Söluskattur af námsbókum
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans. Ég sé raunar strax að hér eru peningar sem gætu einmitt nýst til t.d. námsefnisgerðar eða til þess að nemendur fengju einhvern afslátt af þessum bókum.
    Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Svavarssonar kennslubókaritstjóra hjá Máli og menningu kemur fram að neysluskattur á kennslubækur hér sé trúlega einsdæmi. Samkvæmt upplýsingum hans nemur söluskatturinn í ár af þeim kennslubókum sem Mál og menning gefur út um 16 millj. kr., en forlagið gefur aðallega út bækur fyrir framhaldsskólastigið. Á Norðurlöndunum og í fleiri nágrannalöndum eru kennslubækur á framhaldsskólastiginu lánaðar nemendum á sama hátt og hér tíðkast í grunnskólanum. Það er samdóma álit flestra skólamanna að nám að loknum grunnskóla sé í raun orðin nauðsyn í þjóðfélagi okkar og því er það auðvitað spurning hvort ekki þurfi að koma til móts við nemendur á þessu skólastigi, ekki síst með það í huga að reyna að tryggja jafnrétti til náms.
    Þær fjárhæðir sem Námsgagnastofnun greiðir til ríkissjóðs í formi söluskatts mundu örugglega nýtast vel til námsgagnagerðar, en eins og ég kom að áðan hefur sú stofnun verið mjög svelt undanfarin ár. Ef það á að gera skólum landsins mögulegt að framkvæma grunnskólalögin í framtíðinni er nauðsynlegt að standa vel við bakið á Námsgagnastofnun, miklu betur en hingað til hefur verið gert, en jafnframt þarf að mínu mati að tryggja að einnig sé hægt að bjóða upp á námsefni við hæfi á framhaldsskólastiginu, en kennslubókaútgáfa á framhaldsskólastiginu er ekki styrkt að einu eða neinu leyti. Eins og aðstæður eru nú leggja kennarar mjög mikla vinnu í námsgagnagerð samhliða kennslunni. Ég tel nauðsynlegt að styðja við bakið á þeim jafnframt því sem leitað verði leiða til að minnka kostnað nemenda vegna námsbóka.