Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Eitt þýðingarmesta verk hvers þjóðþings er að gera fjárlög þannig að á þeim megi taka mark og þau séu þannig úr garði gerð að til heilla sé fyrir það þjóðfélag sem ætlað er að stýra eftir þeim. Það liggur ljóst fyrir að fjárlagafrv. og fjárlögunum er ætlað að endurspegla þá stefnu sem ríkisstjórn hvers tíma vill að farin verði í öllum þýðingarmestu málaflokkum sem ákvörðun þarf að taka í fyrir hver mánaðamót á næstu mánuðum.
    Í þingsköpum er gert ráð fyrir og beinlínis sagt fyrir um hvernig þessum málum skuli hagað. Þar á meðal er þess getið að forsrh. skuli halda stefnuræðu og sagt er til um hvernig hún skuli birt þeim sem á hana hlýða og henni eiga að svara í þinginu. Auk þess er sagt til um með hvaða hætti fjárlagafrv. skuli gert og hvernig það skuli fyrir þingið lagt og hvað það eigi að innifela, annars vegar varðandi útgjöld ríkisins og hins vegar þær tekjur sem ríkissjóði er ætlað að hafa til þess að standa straum af þeim útgjöldum sem fjárveitingavaldið, Alþingi, ákveður.
    Einhvern veginn er því svo nú farið að stefnan í hinum einstöku málaflokkum verður ekki fundin. Ekki hefur verið frá því skýrt og allra síst var það svo að ræða hæstv. forsrh., stefnuræða sem hún átti að heita, væri yfir höfuð nokkur stefnuræða til ákvarðanatöku fyrir þjóðþing.
    Það fjárlagafrv. sem er til meðferðar í Alþingi nú var sett saman á tiltölulega skömmum tíma, en það má segja hæstv. fjmrh. til hróss að hann tók rösklega til hendi eftir að hann tók við. Forveri hans hafði gengið með fjárlagafrv. með halla upp á vasann í margar vikur og marga mánuði og komst lítið áfram. Frv. til fjárlaga ber vott um að vera snöggsoðið. Það var engin forskrift þess ráðherra sem í forsæti sat þannig að menn sem á þingi sitja biðu og væntu þess að þegar á þingtímann liði mundi úr þessu rætast, enda því lofað þegar fjárlagaræðan fór fram í sameinuðu Alþingi. Því er nú ekki að heilsa að kynnt hafi verið stefna í efnahagsmálum. Því er ekki að heilsa að kynnt hafi verið stefna í gengismálum og því er ekki að heilsa að kynnt hafi verið stefna í peningamálum. Stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum hefur ekki verið kynnt né heldur stefna hennar í verðlagsmálum. Stefna í atvinnumálum er engin og við erum að fjalla um einu þýðingarmestu löggjöfina, þ.e. löggjöf um tekjuskatt og eignarskatt. Það er auðvitað ljóst að í þeirri löggjöf, eins og hún er samþykkt af Alþingi, á að felast stefna sem fjárlagafrv. grundvallast á að hluta til.
    Þegar hæstv. fjmrh. talaði fyrir fjárlagafrv. kynnti hann með hvaða hætti hann hygðist leggja fyrir tekjuöflunarfrv. Á það var minnt að eðlilegt væri og æskilegt að Alþingi fengi að sjá þá mynd sem hæstv. fjmrh. vildi hafa, ef hann eða ríkisstjórnin hefðu þá gert sér grein fyrir því hver stefnan í tekjuskattsmálum ætti að vera vegna fjárlagafrv. Eftir þessu var innt hvað eftir annað en það fengust engin svör. Svo fóru þó frv. að fæðast og að undanförnu hafa verið til umræðu frv. sem hafa að sjálfsögðu áhrif í þessum

efnum. Frv. er ætlað, eftir því sem á pappírnum stendur, að gefa ríkissjóði auknar tekjur en miðað við stefnu þeirra er ljóst að þar er um ofreikning að ræða. Þegar ég tala um ofreikning liggur ljóst fyrir að sammerkt með öllum þessum frv. er aukning skatta, íþynging, hvort sem litið er til einstaklinga eða atvinnulífsins. Þá hljótum við að spyrja: Er staða mála sú hjá okkur í dag að þetta sé sú stefna sem eigi að vera og sú sem geti eða sé líkleg til þess að snúa við því ástandi sem við búum við. Mín skoðun og okkar sjálfstæðismanna er að svo sé hreint ekki.
