Lánstraust Íslands erlendis
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan, enda virðist mér eins og fyrirspyrjandi sé að gera úlfalda úr mýflugu. Ég held að menn ættu hvorki að leggja of þröngan skilning í ívitnuð ummæli forsrh. um að Íslendingar stæðu nú nær þjóðargjaldþroti en nokkru sinni fyrr né slíta þau úr sínu samhengi eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. kom inn á áðan. Með þessari yfirlýsingu var forsrh. án efa fyrst og fremst að vekja athygli þjóðarinnar á því alvarlega efnahagsástandi sem hér hefur verið að myndast undanfarna mánuði og er eins og við vitum öll sýnu verra en menn ætluðu fyrr í haust. Það liggur ljóst fyrir að Íslendingar eru víðs fjarri þjóðargjaldþroti samkvæmt nákvæmri hagfræðilegri merkingu þess hugtaks, en það má vel nota þetta orð í pólitískri umræðu um annað, t.d. yfirvofandi fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Að halda öðru fram er ekki sérstaklega virðingarverður málflutningur.
    Ég efast ekkert um að forsrh. notaði orðið einmitt í þessari seinni merkingu og ég á ekki von á því að hv. 17. þm. Reykv. fylgist ekki svo vel með að hann viti að það horfir því miður illa fyrir mörgum fyrirtækjum í mikilvægum atvinnugreinum. Ég er sannfærður um að yfirlýsing forsrh. hafði ekki skaðleg áhrif á lánstraust Íslendinga erlendis. Það er bæði mikið og gott, enda höfum við ævinlega staðið í skilum með okkar skuldbindingar á greiðslum á afborgunum og vöxtum þrátt fyrir allmiklar erlendar skuldir. Það er þessi reynsla erlendra lánastofnana af viðskiptum við okkur sem er undirstaða lánstrausts þjóðarinnar í útlöndum og varnaðarorð forsrh. til þjóðarinnar breyta þar engu.
    Þetta kom líka glöggt fram í viðtölum sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til og birtust í Morgunblaðinu 27. nóv. við ýmsa erlenda bankamenn sem eiga mikil skipti við þetta land. Þeir eru allir á einu máli um að Íslendingar njóti góðs lánstrausts á erlendum lánamarkaði, enda hafi þeir sýnt að þeir séu trausts verðir. Yfirlýsing forsrh. sé augljóslega ætluð sem varnaðarorð fyrir Íslendinga og þannig til þess fallin að þeir leysi sín vandamál, og það muni að sínu leyti styrkja okkar stöðu út á við fyrir ábyrgðarfulla stjórn á okkar efnahagsmálum.