Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna ræðu hæstv. viðskrh. Hún var athyglisverð og langt fyrir neðan virðingu hans sem hagfræðings og ekki bara sem hagfræðings heldur manns sem er ekki bara hæstv. viðskrh. heldur líka forstjóri Þjóðhagsstofnunar og heldur því embætti og ber hér saman vísitölutengdar tölur á tveimur ólíkum vísitölutímabilum. Lægra er nú ekki hægt að leggjast í villandi samanburði.
    Ef persónuafslátturinn gilti eins og við lögðum til væri hann tæpar 19 þús. kr. í dag en er rúmar 17.600 kr. samkvæmt tillögum Alþfl. núna. Staðreyndir málsins eru þær að Sjálfstfl. lagði til lækkun á matarskatti, hækkun á tekjuskatti á móti og óbreyttan persónuafslátt. Hann átti að halda áfram óbreyttur og vera tengdur lánaskjaravísitölu. Nú hefur Alþfl. ekki einasta fallist á að hækka tekjuskattinn, heldur líka að lækka persónuafsláttinn með því að tengja hann svokallaðri skattvísitölu sem ríkisstjórnin ákveður einhliða en hverfa frá lánskjaravísitölutengingunni. Það er þetta sem hefur gerst og niðurlæging Alþfl. í þessu efni stendur því enn og henni verður ekki breytt nema Alþfl. breyti um afstöðu og hverfi frá stuðningi við þetta frv.