    Það er öllum ljóst að þróun mála á þessu ári hefur verið okkur afar óhagstæð og því er ástæða til þess að gera sér vel grein fyrir hvernig væri skynsamlegast að bregðast við. Það hefði að sjálfsögðu átt að vera skylda ríkisstjórnarinnar að hafa sem nánast samstarf við stjórnarandstöðuna á Alþingi, ég tala nú ekki um þegar kynnt var í fjárlagafrv. að gera skyldi miklar breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Hér erum við að ræða þetta frv. við 1. umr. Hæstv. fjmrh. og embættismenn fjmrn. hafa haft þessi mál til umfjöllunar í tvo og hálfan mánuð og ekki hefur svo mikið sem hvarflað að nokkrum þeirra að senda hugmyndir til stjórnarandstöðunnar til kynningar þannig að hægt væri að vinna þessa hluti með meiri hraða á þingi en mér sýnist að geti orðið.
    Vikið hefur verið að ákveðnum atriðum í kvöld í umræðunum um frv. þar sem bent hefur verið á ósamræmi á milli texta frv. og útkomu úr dæmum. Það hlýtur að verða verkefni þeirrar nefndar sem fær frv. til umfjöllunar að staðreyna það sem hér er gerð grein fyrir til þess að Alþingi sjálft átti sig á því hvort það sem textinn segir sé rétt, þ.e. þegar dregnar eru línur á blað til þess að sýna samanburð á milli þess sem er samkvæmt gildandi lögum og þess sem gert er ráð fyrir verði frv. að lögum. Það hlýtur að vera eðlileg krafa þingmanna að þetta sé gert. Ég tala nú ekki um þegar efst á blaði í því fylgiskjali sem birt er með frv. stendur: ,,Fjármálaráðuneytið, hagdeild``. Þetta er ný deild í fjmrn. sem stofnuð var í tíð fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh. Það var einmitt sú deild sem fram eftir þessu ári taldi sig geta sagt
að hallinn á ríkissjóði yrði ekki meiri en 693 millj. kr. Menn treystu sér til þess að halda þessu fram jafnvel þó að á borðum fyrrv. ríkisstjórnar lægi greinargerð þar sem staðan, þá á miðju ári, var metin svo að halli ríkissjóðs yrði a.m.k. 2,5 til 3 milljarðar kr. Staðreynd málsins hefur verið sú að jafnvel spádómurinn sem þar kom fram var of hagstæður því að reynslan hefur orðið önnur.
    Hæstv. fjmrh. hefur í hvert skipti sem hann hefur talað á Alþingi tilkynnt aukinn halla á ríkissjóði, og hann var nú lítillátur í hvert skipti sem hann kom og hækkaði þetta ekki upp nema um einn milljarð en þá endaði dæmið í því að hæstv. sjútvrh. bauð betur og gerði grein fyrir 7 milljarða væntanlegum halla á ríkissjóði hér við umræðu í hv. Ed. fyrir tveimur dögum síðan.
    Staðreynd málsins, og það er mjög þýðingarmikið fyrir okkur að gera okkur grein fyrir þessari

niðurstöðu, er að 5 milljarðarnir sem hæstv. fjmrh. gerði Alþingi grein fyrir byggðust á niðurstöðu 30. sept., en nú liggur fyrir niðurstaða 30. nóv., og sennilega hefði hæstv. fjmrh. getað komið hér upp enn einu sinni og tilkynnt einn milljarð í viðbót og þá spáð því hvernig lokastaðan yrði því að því miður hefur sigið á verri hliðina í þessum efnum.
