Lánstraust Íslands erlendis
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þetta eru æðiathyglisverðar umræður þó þær séu ekki langar. Hæstv. viðskrh. svaraði skýrt og skorinort í sinni fyrri ræðu með einu orði, en núna fer hann að rökstyðja mál sitt og rökin eru þau að án efa hafi hæstv. forsrh. átt við eitthvað allt annað en hann sagði. Hæstv. viðskrh. skýrir það svo að hann hafi átt við að það væru einhverjir erfiðleikar hjá einhverjum ákveðnum fyrirtækjum o.s.frv., þetta hafi sem sagt bara verið bull, og viðskrh. er ósammála þessari yfirlýsingu. Spurningunni Er viðskrh. samþykkur þessari yfirlýsingu? svaraði hann afdráttarlaust neitandi. Viðskrh. í ríkisstjórn afneitar forsrh. sínum. Þetta er enn eitt dæmið um þá upplausn sem ríkir í stjórnarherbúðunum.