

fleiri lífsnauðsynjum og niðurgreiðslur voru auknar sem eru í raun og veru kannski hliðstæð aðgerð eða hugsuð með hliðstæðum hætti. Þetta gerðist í raun og veru á móti gengisbreytingunni sem þá var ákveðin líka. Kaupmáttur launanna styrktist því þrátt fyrir gengislækkunina af því að menn ákváðu að taka þarna út tiltekinn kostnað hjá heimilunum í landinu með því að minnka þessa óbeinu skatta ríkisins. Sú ríkisstjórn var hins vegar þeirrar skoðunar, eins og ríkisstjórnir hafa alltaf verið hvað svo sem þær hafa gert, greyin liggur mér við að segja, og hvað svo sem menn kunna að gera í framtíðinni þegar hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er farinn að ráða þessu öllu, eða einhverju, að það þyrfti að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. Og á móti þeim óbeinu sköttum sem hún sleppti voru lagðir á beinir skattar, m.a. mjög umdeildir skattar sem við bárum ábyrgð á og menn töldu að væri hæpið að leggja á eins og við gerðum af því að þeir voru að nokkru leyti afturvirkir. Þeir voru miðaðir við tekjur fyrra árs, ársins 1977, og um þetta voru miklar deilur eins og eðlilegt er.
    En þá kem ég að spurningunni: Skyldi nú öll stjórnarandstaðan vera alveg í takt í þessum punkti? Ég skil það út af fyrir sig vel að öll stjórnarandstaðan geti náð saman um það að lækka eigi óbeina skatta, um 5% í söluskatti var nefnt hérna, að ég held. Sem þýðir 8000 millj. kr. út úr ríkissjóði 1989. Það er náttúrlega talsverð upphæð. Allir skattar félaga á næsta ári eru taldir verða upp undir 2 1 / 2 milljarður svo ég nefni dæmi til samanburðar og allt skólakerfið kostar á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. eitthvað um 12.000 millj. kr. Sem sagt, menn eru þarna með hugmynd um það, eða hvað, að fella niður tekjur úr ríkissjóði sem duga þó til að kosta 3 / 4 hluta af skólakerfinu. Það er alveg ljóst að þingmenn þeir sem standa að þessum hugmyndum vilja ekki skera niður skólakerfið um 3 / 4 . Það væri auðvitað bara fölsun að gera þeim upp slíkar hugmyndir. Spurningin er þá: Hvernig ætla þeir að reka skólakerfið eða aðra félagslega þjónustu þrátt fyrir þennan niðurskurð á tekjum ríkissjóðs? Ein leiðin í þessu efni er þá sú að leggja á beina skatta í staðinn fyrir hina óbeinu og halda þannig jafnvægi í ríkissjóði. Ég hygg að það sé mjög erfitt að ná um það samstöðu að hækka beina skatta um 8000 milljónir kr. í staðinn fyrir þá skatta sem er í raun og veru verið að leggja
til að verði felldir niður. Ein leiðin er þá sú að leggja á beina skatta upp á 8000 millj. kr. í staðinn fyrir þá óbeinu skatta sem stjórnarandstaðan vill fella niður. Ég fullyrði að milli stjórnarandstöðuflokkanna er engin samstaða um þetta mál. Þeir eru ekkert búnir að gera það upp við sig hvað eigi að koma í staðinn fyrir þessa 8000 millj. kr. tekjulækkun ríkissjóðs sem þeir eru að tala um.
    Önnur leiðin er þá sú að skera niður, skera niður hina almennu þjónustu ríkisins upp á 8000 millj. kr. og, eins og ég sagði áðan, eru þetta 3 / 4 af skólakerfinu. Enginn maður í stjórnarandstöðuflokkunum er inni á því að skera niður skólakerfið og heldur ekki heilbrigðiskerfið

væntanlega. Ég held að það tal sem uppi er í sambandi við niðurskurð á ríkisbúskapnum sé oft í raun og veru byggt á býsna miklum misskilningi, þeim að þarna sé hægt að sækja stórkostlega fjármuni. Hvað er ríkisbúskapurinn? Það er kaup fólksins sem vinnur þar í grófum dráttum. Auðvitað er hægt að spara ýmislegt en það eru engir milljarðar á móts við þessar 8000 millj. sem menn eru að tala um að fella niður. Auðvitað mætti haga t.d. tannlæknaþjónustu hér öðruvísi og spara þar örugglega nokkur hundruð millj. kr. Auðvitað mætti haga t.d. lyfjakostnaði öðruvísi og spara þar nokkur hundruð millj. kr. Ég er hins vegar alveg sannfærður um það að að því er tekur t.d. til heilbrigðiskerfisins að öðru leyti, tökum sem dæmi þjónustuna við aldraða, vantar okkur meiri peninga. Það er ekki þannig að það sé hægt að minnka þar neitt verulega. Sums staðar er staðan beinlínis þannig að það mætti reyndar spara peninga annars staðar með því að auka útgjöld við ákveðna þætti heilbrigðisþjónustunnar eins og t.d. með því að styrkja hjartaskurðlækningar á Landspítalanum sem mundi þýða sparnað á öðrum útgjöldum ríkisins á sama tíma. En ég er sannfærður um það að þarna eru engar 8000 milljónir.