    Það sem er kannski besti mælikvarðinn án þess að menn skoði tölur eða virði fyrir sér skýrslur er hver staðan er hjá viðskiptabanka ríkissjóðs, þ.e. Seðlabankanum. Það er mjög auðvelt að meta stöðuna út frá því. Ef ég hef fengið réttar upplýsingar eru heildarskuldir ríkissjóðs við Seðlabankann í lok nóvembermánaðar rúmir 10 milljarðar. Skuldaaukningin frá upphafi árs til nóvemberloka eru tæpir 6 1 / 2 milljarður. Síðan í nóvemberlok hefur enn orðið aukning. Aukning skuldar þar miðað við 9. des. er um 2 1 / 2 milljarður. Það er auðvitað ekki hægt að taka stöðuna einn dag. Það verður að bera saman, og sé 10. des. borinn saman við 10. nóv. kemur í ljós að skuldaaukningin á þessu tímabili er einn milljarður þannig að það sem hér er verið að tala um --- enda þótt hæstv. sjútvrh. vildi bjóða betur --- eru staðreyndir sem við verðum að taka til greina. Og einmitt út frá því hvernig og með hvaða hætti við getum metið fjárlagadæmið og tekjuhlið fjárlaga get ég ekki séð hvernig menn láta sér detta það í hug að ætla að afgreiða fjárlög ríkisins, fjárlagafrv., fá samþykkt fjárlög án þess að búið sé af hálfu Alþingis að samþykkja þau frumvörp, þær tillögur, sem fyrir liggja í sambandi við tekjuhlið frumvarpsins, hvernig þeir hugsa sér að afgreiða raunhæf fjárlög. Auðvitað ætti að byrja á því að gera sér grein fyrir hver væri staða tekjuhliðar og deila síðan því sem inn kemur út.
    Mér er tjáð að frá hv. fjvn. komi innan tíðar hennar tillögur í sambandi við það fjárlagafrv. sem fyrir liggur og að þær breytingar sem hún geri séu ekki venju fremur stórvægilegar, en vel má vera að áður en öllu er lokið verði að taka til hendi og gera breytingar á frv. sem fyrir liggur með þeim tillögum um breytingar sem fjvn. kemur til með að leggja fram.
    Það verður auðvitað að vera á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar, eins og hv. 2. þm. Reykv. benti hér á í kvöld, að meta stöðu þessara mála og gera Alþingi grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin vill standa að slíkum fjárlögum og á hvaða grundvelli hún hyggst byggja tekjuhlið frv. og þá er það einmitt sú umræða sem hér fer fram sem er grundvöllur að þeim hlutum að verulegu leyti.
    Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er og verður ævinlega vandasöm. Til slíkra breytinga þarf að vanda. Það er ekki bara út frá, eins og sagt er, skattateknísku sjónarmiði. Það er kannski miklu fremur út frá því sjónarmiði hvort skattalög, hvort skattheimta er til þess að örva atvinnulífið, hvetja einstaklinga, hvort slík löggjöf er til þess að draga úr einstaklingsframtakinu eða hvort slík löggjöf er til þess að draga úr atvinnulífinu og reyna að færa það í dróma.

    Það hefur verið vikið að ákveðnum atriðum í þessari umræðu og einmitt bent mjög skilmerkilega á með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst seilast í vasa skattborgaranna með þeim breytingum sem hún leggur til, með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst seilast í sjóði þeirra fyrirtækja sem eitthvað eiga eftir enn þá. Og það eru ansi mikil öfugmæli miðað við það sem sagt var þegar ríkisstjórnin var mynduð, hvort heldur var af hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh., að einn meginþátturinn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar væri að gera hluti sem væru til þess ætlaðir að auka eigið fé fyrirtækjanna. Það er öllum ljóst að eigið fé í íslenskum fyrirtækjum er því miður víða allt of lítið og það er ástæða til þess að haga þannig skattlagningu að fremur megi það aukast heldur en hitt. Og það er settur á stofn sérstakur sjóður sem er ætlað að aðstoða fyrirtækin. Það er að vísu lánasjóður. Einhver orðaði það svo að það væri sjóður til þess að framlengja erfiðleikana, og mér er þá spurn: Er verið að lána fyrirtækjunum til þess að geta greitt aukna skatta sem gert er ráð fyrir að lagðir verði á fyrirtækin með frv. sem hér er til umræðu?
    Varðandi skatta á einstaklinga er aftur horfið til skattvísitölu. Það er horfið frá því að tengja þessa hluti öðrum stærðum sem eðlilegar eru til viðmiðunar og aftur horfið til þess að geðþóttaákvörðun verði ráðandi í þeim efnum, hvort skattbyrðin eykst á milli ára eða hvort það verða aðilar sem
hyggjast tryggja að svo verði ekki og því ákvarðanir samkvæmt því.
