Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. gerði m.a. að umtalsefni ákvæði 9. gr. frv. um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Það gerði reyndar hv. 1. þm. Reykn. líka. Hv. 1. þm. Reykv. beindi því til mín að segja um þetta nokkur orð.
    Níunda gr. þessa frv. hefur það efni að hún takmarkar flutning eftirstöðva rekstrartaps milli félaga við þau félög sem hafa með höndum sams konar rekstur eða starfsemi og hún takmarkar einnig réttinn til þess að flytja eftirstöðvar rekstrartaps frá fyrri árum frá félagi sem átti litlar eða óverulegar eignir og hafði engan rekstur með höndum. Þetta ákvæði greiðir að sjálfsögðu ekki fyrir samruna fyrirtækja í óskyldum rekstri eins og réttilega var á bent af hv. 1. þm. Reykv. Ég vil líka leyfa mér að benda á það að frv. tefur alls ekki samruna fyrirtækja í skyldum rekstri og þar er kannski þörfin brýnust fyrir endurskipulagningu í rekstri, og á ég þá við sjávarútveginn, ullariðnaðinn og reyndar skipasmíðar þar sem gæti víða komið til greina samstarf eða samvinna á milli fyrirtækja. Þetta veit ég að hv. 1. þm. Reykv. skilur mætavel, og ég deili áhuga hans og áhyggjum af því að þarna sé margt ógert og reyndar minnist ég þess að bæði hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Suðurl. lögðu á það áherslu á því ári sem senn er liðið að mikil þörf væri á skipulagsbreytingum í grundvallaratvinnuvegum okkar og almennar aðgerðir, eins og t.d. gengisbreytingar, mundu reynast haldlítil úrræði ef undirstaðan væri veik. Um þetta er ekki ágreiningur. Það má segja að þetta tiltekna ákvæði frv. greiði ekki fyrir endurskipulagningunni, en ég tel að það tefji hana heldur ekki þar sem hún skiptir mestu máli. Það er ástæða til þess að huga að því hvers vegna þessi tillaga er flutt. Hún er fyrst og fremst flutt vegna ábendinga frá skattframkvæmdaraðilum og skattrannsóknarmönnum sem benda á að viðskipti með skattahagræði milli fyrirtækja í samstarfi eða samruna hafi verið gloppa í okkar skattakerfi. Þetta hafi verið áberandi og valdið því að fyrirtæki sem annars bæri nokkur skattskylda slyppu við hana. Þetta er málið. Þarna togast á þau sjónarmið sem hv. 1. þm. Reykv. talaði fyrir og þetta sjónarmið, að hafa ekki veilur í skattalögunum sem bjóði heim slíku lögmætu undanskoti tekna undan skatti.
    Niðurstaðan af mati á þessum árekstri tveggja gildra sjónarmiða er sú tillaga sem flutt er í 9. gr. Ég skil vel þau sjónarmið sem hv. 1. þm. Reykv. flutti hér, en vildi benda á þetta sem ég tel vera fullgilt sjónarmið og ólíkt mörgum öðrum greinum í þessu frv. er fjáröflunin ekki aðalatriðið í tillögunni, heldur fremur skattaeftirlitið.
    Hv. 1. þm. Reykv. minnti hv. þingdeild réttilega á það að hæstv. núv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., hefði unnið stórvirki í því að bæta skipulag skattakerfisins. Það var þörf ábending. Ég vildi líka leyfa mér að benda á að hv. 1. þm. Reykv. tók þátt í þessum gagnmerku breytingum og aðrir þeir sem stóðu að þeirri ríkisstjórn sem við áttum báðir sæti í. Ég veit að þær

breytingar voru svo gagngerar og traustar að þær munu standast þá áraun sem það óneitanlega er þegar fjárhagsaðstæður ríkisins gjörbreytast svo sem raun ber vitni á þessu ári. Það er rétt, við höfum þurft að grípa til ýmissa fjáröflunarráðstafana sem víkja frá því sem menn helst kysu, en grundvöllurinn, sú skattkerfisbreyting sem gerð var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, er nægilega traustur til þess að standast slík tímabundin frávik. Ég bendi á að frv. sem við ræðum í dag er einmitt dæmi um það að beita hinu nýja skattkerfi staðgreiðslunnar við breyttar aðstæður án þess að raska grundvallareiginleikum þess. Þetta segi ég í mikilli vinsemd og með fyllsta tilliti til þeirra sjónarmiða sem hv. 1. þm. Reykv. og reyndar hv. 1. þm. Reykn. hreyfðu hér réttilega. Það er hins vegar ekki undan því að víkjast að beita þessum nýju skattkerfum til þess að afla ríkinu nauðsynlegra tekna og það er þörfin sem nú er brýnust.