Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Sjaldan hef ég upplifað aðra eins revíu og hér í hv. deild í gærkvöldi. Ríkisstjórnin tók ákvörðun í gærmorgun um að leggja til að fellt verði niður ákvæði úr bráðabirgðalögum sem hefur verið mikill þyrnir í augum verkalýðshreyfingar og einstakra þm. stjórnarliðsins. Í meðferð frv. hér á þingi hefur þetta ákvæði verið harðlega gagnrýnt og þingmaður Borgfl. gert skýra tillögu um niðurfellingu þess. Þingmenn Kvennalista hafa og gert tillögu um niðurfellingu þessa ákvæðis. Þá er það vitað að ég og hv. þm. Karvel Pálmason gerðum í vor fyrirvara um samþykkt þessa ákvæðis. Við töldum það ögrandi og óþarft.
    Verkalýðshreyfingin hefur bent á þetta ákvæði og talið það sérstaklega forkastanlegt og líkt því við aðgerðir pólskra stjórnvalda gegn frjálsri verkalýðshreyfingu þar í landi og gert margar samþykktir um það. Það var ákveðið í gær, í því skyni að skapa betra og eðlilegra andrúmsloft milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og til að verða við tillögum einstakra þm., að fella niður þetta ákvæði. Þá hófst revían.
    Þm. Sjálfstfl. sem reyndar höfðu sjálfir samþykkt þetta ákvæði og engar athugasemdir gert umhverfðust gersamlega og lýstu vonbrigðum sínum á áhrifamikinn hátt, töluðu um svik, það væri farið aftan að stjórnarandstöðunni og margt enn þá verra. Í síðustu ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. lýsti hann því yfir að niðurfelling banns við verkföllum og verkbönnum hefði átt sér stað vegna sérstakrar og mikillar baráttu þeirra sjálfstæðismanna hér í hv. Ed. Þessi hetjusaga birtist þjóðinni einnig í sjónvarpinu hvar rætt var við hv. þm.
    Eftir matarhlé í deildinni var annað hljóð komið í strokkinn. Þá hafði herráð Sjálfstfl. allt verið kallað saman og var niðurstaða þess að niðurfelling ákvæðis um bann við verkföllum skipti nákvæmlega engu máli. Í viðræðum við formann BSRB í fjölmiðlum kom hins vegar skýrt fram að hér væri um áfangasigur að ræða. Tónninn var jákvæður og byggður á raunsæju mati. Í fjölmiðlum var og rætt við forseta ASÍ. Svo vill til að þau bráðabirðgalög sem hér er rætt um snerta ASÍ minna en önnur launþegasamtök. Kjarasamningar yfirgnæfandi fjölda félaga ASÍ eru í fullu gildi og renna ekki út eða falla úr gildi fyrr en 10. apríl nk. Í bráðabirgðalögunum var ákvæði sem tryggði það að þeir sem ekki höfðu gengið frá kjarasamningum fyrir þessa lagasetningu hækkuðu í launum um 10%, þ.e. það var tryggt að enginn yrði afskiptur.
    Afskipti stjórnvalda af kjarasamningum eru ekki ný af nálinni. Þau hafa tíðkast frá upphafi lýðveldisins og fyrr. Þar hafa flestir stjórnmálaflokkar sem þorað hafa að taka á sig ábyrgð komið að verki. Þessi afskipti hafa oft verið andstæð verkalýðshreyfingunni og því vakið úlfúð og mótmæli, en afskiptin hafa ekki einungis verið neikvæð. Verkalýðssamtökin sjálf hafa margoft farið fram á afskipti stjórnvalda og í mörgum tilfellum samið við stjórnvöld um meiri háttar félagslegar úrbætur. Þannig hefur

verkalýðshreyfingunni tekist að hafa mikil áhrif á mótun velferðarkerfisins. Oft hefur frumkvæði og forusta verkalýðshreyfingar gagnvart stjórnvöldunum orðið til þess að koma á úrbótum sem fært hafa íslenska launþega nær félagslegu öryggi í launajöfnuði og atvinnuöryggi en nokkur kostur hefur verið á í viðræðum við atvinnurekendur.
