Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er smátt og smátt að koma betur í ljós að stefna hæstv. ríkisstjórnar, ef stefnu er hægt að kalla, leiðir beinlínis til þess að atvinnulífið kemst á vonarvöl og atvinnuleysi verður í landinu, enda virðist miskunnarlaust vera að því stefnt.
    Þessi svokallaða stefna hæstv. ríkisstjórnar lýsir sér m.a. í því að tekin eru ný erlend lán, þau eru notuð að nokkrum hluta í millifærslur, en það er gert til þess að halda genginu rangt skráðu. Einmitt það leiðir til þess að þær atvinnugreinar sem ekki njóta þeirra fjármuna sem færðir eru á milli manna og fyrirtækja í þjóðfélaginu komast í klandur og erfiðleika og enda með því að leggja upp laupana. Það hlýtur að vera umhugsunarmál fyrir hv. þm. Hjörleif Guttormsson, 2. þm. Austurl., sem æ ofan í æ, ótt og títt í tíð síðustu ríkisstjórnar barði á þáv. iðnrh. og reyndar gerði hann það enn fremur í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem sat þar áður og sagði að þessar ríkisstjórnir væru iðnaðinum fjandsamlegar. Hann hefur skrifað um þetta nokkrar blaðagreinar, þar á meðal í vetur, og leyft sér það eftir stjórnarskiptin, og kalla ég það nú fífldirfsku mikla, að gagnrýna fyrrv. ríkisstjórnir fyrir það sem þær gerðu eða létu ógert. Það ber ekki mikið á því að Hjörleifur Guttormsson, 2. þm. Austurl., komi í ræðustól nú og segi álit sitt á því að halda genginu svo rangt skráðu að það virtist vísvitandi verið að koma íslenskum iðnaði beint á hausinn. Hafi hv. þm. einhvern tíma haft áhuga á málefnum iðnaðarins, sem ég efast ekkert um, en hann setti á sínum tíma, þegar hann var iðnrh., fram hér á Alþingi þáltill. um iðnaðarstefnu sem varð að hluta til, kannski að megni til, sú iðnaðarstefna sem á sínum tíma var samþykkt, þá hefur þessi hv. 2. þm. Austurl. allt í einu hætt að tala, steinhætt að tala. Samt er þetta einhver þekktasti mælskumaður á Alþingi Íslendinga, maður sem er meira að segja svo merkilegur að tímalengdir í ræðustól eru mældar í svokölluðum hjörlum vegna þess að menn minnast ekki þess að það sé hægt að nota öllu betri mælikvarða um ræður en einmitt ræðulengd hv. þm., svona líkt og þegar í orkumálum er talað um terawattstundir vegna þess að það er hugtak sem er svo margfalt á við það sem menn nota daglega að það þarf alveg sérstaka mælieiningu sem margfaldar hinar til að geta lýst þessu með eins, tveggja eða þriggja stafa tölu. Nú allt í einu er þessi hv. þm. hættur að tala.
    Ég hef stundum velt fyrir mér hver eiginlega hafi stigið ofan á þennan hv. þm. sem var svo hnarreistur á þeim fundi Alþb. sem kaus hæstv. fjmrh. formann að hann strunsaði út af fundi. Og þegar stjórnarmyndun stóð yfir, þegar þessi stjórn var að myndast, gaf hann yfirlýsingar um að hann ætlaði sér ekki að standa við bakið á þessari ríkisstjórn nema hún gengi að skilyrðum hans. Síðan hafa menn staðið upp, hæstv. ráðherrar, og sagt að auðvitað verði þetta að engu haft. Og hv. 2. þm. Austurl. þegir og þegir.
    Nú er svo komið að þessi baráttumaður fyrir íslenskan iðnað ætlar að horfa upp á það að ekki eingöngu sé gengið falskt skráð, langt frá því að vera

skráð þannig að það komi iðnaðinum til gagns og það sé hægt að tala um að það sé eðlileg gegnisskráning vegna millifærslunnar til sjávarútvegsins, frystingarinnar, heldur ætlar hann --- ja, a.m.k. verður maður að álíta svo meðan hann ekki tekur til máls í þessum umræðum --- að styðja enn auknar álögur á iðnaðinn. Það vona ég, ef hv. þm. ætlar ekki að taka til máls einhvern tíma í þessum skattaumræðum, þessum skattaofsóknum á fyrirtækin, að hann láti það a.m.k. vera að skrifa mikið af blaðagreinum eða berja sér á brjóst um að hann sé einhver sérstakur talsmaður iðnaðarins í landinu.
    Hæstv. forseti. Nú gætu einhverjir sagt: Þetta er ósanngjörn ræða. Í mínum huga hef ég nefnt þetta vegna þess að ég held satt að segja að hv. þm. sé áhugamaður um þau málefni sem ég hef hér fjallað um. Ég hef orðið var við það að í störfum sínum sem formaður hv. iðnn. Nd. hefur hann boðað til funda vikulega, stundum tveggja og þriggja tíma langra funda, sem ég tel til mikillar fyrirmyndar, þar sem ýmsar upplýsingar hafa komið fram. Að vísu liggur ekkert mál fyrir nefndinni, en það er bara eins og í öðrum hv. nefndum því að hæstv. ríkisstjórn kemur ekki frá sér mörgum málum. En allt um það: Þarna hefur hv. þm. sýnt áhuga sinn í verki, en svo þegar kemur að því að gefa okkur öðrum hv. þm. tækifæri til að heyra sjónarmið hans um iðnaðinn nú þegir hv. þm. Ég hef grun um að hæstv. fjmrh., formaður Alþb., hafi í raun handjárnað hv. þm., sagt við hann: Hjörleifur minn. Nú mátt þú ekki tala. Eða þannig verður maður a.m.k. að álíta að mál séu komin. Og í raun og veru, þegar maður hugsar enn betur um þetta allt saman, undrast maður það ægivald sem hæstv. fjmrh. hefur yfir stjórnarliðinu. Við sjáum ekki mikið af öðrum hæstv. ráðherrum í salnum. Hæstv. utanrrh. er í Póllandi. Við sáum afleiðingar þess í Ed. í gærkvöld hvað hann hafði lært þar og komið til skila til hæstv. ríkisstjórnar. Hún ætlaði að breyta bráðabirgðalögum í Ed., gerði það reyndar svo klúðurslega að það skilur enginn neitt í neinu. Líklega hefur hæstv. utanrrh. lært þetta í viðtölum sínum við Jaruselski í Póllandi.
