Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Af því að ég spurði hæstv. fjmrh. svo einfaldrar spurningar að mér fannst það svona hálffúlt að fá ekki svar: Ef einhver frænka hans arfleiddi hann að sjoppu upp á 12 millj., hvað tæki langan tíma fyrir ríkissjóð að hirða sjoppuna af honum? Og eins með íbúð upp á 12 millj., hvað tekur það langan tíma að hirða hana af honum sjálfum í þessu dæmi? Finnst honum það standast eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að gera eigur upptækar með þessum hætti? Og ég vil fá rökstutt svar við því ef honum finnst það í lagi.
    Ég hef áður spurt í sambandi við gengisskráninguna. Ég vildi gjarnan að hæstv. viðskrh. svaraði því hvaða forsendur hann hefur fyrir því að geta skráð gengi krónunnar eins og gert er í dag og haft eigið fé af fyrirtækjum í útflutningsframleiðslu með þeim hætti sem gert er. Getur ríkisstjórn ákveðið að skrá gengi krónunnar bara einhvern veginn af því að henni sýnist svo þvert ofan í lög og gert eigur fyrirtækja upptækar? Vill hann gjöra svo vel og rökstyðja þetta fyrir mig? Hvað á þessi eignaupptaka að ganga langt? Það þýðir ekkert að segja að fyrirtækin skuldi erlendan gjaldeyri og að ekki megi fella gengið þess vegna, vegna þess að ef þau skulda 1000 dollara og framleiða fyrir 1000 dollara er það óbreytt staða eftir gengisfellingu, en allir innlendir kostnaðarliðir lækka í erlendum gjaldeyri mælt. Hvað á að ganga langt í að ræna þessi fyrirtæki eigum sínum? Ég vil fá svör við þessum spurningum.