    Það hefur verið bent á hvernig í raun og veru er gert ráð fyrir hækkun á skatti, hvernig gert er ráð fyrir því að skattfrjálsar tekjur verði lægri ef frv. nær fram að ganga en fyrr þannig að í staðinn fyrir --- eins og hæstv. fjmrh. orðaði það og einn fyrirrennari hans orðaði það fyrir löngu síðan, að nú skyldu breiðu bökin fundin til þess að þau standi undir þessari skattheimtu.
    Ef við virðum fyrir okkur hugmyndir að breytingum varðandi tekjuskatt fyrirtækja eru þær með þeim hætti að þær ganga gegn hugmyndum sem alls staðar annars staðar hafa verið lagðar til grundvallar í sambandi við skattalög. Þær eru þess eðlis að íslensk fyrirtæki verða ekki jafnsamkeppnisfær og þau hafa verið. Þær verða þess eðlis að þær hvetja til fjárfestinga í staðinn fyrir að letja eins og skattalögin sem í dag gilda hafa gert. Þessar breytingar eru því allar þess valdandi, ef að lögum verða, að veikja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna þvert á það sem ríkisstjórnin sjálf orðaði það í upphafi. Það er hins vegar auðvitað ljóst af því sem hefur verið að gerast síðan að þá settu menn saman orð og setningar, en ekki það að menn hefðu stefnu og vissu hvað þeir vildu gera til þess að hjálpa atvinnurekstrinum til þess að skapa aukið eigið fjármagn í fyrirtækjunum.
    Hv. 1. þm. Reykv. vék sérstaklega að þessum atriðum með tilliti til endurskipulagningar og því ákvæði að það yrðu gerðar á breytingar þegar um væri að ræða samruna fyrirtækja. Vissulega, þegar það er orðað í frv., með leyfi forseta: ,,Heimild til

yfirfærslu taps við kaup eða sameiningu fyrirtækja í óskyldum rekstri verði þrengd.`` Ef við horfum til þess sem hefur verið að gerast í kringum okkur skulum við gera okkur grein fyrir því að það er ekkert síður að fyrirtæki sem eru með óskyldan rekstur hafi verið að sameinast en fyrirtæki sem hafa verið með skyldan rekstur. Ég fæ ekki skilið að fyrirtæki sem eru með óskyldan rekstur eigi að búa við lakari stöðu í þessum efnum en fyrirtæki sem búa við skyldan rekstur. Ef um er að ræða tvö fyrirtæki sem hafa að vísu óskyldan rekstur en annað stendur fjárhagslega vel en hitt ekki, hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki ekki njóta þess sama ef þau vilja sameinast til þess að skapa betri fjárhagsstöðu, betri eiginfjárstöðu, fyrir hvorn reksturinn fyrir sig? Þetta fæ ég ekki skilið og ég trúi ekki að hér hafi menn gert sér grein fyrir málinu til enda, heldur hitt að af því að fyrirtækin væru óskyld ætluðu menn ekki möguleika á að færa þar á milli, en það getur verið mjög hagkvæmt að stækka fyrirtækin, vera með tvo óskylda þætti í rekstri fyrirtækis, færa á milli til fyrirtækis sem er með sterkari stöðu og meira eigið fé.
    Síðan er gert ráð fyrir því að tekjuskattshlutfallið verði hækkað. Það er sjálfsagt vegna þess að það er reynsla ríkisstjórnarinnar bara þá mánuði sem hún hefur starfað af því hvernig þróun mála hefur verið, og það hljóti að vera svo mikill afgangur hjá flestöllum fyrirtækjum á Íslandi að þau hafi náttúrlega miklu meira en nóg til þess að styrkja eiginfjárstöðuna og rekstrarafgangnum eigi að skila til ríkissjóðs.
    Ég held að ef þetta yrði raunverulega það sem ráðherrarnir hugsa væru þeir allir komnir upp í turninn til hæstv. forsrh. sem hann segist hafa verið í þegar hann myndaði núv. ríkisstjórn. Ég held að menn geri sér þá ekki grein fyrir því hver sé staða mála og hver þörfin til þess að snúa þessu dæmi öllu við.