    Þriðja leiðin sem menn hljóta þá að velta fyrir sér er sú að gera ekki neitt annað en að fella þetta niður, þ.e. láta þjónustuna halda áfram og leggja ekki á beina skatta heldur reka ríkissjóð með halla upp á þá eitthvað um 8000 eða 5000--10.000 millj. kr. eftir því hvar það lendir og það er nokkurn veginn það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er yfirleitt að benda á. Þá er málið auðvitað þannig: Hvað er halli á ríkissjóði? Halli á ríkissjóði er skuldasöfnun. Það er óhjákvæmilegur hlutur að þá þjónustu sem er borguð svo að segja með hallanum verður að borga með einhverjum seðlum og þeir eru teknir að láni.
    Þá eru tvær leiðir í grundvallaratriðum til í þeim efnum. Önnur er sú að taka erlent lán til þess að halda uppi rekstri ríkisins, til að greiða m.a. laun opinberra starfsmanna, og það er leið sem við viljum ekki fara. Við höfum verið algjörlega sammála um það að það eigi ekki að taka erlend lán til þess að standa undir rekstri ríkisins. Ég hef a.m.k. verið þeirrar skoðunar. Menn hafa stundum seilst til þess að taka jafnvel erlend lán í ýmsar framkvæmdir í hinu félagslega kerfi en til rekstrarins hafa menn ekki tekið erlend lán. Það eru að vísu til dæmi um slíkt, mjög takmörkuð, og þau eru engan veginn til fyrirmyndar og um það erum við öll sammála.
    Hin leiðin er þá sú að fjármagna þetta innan lands. Jú, það er sjónarmið út af fyrir sig. Þá bendi ég á það að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að fjármagna talsvert innan lands af lánsfjárþörf í raun og veru fyrst og fremst B-hluta ríkissjóðs. Ég man ekki alveg töluna, en þar er um verulegar upphæðir að ræða og það er alveg augljóst mál, hjá þessari ríkisstjórn eins og þeirri síðustu og næstsíðustu og alltaf, að menn í raun og veru setja þessa tölu býsna hátt þegar verið er að vinna í fjárlagafrv. Og reynslan hefur oft orðið sú að það hefur orðið erfitt að taka alla þessa fjármuni að

láni á innlendum markaði sem menn hafa verið að tala um. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þessir peningar, sem þarna þyrfti að taka að láni á móti í mesta lagi 8000 millj. kr. eða hluta af þessum 8000 millj., fengjust ekki nema ríkið kastaði sér út í enn þá harðari samkeppni um fjármagnið en það þegar hefur gert, sem þýðir það að vextir hækka, sem þýðir það að atvinnulífið hefur minni aðgang að fjármagni en það hefur í dag og verður að borga það fjármagn sem það fær með hærri vöxtum en nú eru þegar greiddir og þykir þó víst flestum nóg um. Spurningin er þá um það hvort menn vilja í þessu sambandi gera tilraun til þess að segja: Tökum bara bindiskylduna út úr Seðlabankanum til að leysa þetta. Það er nú ekki alveg svo einfalt vegna þess að þeir peningar sem þar eru eru í notkun með ýmsum hætti. Þeir eru eins og við ræddum um hér fyrir nákvæmlega 10 árum, ég og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, reikningslegt mótvægi --- eins og það heitir í Seðlabankanum og er eiginlega alveg óskiljanlegt, en ég hef svo gaman af að nefna þetta af því að hv. þm. hefur dálítið gaman af þessu orðalagi líka og við munum báðir eftir þessari tölu enn þá --- á móti ýmsum stærðum sem fara annars staðar út úr Seðlabankanum. (Gripið fram í.) Ýmsar stærðir eru nú bara rétt og slétt íslenska. Í því tilviki var því um það að ræða að þessi bindiskylda stóð á móti afurðalánum sjávarútvegsins. Þá voru þau öll fjármögnuð í gegnum Seðlabankann eins og menn muna. Síðan hefur það farið að hluta til í viðskiptabankana og bindiskyldunni
hefur verið breytt o.s.frv. Ég held því að í þessu dæmi séum við í raun og veru ekki á leiðarenda með þessum hugmyndum sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur rakið hér nú og oft áður. Ég segi hins vegar fyrir mig að ég vildi gjarnan að við værum þar á leiðarenda. Það væri svo einfalt. Það væri svo þægilegt. Reka ríkissjóð bara með halla, lækka skattana, vesen að vera að borga alla þessa skatta. Halda félagslegri þjónustu gangandi, leggja vegi, byggja spítala, byggja skóla, styrkja Byggðasjóð og reka ríkissjóð með halla og þurfa aldrei að svara spurningunni: Og hvað svo? Ég vildi óska þess að pólitíkin væri þannig en hún er það ekki.
