Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það vakti athygli að þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu frv. fór hann á hundavaði yfir efni þess í fáum orðum, en eyddi því lengri tíma til þess að ræða frv. sem ekki hefur verið flutt. Því vakti það kannski enn meiri furðu að í síðari ræðu hæstv. ráðherra skyldi ekki koma frekari greinargerð af hans hálfu fyrir því frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur hér lagt fram.
    Hæstv. ráðherra vék enn einu sinni að þeirri staðhæfingu að skattar á Íslandi væru býsna lágir, eða þriðju lægstu innan landa OECD. Þetta hefur verið notað oft upp á síðkastið sem rökstuðningur fyrir skattheimtu ríkisstjórnarinnar og er nú enn einu sinni dregið fram. Í vikuritinu Vísbendingu, sem fjallar um viðskipta- og efnahagsmál, var einmitt fjallað um þessa staðhæfingu fyrir skömmu og þar var vakin athygli á að óbeinir skattar eru miklu hærri hér en í OECD-löndunum, eða um 70% af ríkistekjunum á móti 30% þar. Bent er á það í tímaritinu að vegna þess að óbeinir skattar reiknast sem hlutfall af landsframleiðslu skekkist þessi samanburður verulega þar sem nefnarinn í hlutfallinu fyrir Ísland reynist stærri en hinna landanna og dregur þar með úr hlutfallslegu vægi skatta. Auðvitað er þetta rétt ábending og þetta þarf að leiðrétta. Niðurstaða ritsins er að þegar tekið hefur verið tillit til þessa er Ísland ekki þriðja lægsta skattheimtulandið heldur tíunda hæsta skattheimtulandið. Að þessu ætti hæstv. ráðherra að huga áður en hann notar þessa röksemd oftar, svo ég tali ekki um áður en honum dettur í hug að hækka skattana enn meira. Rétt er að ítreka að ljóst er að hann hefur tekið við allri verkstjórn, frumkvæði og forustu um stjórn efnahags- og atvinnumála í landinu og Framsfl. sem fékk það ráðuneyti hefur greinilega afsalað því hlutverki til hæstv. fjmrh. Ef hæstv. ráðherra ætlar að halda þessari stefnu áfram verður þetta að svikamyllu sem kallar á minni umsvif, færri fyrirtæki stunda framleiðsluna vegna þess að þau fara smám saman á höfuðið, tekjur einstaklinga verða lægri og alltaf þarf að hækka skattana af minni og minni gjaldstofni. Áður en þessu heldur áfram ætti hæstv. ráðherra að hugsa sig nokkuð um.
    Því verður auðvitað ekki á móti mælt að þær töflur sem fylgja frv. eru verulega villandi bæði að því er varðar framreikning yfir á meðalverðlag næsta árs, eins og hv. 17. þm. Reykv. bendir á, og eins vegna þess að þar eru heildarskattgreiðslur, tekjuskattur og útsvar, ekki teknar saman svo sem eðlilegt er og staðgreiðslukerfið gerir ráð fyrir. Hæstv. ráðherra hefur í engu svarað því að allt það sem hann hefur sagt um hækkun persónuafsláttar hefur við engin rök að styðjast. Hann hefur lýst því yfir í þinginu og í fjölmiðlum að hann sé með frv. að hækka persónuafsláttinn. Þegar frv. er svo lesið kemur í ljós að hann er að lækka persónuafsláttinn og hefur sagt ósatt bæði hér í þinginu og í fjölmiðlum. Þess vegna er ástæða til þess að ítreka spurninguna og spyrja: Gerði hann þingflokkum ríkisstjórnarinnar og þingflokki Jafnréttis og félagshyggju einnig grein fyrir

þessu? Það er ástæða til þess að inna eftir því hvort hæstv. ráðherra hafi gert þingflokkunum grein fyrir því hvort persónuafslátturinn sé ekki að hækka heldur að lækka.
