Stjórnsýslulöggjöf
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það er mjög mikilvægt að setja stjórnsýslulög og reyndar mjög mikilvægt að skoða fjölmörg ákvæði um Stjórnarráð Íslands. Þess vegna skipaði ég í ríkisstjórninni 1983--1987 nefnd til að skoða öll þau mál. Sú nefnd vann mikið starf og á 109. löggjafarþingi 1986--1987 lagði ég fram frv. til stjórnsýslulaga. Samhliða frv. var lagt fram frv. um umboðsmann Alþingis og það varð að lögum 9. mars 1986. Frv. til stjórnsýslulaga var vísað til nefndar eftir litlar umræður, en kom ekki frá nefndinni og náði því að sjálfsögðu ekki afgreiðslu.
    Einnig var samið frv. um Stjórnarráð Íslands sem var til meðferðar hjá þeirri ríkisstjórn sem þá sat. Ekki náðist samstaða um að leggja frv. fram, því miður. Ég hef nú dregið bæði þessi frv. fram, bæði frv. til stjórnsýslulaga og einnig frv. um Stjórnarráð Íslands, og afhent þeim flokkum sem standa að núverandi ríkisstjórn með ósk um að þeir yfirfari þau þannig að leggja megi þessi frumvörp bæði fram fljótlega á þingi eftir áramót.