    Svona sé ég þessi mál fyrir mér. Nú er það hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur sagt og mjög margir og m.a. hef ég oft sagt það úr þessum ræðustól og hinum þarna fyrir handan líka: Lausnin á efnahagsvandanum er auðvitað ekki jafnvægi í ríkissjóði. Það er auðvitað 100% klárt. Jafnvel þó að menn reki ríkissjóð svoleiðis sléttan að það sjáist ekki gráða á hallamálinu dugir það ekki til. Það þarf fleira að koma til og reyndar fyrst að koma til. Hvað er það? Það er að hér sé í landinu framleiðsla, atvinna og verðmætasköpun. Og það er alveg hárrétt að þegar menn eru að vega þessa hluti alla saman á að skoða þá alla í senn. Það á að skoða fyrirtækin og framleiðsluna, afkomu fólksins sem vinnur við fyrirtækin og framleiðsluna eðlilegan vinnudag, stöðu ríkissjóðs og stöðu þjóðarinnar gagnvart útlöndum. Allt þetta þarf að hafa undir í

senn.
    Ég spyr okkur öll: Hefur okkur ekki í raun og veru mistekist alveg hrapallega í þessum stjórnmálasviptingum undanfarinna ára og undanskil ég engan í þeim efnum, ekki heldur þann sem hér stendur, þegar við stöndum frammi fyrir því að eftir eitthvert mesta góðæri sem þjóðin hefur upplifað á eftirstríðsárunum, ég hygg bara í sögu lýðveldisins, stöndum við með þennan mikla viðskiptahalla, þennan mikla halla á ríkissjóði, og þurfum á sama tíma að taka á þeim efnahagsvanda sem fylgir því að það er dálítill samdráttur í ytri aðstæðum hjá okkur, raunar talsverður? Þetta er mér umhugsunarefni. Ég velti þessu fyrir mér og áskil mér rétt til að hlusta grannt á alla. Ég tel ekki að í nefndaráliti stjórnarandstöðunnar sé lausn á öllum málum, en ég les með áfergju allt sem ég sé um þessi efni vegna þess að þannig getum við kannski komist að niðurstöðu ef við vöndum okkur og reynum að skilja hvert annað. Ég held að umræðan um stjórnmál hér á Íslandi sé reyndar oft á tíðum allt of einhliða. Einn daginn eru það fyrirtækin, menn eru uppteknir af því, annan daginn er það skuldasöfnunin við útlönd, þriðja daginn er það kaupmátturinn, fjórða daginn er það svo ríkissjóður. En það er svo fjarska erfitt að halda umræðunni þannig að menn sjái alla þessa hluti í samhengi. Og ég verð að segja alveg eins og er að ég þakka fyrir það að þessi umræða skuli hafa hafist hér. Ég er ekki að segja að hún leysi í raun og veru neitt annað en það að hún hjálpar okkur kannski til að skilja, hægt og bítandi, þegar þeim stóru orðum sleppir sem við látum oft falla hvert við annað.