    Sl. vor þegar öll helstu launþegasamtök láglaunafólks, a.m.k. 90% félaga ASÍ, höfðu eftir langar og strangar samningaviðræður náð að gera kjarasamning voru umrædd bráðabirgðalög sett. Hvers vegna, spyrja menn. Ástand atvinnumála, verðbólga og tröllaþensla höfðu gert það að verkum að vaxtakostnaður, fjármagnskostnaður fyrirtækja og heimila og verðbólga var að sliga almenning í landinu. Það var augljóst að þeir betur settu og grimmir sérhagsmunahópar hugðu sér gott til glóðarinnar. Augljóst var að í krafti aðstöðu ætluðu ýmsir að notfæra sér þá stöðu að kjarasamningar láglaunafólks voru bundnir og hrifsa meir til sín, breyta umhverfi láglaunafólks á þann veg að þeir ríku yrðu ríkari, þeir fátæku fátækari.
    Stjórnmálamenn sumir hverjir tala og hegða sér oft eins og þeir séu staddir í Undralandi, álíta launþega eins og skyni skroppnar verur sem ekki muna deginum lengur hvað er hvítt og hvað er svart. Staðreyndin er hins vegar sú að verkamaðurinn og verkakonan gera sér betur grein fyrir hagsmunum sínum en lítilsigldir áróðursmenn. Þeim er það ljóst að atvinnutækin þurfa að ganga vel til að tryggja mannsæmandi afkomu. Þeim er það ljóst að þjóðarkakan er aðeins ein. Það eru margir sem taka sér bita úr þeirri köku. Margir taka sér allt of stóran bita sem gerir það að verkum að minna er fyrir hina.
    Með margræddum bráðabirgðalögum reyndu stjórnvöld að tryggja það að þeir gráðugu tækju ekki of stóran bita, tryggja það að láglaunafólkið sem stundi undir mikilli vaxtabyrði og óheftri dýrtíð fengi réttlátan skerf af þjóðarkökunni. Að þessu verki stóðu sjálfstæðismenn ásamt okkur hinum. Þeim er alveg ljóst hver vandinn er eða var það a.m.k. Það er sorglegt hins vegar nú eða öllu heldur tímanna tákn um niðurlægingu Sjálfstfl. síðustu mánuðina að nú tala þeir eins og þeir hafi ríkisborgararétt í Undralandi. Nú telja þeir ekkert að. Ef eitthvað er þó að sé það öðrum að kenna. Þeir leggjast gegn
eigin verkum. Þeir segja það hiklaust að samþingmenn þeirra hér í hv. deild stefni að því að koma á atvinnuleysi og kreppu. Það er helst á þeim að skilja að þeir muni greiða atkvæði gegn þeim bráðabirgðalögum sem þeir þó sjálfir settu.
    Ég velti því fyrir mér í gær hvort þetta væri barnaskapur eða óráð þeirra einstaklinga sem svona tala. E.t.v. er svo. Ég tel hins vegar líklegra að þeir sjálfstæðismenn hafi tapað áttum. Þeir eru miður sín. Hugarvíl og eftirsjá mótar gerðir þeirra. Þeir sjá eftir því að hafa hlaupið frá vandanum. Þeir finna andúðina frá hinum fjölmörgu einstaklingum í Sjálfstfl., bæði í atvinnurekstri og meðal almennings sem urður fyrir vonbrigðum þegar ráðleysi og sinnuleysi foringjanna

svipti þá stjórnartaumnum.
    Frv. sem hér liggur fyrir var þáttur í því að koma á jafnvægi í efnahagsmálum. Slíkt jafnvægi er engum nauðsynlegra en launþegum. Frv. er vissulega merki um afskipti stjórnvalda af kjarasamningum. Þau afskipti lúta að launajöfnuði. Það tryggði öllum sömu kauphækkanir. Það kemur í veg fyrir að þeir sem vildu fara lengra, komast fram hjá láglaunafólkinu, fái meira.
    Áherslur verkalýðshreyfingarinnar hafa komið mörgum verkamanninum spánskt fyrir sjónir, enda er svo komið að spurt er víða á vinnustöðum hvort niðurrifstalið, svartnættisrausið, þjóni þeim hagsmunum sem hugsjónir verkalýðshreyfingarinnar boða. Þær hugsjónir lúta að því að berjast fyrir réttlátara þjóðfélagi, fyrir jöfnuði, fyrir velferðarríkinu sem tryggi verkafólki öryggi frá vöggu til grafar.