    Hæstv. viðskrh. hefur nú tekið um sinn við forustu Alþfl. vegna þess að formaður Alþfl. treystir sér ekki til að vera við umræður á Alþingi um þessar mundir þar sem verið er að hafa endaskipti á öllu sem hann hefur boðað og staðið fyrir, hvort sem það er í efnahagsmálum, atvinnumálum eða skattamálum. Hæstv. viðskrh. hefur tekið að sér að axla þá ábyrgð fyrir Alþfl. að leiða þessi umskipti. Fyrir nokkrum vikum síðan var það fráfararatriði í samstarfi Alþfl. og Sjálfstfl. að Sjálfstfl. lagði til að skattur á matvæli yrði lækkaður. Til þess að ekki hallaði á ríkissjóð var Sjálfstfl. tilbúinn til þess að hækka tekjuskatt þannig að breytt væri um skatta en heildarskattheimtan í landinu hækkaði þó vegna minnkandi niðurgreiðslna. Þá sagði Alþfl.: Þetta getum við ekki gert, við getum aldrei staðið að hækkun tekjuskatts nema að hækka persónuafsláttinn. Það var gert að fráfararatriði að ekki væri hægt að standa að hækkun á tekjuskatti nema að persónuafslátturinn hækkaði verulega. Nú hefur formaður Alþfl. hlaupið úr landi af því að hann getur auðvitað ekki staðið á Alþingi og varið það að nú örfáum vikum seinna ætlar Alþfl. að gera það að hugsjón sinni að hækka tekjuskattinn en lækka persónuafsláttinn, ekki láta hann standa í stað heldur lækka hann. Það eru þessi umskipti sem formaður Alþfl. er að flýja en hefur falið hæstv. viðskrh. að leiða fyrir hönd flokksins hér inn á þingið.
    Hæstv. fjmrh. gerði enga grein fyrir því hvort hann hefði kynnt þingflokkum stjórnarinnar að nú ætti að gjörbreyta þeirri tryggingu sem staðgreiðslukerfið gerði ráð fyrir, þ.e. að skattfjárhæðir í frv. væru endurskoðaðar samkvæmt lánskjaravísitölu tvisvar á ári. Nú ætti einu sinni á ári að láta skattvísitölu sem ríkisstjórnin ákveður með handafli inni í fjárlögunum ráða þessum breytingum með þeirri afleiðingu sem ríkisstjórnin sjálf hefur kynnt, þ.e. að persónuafslátturinn lækkar. Með því er verið að veikja stöðu skattborgaranna en styrkja stöðu skattheimtumannanna. Var þetta
kynnt? Getur verið að Alþfl. hafi kyngt þessu eftir ítarlegar umræður og alvörukynningu af hálfu fjmrh.? Er það hugsanlegt?
    Hæstv. ráðherra svaraði engu um hvaða lánskjaravísitölu átt er við í frv. Stjórnarflokkarnir hafa opinberlega boðað tvær lánskjaravísitölur á næsta ári. Ég innti hæstv. fjmrh. eftir því hvort rétt sé að hann hafi boðið lífeyrissjóðunum viðskipti um spariskírteini með óbreyttri lánskjaravísitölu þannig að ríkisstjórnin verði með þrjár lánskjaravísitölur í gildi á næsta ári. Um þetta var spurt og við því fengust engin svör.
    Það er ástæðulaust á þessu stigi að fara frekari orðum um frv. Ástæða væri þó til að ræða t.a.m. með ítarlegri hætti ýmsar greinar og efnisatriði eins og fráhvarfið frá frádrætti á framlögum til menningarmála. Var það atriði kynnt og rætt í

þingflokkum stjórnarinnar? Er það svo að þeir hafi samþykkt þetta? Auðvitað þarf að fá skýr svör við þessu. En í hv. fjh.- og viðskn. verður auðvitað unnið ítarlega að málinu svo að svo stöddu ætla ég ekki að hafa um það fleiri orð.