    Ég vil þá aðeins að lokum, herra forseti, víkja lauslega að þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, um þá tilkynningu sem forsrh. greindi frá fyrir réttum sólarhring, að það væri skoðun ríkisstjórnarinnar að fella bæri niður síðari málsl. 4. gr. bráðabirgðalaganna frá í vor. Ég fæ ekki skilið með góðu móti af hverju menn eru svo uppnæmir út af þessari ákvörðun öðruvísi þá en þannig að menn séu svona tiltölulega ánægðir með hana, vegna þess fyrst og fremst að hér er verið að fella niður grein sem í rauninni þýðir mjög skert mannréttindi eins og oft hefur verið sagt. Ég hefði haldið að það ætti að vera öllum fagnaðarefni að slík ákvörðun er tekin. Ég heyri það í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. orðað þannig að þetta skipti í raun og veru engu máli. Ég segi það fyrir mitt leyti, fyrir mig skiptir þetta mjög miklu máli sem þingmann, aðila sem á auðvitað alla ábyrgð í þessu efni sem aðili að núv. ríkisstjórn. Þegar menn eru að segja að menntmrh. geti nú ekki vikist undan ábyrgð í þessu efni vil ég segja þetta við alla hér: Það hefur mér aldrei dottið í hug. Ég hirði það sem ég á umyrðalaust. Það er misjafnlega þægilegt, misjafnlega auðvelt, en ég hirði það. Og ég bið ekki nokkurn mann um að gera tilraun til að létta þeirri ábyrgð af mér sem ég á.
    Ég vil reyndar hafa það þannig í stjórnmálum að menn kannist við það sem þeir bera ábyrgð á. Mér finnst stundum að á það hafi skort. Og mér finnst

stundum að stjórnmálaumræðan sé á býsna flatneskjulegu plani þegar menn reyna að skjóta sér undan ábyrgð á hlutunum sjálfir og varpa henni einvörðungu yfir á aðra. Ég ber hér ábyrgð eins og aðrir sem eiga aðild að núverandi ríkisstjórn. Það skal vera alveg skýrt. Ef menn hafa gaman af því að hengja mig fyrir það þykir mér það leiðinlegt, að menn skuli vera þannig innrættir, fyrst og fremst. Ef þetta er veruleikinn þá hefur það sinn gang. Það hins vegar stækkar ekki þessa menn í mínum augum verð ég að leyfa mér að segja, herra forseti.
    Þegar yfirlýsing ríkisstjórnarinnar birtist fór fram viðtal í sjónvarpsstöðinni Stöð 2 við forseta Alþýðusambandsins þar sem hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Þetta eru, eins og Steingrímur sagði,
grundvallarmannréttindi. Við höfum haft uppi mikil mótmæli gagnvart þessu og ég fagna því að það skuli vera tekin ákvörðun um það að svipta þessu ákvæði út.`` Orðrétt. Ég ætla ekki að vitna í ummæli formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þau hafa verið rakin hér áður, hygg ég. Hins vegar hefur forseti Alþýðusambands Íslands bent á þá staðreynd að það er auðvitað flókið mál fyrir verkalýðshreyfinguna að komast út úr ferli eins og því sem ákveðið er með lögum. Lagainngrip í kjarasamninga er mjög erfitt, að ekki sé meira sagt, við þær aðstæður að menn svipta út margra mánaða kafla gerðra kjarasamninga. Og spurningin er þá um þetta: Hvar er upphafspunkturinn að nýju? Hver fær að byrja að nýju eins og það er stundum orðað? Það er ekkert einfaldur hlutur og þetta auðvitað sýnir okkur hvað það er óheppilegt að gripið er til aðgerða til þess að hafa áhrif á kjarasamninga með þessum hætti. Niðurstaða forseta Alþýðusambandsins er því í raun og veru sú, eins og ég hef skilið hann, að í fyrsta lagi telji menn það vera mikilvægt að þetta atriði er úti. En það er erfitt að aðlaga veruleikann því þegar lögin renna út á sínum tíma af því að samningar eru bundnir þrátt fyrir það að þetta ákvæði fer út.
    Ég satt að segja skil hins vegar ekki þegar menn setja þetta þannig upp að þessi yfirlýsing forsrh. í gærkvöld og ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé í rauninni slæm vegna þess að hún fjölgi deilumálum aðila vinnumarkaðarins. Það er haft eftir Vinnuveitendasambandi Íslands. Það kemur mér út af fyrir sig ekki á óvart að Vinnuveitendasamband Íslands skuli kvarta yfir þessari ákvörðun, fyrst og fremst vegna þess að Vinnuveitendasamband Íslands hefur getað sagt að undanförnu: Við viljum ekki fara í viðræður um eitt eða neitt á meðan þessir hlutir eru svona bundnir í lögum. Það er auðvitað alveg augljóst mál að þessi ákvörðun þýðir það að greitt er fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins geti rætt um sín mál með eðlilegum hætti og það er í raun og veru ein meginforsenda þessarar ákvörðunar.