    En það vekur líka athygli að í raun og veru virðist hæstv. fjmrh. vera eini talsmaður ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. kemur varla á fundi í Nd.
Alþingis. Ég held að það sé vegna þess að hæstv. fjmrh. skyggir orðið nokkuð á hæstv. forsrh. Auðvitað skil ég hæstv. fjmrh. að hann vilji koma í veg fyrir að ,,mesta efnahagsböl íslensku þjóðarinnar`` sé að flækjast hér um ganga og sali á hv. Alþingi. Auðvitað á að útrýma vandamálum og reyna að koma í veg fyrir það að þau séu sífellt á vegi manns. En fyrr má nú rota en dauðrota.
    Inn í þennan þingsal slæðast stundum hv. stjórnarþingmenn og taka til máls. Einn slíkur djarfur, hv. þm. Guðmundur Þórarinsson, leyfði sér um daginn að taka til máls. Ég efast um að hann geri það aftur. Af hverju? Sagði hann einhverja vitleysu? Nei. Hæstv. fjmrh., sem stjórnar þingliðinu, bað auðvitað um að slíkir menn væru ekki að koma í ræðustól og segja

sitt álit og m.a.s. skammaðist út í það að hv. þm. skyldi voga sér að segja sína skoðun á skattamálum í sjónvarpi og útvarpi og hafði m.a.s. orð á því í ræðustól að hv. þm. hefði komið ég held annan hvern dag í eina viku fram í fjölmiðlum rétt eins og hæstv. fjmrh. komi aldrei fram í fjölmiðlum. Við sem einstaka sinnum horfum á sjónvarp og hlustum á útvarp verðum þó að viðurkenna að það kemur fyrir, stundum oftar en annan hvern dag, að það heyrist í hæstv. fjmrh., enda er hann maðurinn sem hefur tekið völdin í þessari ríkisstjórn. Hann vill halda þessari stjórn saman. Hann leggur öll prinsip Alþb. til hliðar til að halda þessari stjórn saman.
    Hefur einhver heyrt talað um það fyrr að það hafi verið spurt um verkstjóra? Í fyrrv. ríkisstjórn var alltaf verið að tala um að verkstjórinn þyrfti að vera á landinu til að stjórna verkum. Hæstv. fjmrh. er nákvæmlega sama hvert hæstv. forsrh. fer eða hvar hann er þá stundina eða hvort hæstv. utanrrh. er á landinu. Hæstv. fjmrh. þarf enga verkstjóra. Hann ræður þessu öllu sjálfur, öllu. Það er kominn tími til að óska hæstv. fjmrh. til hamingju með að hann hefur skyggt á sjálfan hæstv. forsrh. og nú er svo komið að hv. þm. stjórnarliðsins þora ekki að taka til máls og m.a.s. hv. 2. þm. Austurl., sá djarfasti af þeim öllum, má ekki einu sinni tala.
    Svona er nú komið fyrir hv. stjórnarliðum með þeirri undantekningu þó að sá maður sem er bakbeinið í þessari ríkisstjórn og sá sem heldur lífi í stjórninni, a.m.k. fram á næsta vor eins og hann sagði í Vín, en eins og allir vita þá varð listi hv. þm. Stefáns Valgeirssonar til í veitingahúsinu Vín og var kallaður Vín-listinn lengst af. Ég viðurkenni að hv. þm. er bindindismaður og lætur ekki taka mynd af sér fyrir blöðin eins og Halldór á Kirkjubóli. Þegar hann hélt síðan upp á afmæli sitt í Vín með öðrum Vín-listamönnum lýsti hann því yfir, eða um svipað leyti, ég fer kannski ekki alveg rétt með það upp á dag . . . ( SV: Nei, ekki frekar en venjulega.) Nei, það munaði kannski viku en ég vona samt að hv. þm. kannist við að eins og góðum bónda sæmir gaf hann yfirlýsingu um hvað hann vildi láta lömbin lifa lengi og lýsti því yfir í blaðaviðtali, eða réttara sagt fyrst í ræðu sem birtist í blöðum, að kosið yrði næsta vor. ( SV: Reyndu nú að segja einu sinni satt.) Er þetta ekki rétt? ( SV: Nei.) Laug þá blaðið? Þetta birtist í Degi á Akureyri. ( SV: Það getur verið.) Maður er kannski nokkuð gjarn á að trúa blöðum en nú segir hv. þm. að hann ætli að setja hæstv. ríkisstjórn á lengur en til vorsins. ( SV: Það hef ég heldur ekki sagt.) Hann hefur ekki heldur sagt það. En hvað ætli hv. þm. hafi þá sagt? Halda menn virkilega að hv. þm. hafi þagað? ( SV: Ég tala við þig eftir jólin.) Hv. þm. ætlar að tala við mig eftir jólin. Kannski að hann sé líka í banni? Kannski að hæstv. ráðherra hafi bannað hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að tala eftir að hann talaði hér í kvöld? Nú kallar hann fram í og segir: Ég tala við þig eftir jólin. Þetta er nú hugrekkið hjá hv. þingmönnum, þeim þingmönnum sem gjarnan geystust fram á völlinn til þess að verja fólkið á

landsbyggðinni sem þurfti að borga hátt orkuverð. ( SV: Ekki gerir þú það.) Ekki gerir hv. þm. það heldur því nú situr hann við kjötkatlana og getur ornað sér en það hitar ekki mörgum úti á landi þótt hv. þm. Stefán Valgeirsson sitji við kjötketilinn og orni sér þar a.m.k. fram á næsta vor. En það er nýtt fyrir okkur hv. þingmenn aðra að verða vitni að því að hv. þm. má ekki tala meira. ,,Ég tala við ykkur eftir jólin``, sagði hann.
