Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, en það er alveg rétt, ég gleymdi að svara þessu með frænkuna. Því miður bý ég ekki svo vel að eiga að slíka ágæta frænku sem væri eigandi að arðvænlegri sjoppu, ( MÁM: Það getur alltaf komið fyrir.) en eins og fyrrv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen greip hér fram í, þá getur það alltaf komið fyrir og enginn veit nú ættmenn sína alla þannig að erfitt er að átta sig á þessu. Hitt get ég fullyrt að yrði ég svo heppinn að erfa þessa sjoppu yrði hún örugglega rekin með svo miklum hagnaði að ég gæti með glöðu geði greitt af henni skatta, bæði af sjoppunni sjálfri og þessu einbýlishúsi sem hv. þm. tók hér sem dæmi. ( KrP: Það er ekki svar við spurningunni. Þetta er bara útúrsnúningur.)