    Mótun velferðarríkisins er margþætt. Það verður að bregaðst við aðstæðum hverju sinni á raunhæfan hátt. Slagorð og upphrópanir duga ekki þegar leysa þarf erfið vandamál. Ábyrg verkalýðshreyfing hefur þær skyldur að benda á leiðir til úrbóta í stað þess að höggva í sífellu í átt til þeirra sem eiga samstöðu með hreyfingunni. Það þjónar einungis fjandmönnum hreyfingarinnar og skemmtir skrattanum að viðhafa slíkan málflutning.
    Það er umhugsunarefni að íslensk verkalýðshreyfing virðist mun lakar sett en bræðrahreyfingarnar á Norðurlöndum. Þar er verkalýðshreyfingin sterk. Þar hefur hún afgerandi áhrif á þjóðfélagsþróunina. Vandi verkalýðshreyfingarinnar er margþættur, en ég hygg að ábyrg afstaða á sviði efnahagsmála hvar tekið er á málum með hagsmuni heildarinnar í huga mundi þjappa verkafólki betur saman, muni skapa það afl sem tryggt getur hagsmuni láglaunafólks.
    Þegar ákvörðun um setningu bráðabirgðalaganna var tekin var verðlag fiskafurða farið að lækka, verðbólga var vaxandi og líkur á enn meiri verðbólgu ef ekki yrði kippt í taumana. Vaxtaokrið var á fullu. Upplausn heimila var vandamál sem ekki fór fram hjá mönnum og gjaldþrot heimila var og er vandamál enn í dag. Fyrirtækin í sjávarútvegi stóðu höllum fæti og atvinnuöryggið í hættu. Það var þessi mynd sem við blasti. Þess vegna varð að gera þessar ráðstafanir til að bjarga því sem bjargað varð. Háværir hagsmunahópar hafa kallað á gengisfellingu. Gengisfelling er aðeins olía á verðbólgubálið, veldur launalækkun sem bitnar verst á þeim lægst launuðu. Gengisfelling er líka leið til að hækka skuldir einstaklinga og fyrirtækja. Gengisfelling er hreint neyðarúrræði sem frestar vandanum en eykur hann síðan.
    Nú þegar tekist hefur með verðstöðvun, og þess freistað með millifærslu fjármuna að styrkja atvinnuöryggið, að lækka verðbólgu meir en tekist hefur í manna minnum minnist verkalýðshreyfingin og stjórnarandstaðan ekki einu orði á það. Vandinn í atvinnulífinu er svo mikill að hér verður atvinnubrestur ef ekki tekst með samstilltu átaki að leysa vandann. Á þessari stundu væri það mikill

fengur að fá ábyrga tillögu frá verkalýðshreyfingunni til úrlausnar málum. Nú skiptir það máli fyrir verkafólk að hreyfingin vinni með stjórnvöldum til að tryggja atvinnuna. Það er talað hátt um grundvallaratriði og helgan rétt, en síðan er höfðinu stungið ofan í sandinn.
    Ég hef sagt það fyrr og segi það nú, verkamanninum og verkakonunni er það meira virði að tryggja afkomu sína en að gufa upp í trúarbrögðum eins og mér sýnist að margir í Alþýðusambandinu ætli að gera og er ástæða til að spyrja hvort miðstjórn Alþýðusambands Íslands ætli sér að vera á móti niðurfellingu á því ákvæði sem hér er mest um rætt.
    Nú sjá sjálfstæðismenn aðeins skrattann á veggnum. Þeir leggjast gegn eigin málum, þeir hrópa og kalla á gengisfellingu, þeir kynda og kynda í þeim tilgangi einum að kveikja verðbólgubálið. En það er spurt um tillögur til að leysa vandann. Þær eru engar. Aðeins almennar upphrópanir og ég spyr eins og svo margir aðrir: Hvar eru tillögur sjálfstæðismanna? Er þeirra von? Nei, sjálfsagt koma þær aldrei. Þeir hrærast nefnilega í öðru umhverfi. Þeir söngla hins vegar: Fellum bara gengið. Hækkum skuldir einstaklinga og fyrirtækja, hækkum vexti og aukum verðbólgu, en ekkert af þessu er nógu mikilvægt til að þeim finnist ástæða til að koma með tillögur, skriflegar tillögur á þingskjali, til úrbóta í þessum málum. Þeir lifa í Undralandi þar sem ekkert er að, þar sem vandi heimila og atvinnufyrirtækja skiptir engu máli. Það skiptir eitt máli að vera á móti.