    Eins og ég hef bent á var það einn flokkur sem talaði hvað skýrast um það að ríkisstjórnin síðasta hefði engu náð fram nema einu, þ.e. skattkerfisbreytingunni. Sá flokkur á engan fulltrúa í þessum umræðum. Ég sé að hér situr hv. 3. þm. Norðurl. e. Kannast hann nokkuð við að formaður Alþfl. hafi sagt að skattkerfisbreytingin verði það eina sem munað verður eftir af afrekum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar? Kannast hv. þm. við það? Ég las það í Alþýðublaðinu. Hv. þm. var einu sinni ritstjóri Alþýðublaðsins og trúir kannski einhverju af því sem þar er birt. Veit hv. þm. hvað er verið að gera þessa dagana? Það er verið að leggja fram frumvörp sem taka aftur þá skattkerfisbreytingu sem var það eina sem síðasta ríkisstjórn hafði gert að áliti Alþýðublaðsins og formanns Alþfl. ( ÁrnG: Hver var í dag að taka til baka bráðabirgðalög sem hann setti sjálfur?) Ég held að í gær hafi hæstv. forsrh. verið að byrja á því en það mistókst svo herfilega að enginn skildi nokkurn skapaðan hlut í því hvað hann var að gera þannig að aðrir urðu að koma honum til hjálpar. Ætlar hv. þm. að taka frekar þátt í umræðunum eða treystir hann
sér að koma hér upp í ræðustól á eftir og ræða um það sem ég er að tala um og spyrja hann um? (Gripið fram í.) ( Forseti: Ég vil biðja hv. þingmenn að stunda ekki samtöl í þingsalnum og grípa ekki fram í fyrir ræðumanni.) Mér er ánægja að því, hæstv. forseti, ef einhver sem ekki þorir í ræðustólinn hefur þó kjark til þess að kalla fram í svona við og við.
    Hæstv. viðsk.- og iðnrh. hefur gjarnan sagt að endurskipulagning þurfi að eiga sér stað í fyrirtækjunum hér á landi. Það væri kannski ástæða til þess fyrst hæstv. ráðherra er ekki við að spyrja þingmenn Alþfl. að því hvað átt er við þegar talað er um að endurskipuleggja fyrirtæki. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. heldur að þetta séu umræður um áfengismál er það mesti misskilningur því að hér er verið að tala um skatta- og efnahagsmál, en auðvitað veit ég að áfengismál koma málinu við því að það nýjasta hjá hæstv. fjmrh. er að hafa fundið upp á því að hækka brennivínið enn einu sinni því að það er hægt að gera án þess að breyta lögum. Reyndar ætlar hann að hækka bensínið í leiðinni.
    Ég hitti mann sem sagði mér, svo ég taki mér í munn orð hæstv. forsrh., að Framsfl. hefði skilning á því að gengisaðlögun þyrfti að eiga sér stað. Hvort slík gengisaðlögun á að vera í einu stökki eða eiga sér stað hægt og rólega veit ég ekki, en því er haldið fram að hæstv. fjmrh. leyfi ekki þessari framsóknarstefnu að ná fram því að það er hæstv.

fjmrh. sem ræður ferðinni.
    Í umræðu um sjávarútveginn hér um daginn kom kannski einna best í ljós hvernig hæstv. ríkisstjórn stendur við gefin loforð. Hæstv. fjmrh. knýr að vísu fram skattabreytingar, nýja skatta og skattpíningu því vissulega lofaði hæstv. ráðherra því í upphafi að hækka skattana, en þegar litið er á önnur loforð sem gefin voru í upphafi og að því kemur að efna loforð eins og t.d. að lækka vexti hefur aðeins verið staðið við það að litlum hluta. Lofað var að lækka raforkukostnað fyrirtækjanna en ekki var staðið við það. Sett var nefnd í málið en strax á fyrsta degi var þessi lækkun látin koma fram reikningslega í gögnum ríkisstjórnarinnar til þess að sýna að hagur útgerðar og fiskvinnslu væri betri en hann raunverulega var.