    Í öðru lagi gagnrýndi aðaltalsmaður Sjálfstfl. í þessari umræðu áðan ríkisstjórnina fyrir það að þetta lýsti lausung í stjórnarfarinu. Mér er spurn: Vill þá Sjálfstfl. halda þessari málsgrein inni? Þrátt fyrir 40 mínútna langa ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals tókst

honum ekki að uppljóstra því óttalega leyndarmáli hver væri í raun og veru afstaða Sjálfstfl. til greinarinnar. ( SalÞ: Það kemur.) Það kemur, segir hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. Ég vona að það liggi fyrir. En umræðan af hálfu Sjálfstfl. með stuðningi þeirra þm. íhaldsins sem hér eru enn þá hefur byggst á því að þetta hafi verið röng ákvörðun af því að hún trufli aðila vinnumarkaðarins og valdi lausung í stjórnarfarinu. Og mér er spurn: Talar Sjálfstfl. í þessu efni fyrir hönd stjórnarandstöðunnar eins og hann er að reyna að gera hér í hverju einasta máli? Það satt að segja veldur mér nokkurri furðu ef menn eru þeirrar skoðunar hér að rangt sé að svipta þessu út þó ekkert annað gerist í sambandi við þessi lög.
    Hv. þm. Halldór Blöndal rökstuddi mál sitt með því að frá fornu fari væri það venjan að hafa slíkt jákvætt ákvæði inni í lögum sem taki á vinnudeilum. Þetta er orðrétt vitnað í þm., jákvætt ákvæði. Staðreyndin er sú að hliðstæð ákvæði hafa verið inni í lögum áður, já, en fyrst og fremst lögum sem tekið hafa á takmörkuðum vinnudeilum. Ég hygg að ekki séu mörg dæmi um það að ákvæði af þessu tagi sem Sjálfstfl. kallar jákvætt ákvæði hafi verið inni í slíkum almennum kjaramálalögum. Og það er rétt, sem hæstv. forsrh. benti á áðan, að grundvallaratriði í kæru Alþýðusambands Íslands til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var þetta. Og í ljósi þessa alls, hvernig stendur þá á öllu þessu ofboðslega írafári hjá íhaldinu? Hvað eiginlega er þetta? Haldinn hér kreppufundur í deildinni í gærkvöldi, formaðurinn allt í einu mættur á staðinn til að rétta af liðið gagnvart þessum óskaplegu ótíðindum sem hæstv. forsrh. flutti hér rétt fyrir kl. 7 í gærkvöld. Það skyldi þó ekki fyrst og fremst vera það að Sjálfstfl. og þm. hans höfðu á því sérstakan pólitískan áhuga að hengja einstaka stjórnarþingmenn í sambandi við þetta mál. Það skyldi þó ekki vera sá glæpur sem var frá þeim tekinn sem olli því að þeir trylltust svo að segja og slepptu sér hér í stólnum í gærkvöld milli kl. 7 og 8 þegar þjóðin var að öðru leyti að meðtaka sína venjulegu næringu.
    Forsendan fyrir þessari ákvörðun er auðvitað alveg skýr. Hún er sú að auðvelda mönnum að ræða málin, auðvelda það að unnt sé að taka upp viðræður um forsendur launa-, efnahags- og atvinnumálastefnunnar á árinu 1989 þegar þjóðin stendur frammi fyrir miklum efnahagsvanda. Forsendur þessarar ákvörðunar eru líka þær sem fram komu í máli hæstv. forsrh. í gærkvöld, hvernig staðan er í atvinnulífinu hér í þessu landi og það skiptir mjög miklu máli að það takist að ná sem allra bestum viðræðum og niðurstöðum um þann vanda sem augsýnilega blasir við, ekki aðeins forráðamönnum fyrirtækja heldur líka launafólki í þessu landi. Þess vegna er verið að greiða fyrir því að farsæl lausn fáist á stórum vanda. Og þó að stjórnarandstaðan sé eðli málsins samkvæmt á móti ríkisstjórninni hélt ég nú kannski að a.m.k. einn og einn í þeim hópi skildi að hér er um að ræða skynsamlega pólitíska niðurstöðu andspænis þeim mikla vanda sem þjóðin öll verður að glíma við á

næsta ári.