Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkru barst hingað til lands hefðbundin skýrsla frá Efnahags- og framfarastofnuninni í París um ástand efnahagsmála á Íslandi. Skýrslur sem þessar eru reglulegur þáttur í samstarfi Íslands og þessarar stofnunar, en Íslendingar hafa verið aðilar að henni um áratuga skeið og hefur ekki verið að því samstarfi fundið.
    Nú ber svo við að þegar þessi skýrsla berst er henni vægast sagt illa tekið af efnahagsráðherra Íslands og hreytti hann alls kyns ónotum í þá sem að henni standa með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að gera athugasemd við.
    Það vakti reyndar athygli í umræðum um skattamál í gær að hæstv. fjmrh. studdist við gögn frá OECD og leitaði fulltingis hjá þeim aðilum um stuðning við ákveðin atriði í sambandi við skattamál þannig að sá aðili í ríkisstjórninni, hæstv. fjmrh., telur sig alla vega geta stuðst við ábendingar þeirrar stofnunar þegar svo ber undir þó að hæstv. forsrh. hafi fundið þessari skýrslu frá sömu aðilum allt til foráttu. Af þessu tilefni hef ég leyft mér að beina til viðskrh. þremur spurningum, en það er rétt að það komi fram að það er viðskrh. sem fer með hina stjórnskipulegu aðild Íslands að þessum samtökum og ber ábyrgð á samskiptum Íslendinga við þessa stofnun yfir höfuð. Spurningarnar eru þessar, virðulegi forseti:
,,1. Með hvaða hætti hyggst viðskrh. bregðast við þeirri yfirlýsingu forsrh. að skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi sé ,,þýðingar á tillögum og skýrslum sem eru ritaðar í kerfinu hér heima af mönnum sem fylgja allt annarri stefnu á þessu sviði en ríkisstjórnin``, sbr. dagblaðið Tíminn 17. nóv. sl.?
    2. Ætlar viðskrh. að láta rannsaka hvort tilvitnuð ummæli og þær aðdróttanir sem í þeim felast eiga við rök að styðjast?
    3. Telur viðskrh. eðlilegt að Ísland kosti áfram fjármunum til aðildar að alþjóðlegri stofnun sem forsrh. telur seka um svo ámælisverð vinnubrögð?``
    Ég held að það sé kannski ástæðulaust að skýra þessar spurningar eitthvað frekar, virðulegi forseti. Í þeim felst það að aðdróttanir forsrh. eru svo alvarlegar að mínum dómi að ég held að það verði að fá upplýst hjá þeim ráðherra sem ber ábyrgð á samskiptum okkar við þessa stofnun hvernig hann hyggst bregðast við. Í þeim felast ómaklegar aðdróttanir eins og ég hef sagt. Ég tel, ef ráðherrann telur að þannig sé unnið hjá þessari stofnun, að það sé þá athugunarefni hvort kosta eigi fjármunum til slíkrar stofnunar. Það hlýtur að vera athugunarefni fyrir þá sem þessu halda fram. Ég tek það fram fyrir sjálfan mig að ég er algerlega ósammála þessu. Ég tel að þarna sé mjög faglega unnið að öllu leyti, hef ekki orðið var við annað og tel að það eigi að halda þar áfram og ég vona að það sé líka niðurstaða viðskrh.