    Skattastefna hæstv. ríkisstjórnar er smám saman að skýrast eftir nokkuð erfiða fæðingu. Ég hef áður minnst á skattkerfisbreytingarnar en það sem hefur gerst til viðbótar er að 700 millj. kr. hæstv. utanrrh. og hagdeildar fjmrn. frá því í byrjun september eru nú orðnar 7 milljarðar kr. að sögn hæstv. sjútvrh. Ég tel, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. þurfi áður en langt um líður og helst áður en þessum degi lýkur, eða a.m.k. áður en þessum fundi lýkur, að gera grein fyrir því hver sé staða ríkissjóðs nú. Ef ég man rétt talaði hann um 3,5 milljarða, síðan urðu það 5 milljarðar nokkrum vikum seinna og nú segir hæstv. sjútvrh. að það stefni í 7 milljarða kr. halla. Áður en lengra er haldið og menn fara að ljúka umræðum um skattamál og fjárlög held ég að tími sé til kominn að æðsta valdið, sá hæstv. ráðherra sem ræður mestu í ríkisstjórninni, hæstv. fjmrh., komi í ræðustól og segi okkur hvert raunverulega stefni. Jafnframt held ég að full ástæða sé til þess að biðja hæstv. ráðherra um að leggja fram lista á hinu háa Alþingi yfir aukafjárveitingar og ekki síst yfir þær aukafjárveitingar sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur staðið að, ég hygg að hitt liggi fyrir, og hann verði birtur hér í þingskjölum. Það hlýtur að hafa þýðingu þegar verið er að meta útgjöld ríkisins að menn átti sig ekki eingöngu á því tekjutapi sem ríkissjóður hefur vissulega orðið fyrir heldur einnig á útgjaldaaukanum og hvers kyns hann er. Ég held að það þurfi að gerast nokkuð ítarlega því að í sumum tilvikum hefur borið á því að hæstv. ráðherra hefur talið sér skylt eða a.m.k. talið sig hafa heimild til þess að greiða úr ríkissjóði ýmis gjöld sem ekki verður ætíð séð að hann hafi haft heimild til.
    Hv. síðasti ræðumaður benti á að áhöld kynnu að vera um hvort við gætum trúað öllu því sem hagdeild fjmrn. gefur út. Ég ætla ekki að hallmæla því fólki sem þar vinnur, mér dettur það ekki í hug, en ég verð að benda á að það var einmitt þessi hagdeild sem mótmælti á sínum tíma því sem Þjóðhagsstofnun og Ríkisendurskoðun höfðu bent á og hélt sig við það í a.m.k. mánuð ef ekki einn og hálfan mánuð að hallinn á ríkissjóði yrði 693 millj. kr. Nú segir hæstv. sjútvrh. að hallinn verði líklega 7 milljarðar kr. Það er einmitt þessi halli á ríkissjóði sem skýrir ýmislegt af því sem hefur verið að gerast og einkum og sér í lagi hjá

atvinnufyrirtækjunum. Samdráttur hefur orðið vegna þess að góðærið svokallaða hefur þegar verið notað og gott betur. Ég skal viðurkenna að sá flokkur sem ég er fulltrúi fyrir ber ábyrgð á því eins og aðrir. Hann ber að vísu ekki einn ábyrgð á því eins og maður gæti haldið ef maður hlustar á hæstv. ráðherra og þá ekki síst hæstv. ráðherra Framsfl. sem tala alltaf um síðustu ríkisstjórn eins og þeir hafi ekkert um hana vitað frekar en aðrar ríkisstjórnir. Ég man þá tíð þegar hæstv. fjmrh. var formaður þingflokks Alþb. og átti samstarf við Framsfl., þá var það Alþb. að kenna hvernig fór en nú er það auðvitað íhaldinu að kenna. Framsfl. hefur hvergi nærri komið.
    Það er alveg rétt að í samdrættinum hafa fyrirtækin orðið að rifa seglin, sum lokað og mjög mörg farin að tapa. Það er einmitt í slíku árferði sem
hæstv. ráðherra telur það sanngjarnt, eðlilegt og æskilegt að leggja meiri álögur á fyrirtækin, auðvitað til þess að framkalla meira atvinnuleysi svo að tekjurnar verði enn þá minni því að ekki borgar atvinnulaust fólk tekjuskatta. Þá hefur hann fulla ástæðu næsta ár til þess að segja: Nú hafa fyrirtækin tapað meiru vegna skattabreytinga, vegna nýjustu skatta og nú hafa einstaklingarnir ekki vinnu þannig að meiri skatta þarf að leggja á þá sem hafa vinnu. Og síðan koll af kolli.
    Þetta er í raun sú stefna sem hæstv. ráðherra fylgir, a.m.k. er enginn vandi að halda því fram á meðan hann ætlast til þess að heimilin dragi saman seglin, fyrirtækin rifi seglin og þessir aðilar báðir eigi síðan til viðbótar að borga hærri skatta til þess að hæstv. ráðherra geti rekið ríkissjóð eins og honum þykir eðlilegast og það með tekjuafgangi. Hæstv. ráðherra sagði frá því fyrir nokkrum mánuðum síðan, reyndar eftir að allt verðfallið kom fram á Bandaríkjamarkaði, að ytri skilyrði væru góð og yrðu það áfram og þetta væri allt rugl í þáverandi fjmrh. að einhver ytri skilyrði rækju ríkisstjórnina til vondra verka. Nú situr hann í ríkisstjórn og tekur ekki einungis upp þráðinn heldur stóreykur skattheimtuna. Ég sé ekki betur en það sé gert til þess að koma hér á atvinnuleysi og til þess, sem er kannski aðalatriðið, að geta sjálfur ásamt hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og slíkum aðilum skammtað það fé sem til skipta er. Hann getur þannig valið þá sem eiga að fá fyrirgreiðslu því það fellur vel að stefnu þess flokks sem hann er formaður í þessa stundina.
    Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því, svo maður sé ekki að vitna í einhverja menn sem maður hittir á götunni, í heita pottinum eða þar sem hæstv. ráðherrar hitta menn, a.m.k. hæstv. forsrh.: Hve mikil er skattheimtan samtals samkvæmt þeim frv. sem hann hefur lagt fram? Hve miklar nákvæmlega eru áformaðar tekjur ríkissjóðs vegna þeirra frv. sem nú hafa komið fram? Ég held að mjög mikilvægt sé að fá þessar upplýsingar strax.
    Í öðru lagi vil ég spyrja: Hve mikið telur hæstv. ráðherra sig geta fengið í ríkissjóð umfram verðlagsbreytingar með því að hækka bensín og með því að hækka brennivínið?

    Ég hef beðið um það áður og minni hæstv. ráðherra á að eðlilegt er nú að staðfesta hvort hæstv. sjútvrh. hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að hallinn sé um 7 milljarðar kr. Mig langar einnig til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því, vegna þess að það skiptir ákaflega miklu máli í þessari umræðu, hvernig hann hyggst bregðast við þegar ljóst er að óseld spariskírteini ríkissjóðs upp á 1700 millj. kr., miðað við 20. nóv., hafa hlaðist upp í bönkum og hjá verðbréfasölum. Ég endurtek: Upp á 1700 millj. kr. Öllum er ljóst að ef ríkissjóður fær ekki fjármuni á innlendum vettvangi með sölu spariskírteina verður annaðhvort að hækka skatta, taka erlend lán eða skera meira niður af ríkisútgjöldunum.
    Vona ég að hæstv. ráðherra hafi heyrt þessa fyrirspurn.
    Hæstv. menntmrh. er nýkominn í salinn og þar sem síðasti ræðumaður beindi til hans fyrirspurn tel ég ástæðu til þess að árétta hana. Fyrirspurnin fjallaði um það hvort hæstv. menntmrh. væri sammála þeim fyrirhuguðu lagabreytingum sem birtast í því frv. sem hér er til umræðu og snýr að fyrirtækjum og dregur úr frádráttarheimild vegna framlaga til menningarmála. Mér er kunnugt um að hæstv. menntmrh. segir a.m.k. á tyllidögum og reyndar oftar að við eigum að stuðla hér að bættri menningu, menningarsköpun, listsköpun. Þar sem ýmis fyrirtæki hafa lagt talsverða fjármuni fram og fengið skattfrádrátt vegna þess er fyllsta ástæða til þess að spyrja hæstv. menntmrh.: Er hann sammála þeirri stefnu sem kemur fram í frv. að draga úr bókstaflega með opinberum aðgerðum þeim fjármunum sem gætu farið til menningarmála?
    Það má segja að forsendur efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og reyndar efnahagsstefnan sjálf, ef hægt er að kalla þetta stefnu, það aðgerðarleysi sem hefur ríkt hér um nokkurra mánaða skeið, speglist í fjárlagafrv. og í þeim skattafrv. sem að undanförnu hafa verið til umræðu og afgreiðslu hér í hv. þingdeild. Það er alveg kristaltært að með hverjum deginum sem líður verður úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar meir og meir áberandi. Hæstv. ríkisstjórn hefur í raun ekkert gert til að koma til móts við þau fyrirtæki sem nú berjast í bökkum og ekkert gert til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi atvinnuleysi. Þetta er alvarlegur áfellisdómur, en hann er engu að síður sannur, því miður.
    En það eru ekki bara einkafyrirtæki, hlutafélög og samvinnufyrirtæki sem eiga í erfiðleikum. Við fengum upplýsingar um það í dag að stór opinber fyrirtæki, bæði ríkisfyrirtæki og önnur, eru rekin með tapi þessa stundina og svo miklu tapi að líklega geta þessi fyrirtæki ekki lengur lagt fram fé til þess að koma til móts við þá sem einna verst eru settir í þessu þjóðfélagi. Ég segi þetta vegna þess til að mynda að orkufyrirtækin í landinu eru rekin með stórfelldu tapi, meira að segja Landsvirkjun þar sem hæstv. ráðherra sat í stjórn til skamms tíma, en hann hefur nú yfirgefið stjórn Landsvirkjunar. Það fyrirtæki kemur ekki til með að skila þeirri afkomu sem því er ætlað að skila og vantar talsvert á. Þetta getur orðið til þess

að Landsvirkjun reiði ekki
fram það fjármagn til þeirra sem þurfa að hita híbýli sín með raforku á næsta ári. Þar mun þá vanta u.þ.b. 100 millj. til þess að endar nái saman.
    Mér er enn fremur kunnugt um það að hæstv. fjmrh. hefur ekki enn svarað því hvort hann muni heimta inn greiðslur á skuldabréfum sem ekki var greitt af en átti að greiðast fyrir ári síðan af Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins. Þar var um að ræða skuldir sem stóðu eftir þegar verðjöfnunargjald af raforku var lagt af á sínum tíma, en fyrirtækin töldu sig hafa farið halloka út úr þeim samningum og treysta sér ekki til að greiða þessa fjármuni nema hækka rafmagnsverð um 10--15%. Og mér finnst full ástæða til þess að hæstv. ráðherra, fyrr en síðar, í síðasta lagi þá á morgun, eða hinn daginn réttara sagt þegar fjárlagaumræðan fer fram, taki þessi mál fyrir, en ég bendi á þau hér í þessari umræðu vegna þess að það eru ekki eingöngu einkafyrirtæki og samvinnufyrirtæki sem eru komin á vonarvöl, heldur einnig opinber fyrirtæki, í sumum tilvikum vegna þess að velta þeirra hefur minnkað vegna samdráttarins sem hefur orðið í atvinnulífi landsmanna.
