Söluskattur af námsbókum
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Í frétt í Helgarblaði Þjóðviljans 9. sept. sl. undir yfirskriftinni ,,Miðinn í menntó á 30 þúsund`` komu m.a. fram tölur um það hve gífurlegar fjárhæðir nemendur á framhaldsskólastigi þurfa að greiða fyrir námsbækurnar. Í upphafi fréttarinnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hugsaðu þér bara þá staðreynd að ég er á síðasta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð og ég þarf að borga rúmlega 16 þús. kr. fyrir námsbækurnar fyrir aðeins eina önn. Þetta er hrikalegt dæmi fyrir utan allan annan kostnað. Það er liðin tíð, ef hún hefur þá einhvern tíma verið, að skólinn sé einhver vin í eyðimörkinni. Kaldar staðreyndir efnahagslífsins blasa við okkur hvar sem er og þróunin virðist öll vera í þá átt að við erum látin borga allar hækkanir sem verða á verði námsbóka. Jafnrétti til náms óháð fjárhag og búsetu eru bara orðin tóm. Veruleikinn er því miður allt annar.``
    Þetta sagði einn af nemendum Menntaskólans við Hamrahlíð sem væntanlega lýkur prófum núna um jólin. Þetta er sá veruleiki sem blasir við nemendum framhaldsskólastigsins.
    Sl. vetur sýndi hver könnunin af annarri að nemendur á þessu skólastigi vinna gífurlega mikið samhliða námi og fluttu þá þingmenn allra flokka fyrir forgöngu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur þáltill. sem samþykkt var sl. vor um að gerð yrði könnun á því hve mikið nemendur vinna og hverjar séu helstu orsakir þess.
    Eins og menn vita á það að heita svo að stjórnvöld sjái grunnskólum fyrir kennslubókum í gegnum Námsgagnastofnun. Sú stofnun hefur búið við mikið fjársvelti um áraraðir og á því mjög erfitt með að sinna því hlutverki sem henni er ætlað. Það gerist æ algengara að grunnskólanemendur þurfi að kaupa bækur og heyrt hef ég að nemendur í efstu bekkjum grunnskólans kaupi bækur fyrir allt að því 10 þús. kr. Söluskattur er stór liður í þessum bókakostnaði og því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. á þskj. 80:
,,1. Hverju námu söluskattstekjur af námsbókum árið 1987?
    2. Hverju nema áætlaðar söluskattstekjur af námsbókum árið 1988?``