    Með þessu frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður hafi auknar tekjur á árinu 1989. Mér hefði ekki fundist óeðlilegt, en vel má vera að hæstv. fjmrh. hafi ekki haft aðstæður til þess og ég met að svo hafi verið, og það hefði verið mjög gott ef í grg. við frv. hefði verið dregin upp mynd af stöðu þessara mála og að menn áttuðu sig á því hvað það sem hefur verið að gerast þýðir í raun og veru í sambandi við forsendur þess fjárlagafrv. sem er til umfjöllunar á Alþingi.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var gerð 30. sept. segir beinlínis að þær niðurstöður sem hún fékk breyti öllum forsendum fjárlagafrv. Það hefur hallað á ógæfuhliðina síðan, og mér er tjáð að sá samdráttur sem orðið hefur muni þýða tveimur milljörðum kr. minni tekjur en frv. gerir ráð fyrir. Þetta eru auðvitað hlutir sem horfa verður á og meta þegar fjárlagafrv. verður endanlega til umræðu og þess vegna hefði ég talið eðlilegt að hér og nú hefðum við haft yfirlit og greinargerð yfir tekjur ríkissjóðs fyrir árið 1989.
    Við verðum að átta okkur á því að þegar hæstv. fjmrh. talaði fyrir fjárlagafrv. mátti heyra á honum að hann gerði ráð fyrir miklu meiri tekjuaukningu en raun hefur orðið á. Þar kom fram í gær, þegar hæstv. ráðherra lýsti frv. sem því síðasta sem flutt yrði

varðandi tekjuöflunina, að bæði var þá að þar vantaði, miðað við það sem sagt hafði verið, frv. um sérstakan skatt á happdrætti og svo einnig þátt í þetta frv. þar sem fjármagnstekjur væru skattlagðar. Það er þess vegna hvort tveggja að fyrirætlanir ráðherrans í upphafi, um tekjuöflun, hafa ekki gengið fram og hann hefur gert grein fyrir því, metur að skattur af happdrættisvinningum verði skoðaður og það muni koma síðar og fjármagnstekjuskattlagning muni koma síðar. Það sem hins vegar er
mergurinn málsins er að þetta tvennt átti að vera þáttur í því að skapa tekjur til þess að þær 1200 millj. sem gert var ráð fyrir að yrðu í tekjuafgang af þessu frv. gætu átt sér stað. Hvort tveggja er að þetta hefur ekki gengið eftir eins og ég sagði, svo og hitt að reynslan af því sem hefur verið að gerast er með þeim hætti að verðlagsforsendur og velta verða, ef fram heldur sem verið hefur, miklu minni og gefa þar af leiðandi minni tekjur í ríkissjóð.
    Ég hef vikið að þessum málum til þess að við áttum okkur á því hvað í raun og veru er í húfi. Við getum að sjálfsögðu deilt um hver á að vera skattprósenta eða hvaða liðir eigi að vera undanþegnir skatti eða skattlagðir með einum eða öðrum hætti. Ég held hins vegar að Alþingi verði umfram allt að gera sér grein fyrir því að þessum málum verður að ljúka áður en fjárlagafrv. er afgreitt. Við hljótum að gera þá kröfu til þeirra sem forustuna hafa að Alþingi fái tækifæri til að skoða þessa hluti, fái aðstöðu til að meta það sem lagt er fram. Það hefur stundum komið fyrir að menn hafa ekki reiknað alveg hárrétt. Mann hafa ekki lagt á borðið alveg hárrétta útreikninga, ekki að það hafi verið með vilja gert, heldur kannski vegna þess að menn hafa ekki tekið allt með í reikninginn. Það er þess vegna eðlilegt að Alþingi geri úttekt á þessum hlutum og skoði þá, einfaldlega til þess að ekki þurfi að segja að þannig hafi þetta komið á borð þingmanna og runnið í gegn án þess að þeir skoðuðu það.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég endurtek að þetta frv. ásamt og með öðrum frv. sem hér eru til umræðu verður Alþingi að afgreiða áður en kemur að ( Gripið fram í: Jólaleyfi.) því að fjárlagafrv. verði tekið til lokaafgreiðslu.