    Mig langar, virðulegur forseti, til að nefna nokkur atriði í þessu frv. sem hér er til umfjöllunar. Ýmsir ræðumenn hafa rætt hér um þá stefnu sem birtist í frv. gagnvart einstaklingum. Ég ætla þess vegna ekki að taka tíma í það. Ég ætla ekki að verða langorður eða flytja langt mál að þessu sinni, enda gefst mér tækifæri til þess síðar í þessari umræðu að ræða einstök atriði frv. Ég vil þó nefna örfá þeirra.
    Á bls. 5 í athugasemdum með frv. undir fyrirsögninni ,,Breytingar á tekjuskatti fyrirtækja`` segir að meginatriði frv. er varða fyrirtæki séu þessi, og síðan er talið upp, með leyfi forseta:
    ,,Reglur um fyrningu lausafjár verði þrengdar.
    Almennar fyrningar, aðrar en á fasteignum, lækki.
    Heimild til að ráðstafa hluta rekstrarhagnaðar í sérstakan fjárfestingarsjóð verði lækkuð úr 30% í 15%.``
    Þetta lætur ekki mikið yfir sér, en hvað þýðir þetta í raun? Þetta þýðir það að hæstv. ráðherra ætlar að ráðast að þeim fyrirtækjum sem ekki hafa tekið þátt í því ,,fjárfestingaræði`` sem hæstv. ráðherra hefur sýknt og heilagt verið að tala um að hafi átt sér stað hér í þjóðfélaginu. Það eru nefnilega þau fyrirtæki sem lögðu fjármuni til hliðar og gátu nýtt sér þessa heimild sem nú á að skattleggja sérstaklega. Það er ekki langt síðan takmörkuð var heimildin til þess að leggja hluta af rekstrarhagnaði í sérstakan fjárfestingarsjóð úr 40% í 30%, en nú er farið í 15%. Þetta þýðir það að fyrirtækin eiga eftir þessa breytingu, ef að lögum verður, erfiðara með að koma í veg fyrir þær sveiflur sem verða í þjóðfélaginu því að þessi ákvæði hafa verið sveiflujafnandi ákvæði. Í góðum árum hafa fyrirtækin getað lagt til hliðar fjármuni. Þau hafa verið hvött til þess með skattalegum aðgerðum til þess að geta nýtt þessa fjármuni í slæmum árum. Ráðdeildarsamir stjórnendur, stjórnendur sem hafa starfað af fyrirhyggju, hafa nýtt

sér þessi lagaákvæði. Nú ætlar hæstv. ráðherra að ráðast að þeim og refsa þeim. Þetta er sannleikurinn í málinu. Nú er áfram ráðist að ráðdeild og fyrirhyggju. Það er verið að ráðast að því aðlögunarkerfi sem var komið upp til þess að fyrirtæki gætu jafnað á milli ára. Og hér er auðvitað dregið úr mætti fyrirtækjanna til þess að standast slæmt árferði.
    Ég ætla ekki að gerast margorður, virðulegur forseti, um tvo næstu liðina en þeir fjalla, með leyfi virðulegs forseta, annars vegar um það að meginatriði frv. séu að gjaldfærsla vegna rekstrarkostnaðar fólksbifreiða í eigu fyrirtækja verði takmörkuð. Þetta er auðvitað sett fram til þess að sýna að hæstv. ráðherra, sem er einn mesti siðbótarmaður sem uppi hefur verið á Íslandi á seinni tímum, geti sagt: Sjáið þið hvernig ég tók þá, eins og fræg persóna sagði í góðu íslensku leikriti sem ég veit að hefur löngum verið hæstv. ráðherra kært og hann þekkir af eigin raun.
    Hitt atriðið er síðan: Afnumin verði verðbreytingarfærsla hjá hlutafélögum vegna lána til eigenda og framkvæmdastjóra þeirra. Og hér er sagt: Hlutafélögum. Ef samvinnufélag lánaði hins vegar einhverjum af þeim sem á í samvinnufélagi, þá nær þetta ekki til þeirra. Maður spyr auðvitað: Getur verið eitthvert samband á milli þess að hæstv. fjmrh. sem er einn þekktasti liðsmaður Kron í Reykjavík og hefur setið á aðalfundum Sambands ísl. samvinnufélaga vilji ekki láta þetta ákvæði ná til sín eða annarra þeirra sem eiga í samvinnufélögum þannig að þeir sem eiga í samvinnufélögum ættu að geta tekið lán en ekki þeir sem eiga í hlutafélögum? Það væri fróðlegt að heyra skýringar hæstv. ráðherra á því hvernig á því stendur að þetta ákvæði nær ekki til annarra félaga einnig.
    Á næstu síðu, á bls. 6, í athugasemdum, segir síðan, með leyfi forseta, og enn er ég að lýsa þeim meginatriðum sem koma fram í frv. og varða tekjuskatt fyrirtækja. Þar segir: ,,Heimild til yfirfærslu taps við kaup eða sameiningu fyrirtækja í óskyldum rekstri verður þrengd.`` Hæstv. viðsk.- og iðnrh. talar gjarnan um endurskipulagningu fyrirtækja. Það hefst reyndar ekki mikið upp úr honum þegar hann er spurður að því hvað hann eigi við. Hann kemur þá stundum
hér í ræðustól og segir: ,,Við erum að leita allra leiða.`` Við erum að leita allra leiða segir sá maður sem hefur verið að leita allra leiða í mörg undanfarin ár fyrir hinar og þessar ríkisstjórnir. Hann er enn að leita allra leiða. Ef ég skil hann hins vegar rétt tel ég að hann hafi átt við það, þegar hann hefur svona gengið lengra en að segja að hann sé að leita allra leiða, að það eigi að ýta undir þá þróun að fyrirtæki geti sameinast. En nú á að gera þessi vandræði fyrirtækjanna, sem rekin eru með tapi og hafa möguleika á því að sameinast öðrum sterkum fyrirtækjum, að féþúfu. Nú á að koma í veg fyrir það sem ég get ímyndað mér að hæstv. viðsk.- og iðnrh. eigi við þegar hann talar um endurskipulagningu í rekstri fyrirtækja. Og það væri satt að segja full ástæða til þess að spyrjast fyrir um það, virðulegur

forseti, hvort nokkur möguleiki sé á því að fá hér hæstv. viðsk.- og iðnrh. í salinn ef hann er staddur í húsinu. ( Forseti: Það lítur út fyrir að hann sé staddur í húsinu. Ég skal gera ráðstafanir til þess að hann verði leitaður uppi.) Ég þakka fyrir.
    Á meðan við bíðum eftir hæstv. viðsk.- og iðnrh. langar mig til þess að fara örfáum orðum um síðasta atriðið sem hér er fjallað um þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Skatthlutfall hækki til samræmis við hækkun á tekjuskatti einstaklinga úr 48% í 50%.`` Ég vona að hæstv. ráðherra heyri til mín þegar ég segi: Slík setning eins og þessi er nánast fölsun. Ég ætla að skýra það út fyrir hæstv. ráðherra ef hann má vera að því að hlusta. Þegar búið er að koma í veg fyrir það að fyrirtæki geti lagt 30% af rekstrarhagnaði í fjárfestingarsjóð og koma því hlutfalli niður í 15% breytist þessi tala auðvitað ekki úr 48% í 50% hjá þessum fyrirtækjum, heldur fer hlutfallið úr svona 33,5 eða 33,7 í 42,5% og það er allverulega miklu meiri munur en sagt er hérna, að verið sé að breyta 48% í 50%. Þetta er nefnilega lymskuleg aðferð til að ná í miklu, miklu meiri fjármuni en menn gætu haldið af þeim texta sem þarna kemur fram.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fjölyrða um breytingar á eignarskatti einstaklinga og fyrirtækja. Það hafa aðrir gert á undan mér. Ég vil aðeins benda á að hér er farið út á braut sem er ákaflega varhugaverð með því að hækka stórkostlega eignarskatt einstaklinga og fyrirtækja, en það hefur margoft verið bent á það í þessum umræðum og reyndar í öðrum umræðum um þessi mál að eignarskattur er að mörgu leyti ákaflega ósanngjarn, ekki síst vegna þess að yfirleitt er verið að skattleggja eignir sem hafa orðið til með skattlögðum tekjum. Það er full ástæða til þess að vara við þessari stefnu, ekki síst ef hæstv. ríkisstjórn hyggst einhvern tíma koma skattaböndum á eignartekjur, þar á meðal fjármagnstekjur.
    En vegna þess, virðulegur forseti, að nú hefur hæstv. viðsk.- og iðnrh. heiðrað þessa samkomu, hv. Nd. Alþingis, og það væri í raun og veru full ástæða til þess að menn hrópuðu ferfalt húrra við að sjá einhvern annan hæstv. ráðherra en hæstv. forsrh. sem öllu ræður í þessu þjóðfélagi, ( Viðskrh.: Mér skilst að hann hafi verið í burtu fyrr í kvöld.) Já, já. Það getur vel verið, en ég var ekkert að harma --- ég var bara að segja að við ættum að fagna því að fá að sjá hæstv. ráðherra, þannig að ég vona að hæstv. ráðherra taki því ekki illa að því sé fagnað að hann komi hér í salinn. ( Viðskrh.: Þakka þér kærlega fyrir.) Já, það skal móttekið.
    Ég er enn kominn að því, hæstv. viðskrh., að spyrja: Hvað felst í hugtakinu endurskipulagning þegar hæstv. ráðherra er að leita allra leiða til að bjarga atvinnulífinu og atvinnufyrirtækjunum? Getur það verið að hæstv. viðsk.- og iðnrh. ætli með því að berja höfðinu við steininn og neita því statt og stöðugt að breyta gengi íslensku krónunnar? Getur verið að hæstv. ráðherra eigi við það þegar hann talar um endurskipulagningu að það þurfi að sameina fyrirtæki,

stuðla að samruna fyrirtækja? Ef það er rétt ágiskun, hvernig getur hæstv. ráðherra komið því heim og saman við þá stefnu sem birtist í frv. sem hér er til umræðu og dregur úr möguleikum til þess að fyrirtæki sameinist og hvetur síður til slíkrar sameiningar? Auðvitað kemur einhver afsökun um það að þarna sé átt við fyrirtæki í óskyldri starfsemi. ( Viðskrh.: Það stendur þar. Það er ekki afsökun.) Sú afsökun stendur í frv. Við skulum hafa það alveg klárlega orðað. En hvers konar afsökun er það sem stendur í frv. þegar við lítum til þess að það hlýtur að vera, fyrir mörg fyrirtæki, ekki síst fyrirtæki úti á landsbyggðinni, stórkostlegur akkur að geta breikkað sína starfsemi, stundað meira en einhæfan útveg, einhæfan frystiiðnað. Það kann að vera heppilegt að hægt sé að sameina fyrirtæki ólíkrar gerðar, í óskyldri starfsemi, einmitt til þess að hvor þáttur um sig geti bætt hinn upp. Þetta heitir stundum að dreifa áhættunni, ef ég man rétt, á svona hagfræðingamáli sem ég vona að hæstv. ráðherra skilji og skilur reyndar betur en flestir aðrir menn, enda einn þeirra sem hafa samið það tungumál sem hefur reyndar tekið sér bólfestu í stjórnmálaheiminum líka, a.m.k. hér á landi. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með það svo að ég hæli honum nú hér á hvert reipi.
    Fsp. mín er þessi: Hvernig getur hæstv. ráðherra komið því heim og saman að endurskipuleggja, ef hann á við með samruna fyrirtækja það sem ég veit að
hann á við, a.m.k. hefur hann stundum átt við það þegar hann talar um endurskipulagningu, þegar hann síðar að beiðni hæstv. yfirráðherra, fjmrh., sættist á það að draga úr áhuga fyrirtækja á slíkri sameiningu og slíkum samruna? Mér þætti vænt um það, hæstv. viðskrh., ef hægt væri, fyrir okkur sem erum ekki eins vel að okkur og þeir sem hafa unnið að slíkum málum lengi að hjálpa stjórnmálamönnum, og ég veit að honum verður ekki skotaskuld úr því, að skýra þetta nákvæmlega.
    Í leiðinni mætti hann auðvitað, ef það er nú rangt hjá mér að þessi endurskipulagning fyrirtækja hafi eitthvað með samruna og sameiningu að gera, segja okkur þá, okkur þessum ófróðari, ef hann vildi nú af allri sinni háttvísi og hógværð segja okkur við hvað hann á þegar hann talar um endurskipulagningu fyrirtækja. Og fyrst hæstv. ráðherra er kominn hér í salinn --- en ef ég veit rétt gegnir hann störfum hæstv. utanrrh. --- þá langar mig til þess að spyrja hann að því hvort hann kannist við í fyrsta lagi að einhvern tíma hafi verið talað um það að skattkerfisbreytingar væru það skásta sem síðasta ríkisstjórn hafi staðið að. Og hvernig hann komi því heim og saman, hæstv. ráðherra, nú þegar lagt er til að leggja á mörg þrep í vörugjaldi og þegar horfið er frá þessari skattkerfisbreytingu, hvernig hann kemur þessu orðið öllu heim og saman. Alþfl. stóð að skattkerfisbreytingunni og eftir því verður munað, segir sá sem núna var úti í Póllandi. Og meðan hann er úti í Póllandi og hæstv. viðskrh. gegnir störfum hans, þá er allt í einu bara öllu kippt til baka, það

stendur ekkert eftir. Það væri gaman að heyra sérfróðan mann fjalla um þetta efni og koma þessu heim og saman.
    Virðulegur forseti. Það væri vissulega ástæða til að ræða hér fjölmargt annað sem kemur þessu frv. við, en ég hef ákveðið að stilla máli mínu í hóf og flytja hér ekki langa ræðu. Það er þó niðurstaðan að þessi mál hanga öll saman, efnahagsmálin og skattamálin. Það er ljóst að hér er fylgt þeirri stefnu, ef stefnu skal kalla, að halda úti falskt skráðu gengi, sem reyndar helmingurinn af hæstv. ráðherrum viðurkennir en hinn helmingurinn lokar augunum fyrir. Það hafa verið tekin erlend lán til þess að borga þeim sem stunda útflutning og fyrirtækin um tímabundið skeið til þess að halda verðbólgunni niðri og halda genginu rangt skráðu. Og ég skil ekki hæstv. iðnrh., hvernig hann getur varið það fyrir iðnaðinum sem ekki fær neitt í sinn hlut, en það er auðvitað níðst á iðnaðinum þegar gengið er rangt skráð eins og hæstv. forsrh. hefur margoft viðurkennt. Það er viljandi verið að drepa iðnaðinn í landinu með rangt skráðu gengi. Ofan á þessu situr hæstv. viðskrh. sem fer með gengismálin og honum virðist standa nákvæmlega á sama, alveg nákvæmlega á sama, alveg eins og honum stendur nákvæmlega á sama þótt endurskipulagningin fari út um víðan völl vegna þess að hæstv. fjmrh. er að leggja fram skattafrv. sem eyðileggur slíkt. Ég fæ ekki annað skilið en honum sé nákvæmlega sama þótt hæstv. utanrrh. komi heim og uppgötvar allt í einu þá að skattkerfisbreytingin hans er líka horfin. Og þá er nú fátt eftir. En hann getur kannski lesið bók um jólin sem hann kannast við.
    Síðan og ekki síst birtist stefna þessarar hæstv. ríkisstjórnar í því að auka atvinnuleysið. Það virðist vera stefnt að því alveg vitandi vits með því fyrst að hafa gengið rangt skráð og svo í öðru lagi með því að skattleggja þau fyrirtæki sérstaklega sem lifa þetta af þannig að þau fari nú örugglega á hausinn líka því að þegar þau eru farin á hausinn, þá þarf að hækka skattana á þessum fáu fyrirtækjum sem eftir verða og þegar fólk er atvinnulaust, þá borgar það ekki skatta og þá þarf að taka hærri skatta af þeim sem hafa þó vinnu. Þannig á að halda áfram og allt til þess að þjóna nýjum herrum, þ.e. hæstv. fjmrh. sem nú virðist hafa tekið öll völd í þessari hæstv. ríkisstjórn.
    Ég held, virðulegur forseti, að þótt æskilegt hefði verið að fjalla um margar aðrar hliðar þessa frumvarps, þá takmarki ég mig eingöngu við þennan litla þátt þessa vonda frumvarps sem hér er til umræðu.