Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Frú forseti. Hv. 17. þm. Reykv. spyr í fyrsta lagi hvernig ég hyggist bregðast við þeirri yfirlýsingu forsrh. að nýútkomin skýrsla OECD um efnnahagsástandið á Íslandi sé þýðingar á tillögum og skýrslum sem ritaðar eru í kerfinu hér heima af mönnum sem fylgja allt annarri stefnu á þessu sviði en ríkisstjórnin. Þessu er fljótsvarað. Mín viðbrögð við þessum ummælum eru þegar komin fram. Ég tók strax fram, m.a. í svörum við spurningum fjölmiðla, að ég væri ekki sammála forsrh. um mat hans á vinnubrögðum sérfræðinga OECD og gildi skýrslna þeirra um íslensk efnahagsmál. Ég tel að skýrslur OECD séu gagnlegt innlegg í umræðu um ástand og horfur í íslenskum efnahagsmálum þótt auðvitað segi þær ekki síðasta orðið um þau mál.
    Í öðru lagi spyr þingmaðurinn hvort ég ætli að láta rannsaka hvort tilvitnuð ummæli og aðdróttanir sem í þeim kunni að felast eigi við rök að styðjast. Svarið er nei, enda tel ég enga þörf á slíkri rannsókn. Ég ætla ekki að vera hér með neinar ágiskanir um hvað forsrh. gekk til með ummælunum um nýjustu skýrslu OECD um Ísland. Það orð hefur stundum áður komist á kreik að þessar skýrslur, sem koma að jafnaði út á eins til tveggja ára fresti, byggist á þýðingum úr íslenskum hagskýrslum eða endursögn íslenskra skoðana. Þessi orðrómur lýsir að mínu áliti ókunnugleika og vanmati á OECD. Við undirbúning skýrslu af þessu tagi eiga sérfræðingar stofnunarinnar auðvitað mikil samskipti og samtöl við ýmsa aðila hér á landi varðandi upplýsingaöflun. Ég nefni auk ráðuneytanna eingöngu Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka, Hafrannsóknastofnun, en reyndar eiga sendimenn OECD oft viðræður við fleiri aðila. Jafnframt gefst íslenskum aðilum færi á að lesa drög að skýrslunni áður en hún er gefin út og koma á framfæri athugasemdum. Það breytir hins vegar engu um að skýrslan er samin af sérfræðingum OECD og lýsir fyrst og fremst mati þeirra og skoðunum. Um álit þeirra er síðan fjallað í sérstakri nefnd þar sem fulltrúar aðildarríkjanna láta sína skoðun í ljós áður en skýrslan er birt.
    Loks spyr hv. 17. þm. Reykv. hvort ég telji eðlilegt að Ísland kosti áfram fjármunum til aðildar að alþjóðlegri stofnun eins og OECD. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að Íslendingar haldi áfram aðild sinni að þessari stofnun og ég þarf varla að hafa langt mál um þá skoðun mína. Ég tel reyndar að Efnahags- og framfarastofnunin sé ein mikilvægasta alþjóðastofnunin sem Íslendngar eiga aðild að. Hún miðlar miklum og góðum upplýsingum um þróun alþjóðaefnahagsmála og á vettvangi hennar fara fram mikilvægar umræður um efnahagsleg samskipti milli þjóða. Íslendingar hafa frá upphafi tekið þátt í þessum umræðum og m.a. hefur sá vettvangur orðið gagnlegur fyrir þá til að leggja áherslu á fríverslun og að dregið verði úr hömlum í milliríkjaviðskiptum t.d. fyrir fisk og fiskafurðir.
    Íslendingar sækja reglulega ýmsa fundi nefnda á vegum OECD. Þar vil ég nefna auk nefnda um efnahagsmál nefndir um fiskimál, tækni, vísindi,

menntamál, skólarannsóknir, vegarannsóknir og vátryggingar. Viðskrn. miðlar margháttuðum gögnum frá OECD um þróun í ýmsum málaflokkum sem snerta aðildarríkin sem of langt yrði hér upp að telja. Af ritum OECD sem snerta Ísland sérstaklega get ég nefnt auk skýrslna um efnahagsmál skýrslu um íslenska menntastefnu sem kom út á árinu 1986 og vakti hér mikla athygli og gagnlegar umræður. Áður hafa m.a. komið út skýrslur um vísindi og rannsóknir og nú er í athugun hvort stofnunin semji sérstaka skýrslu um íslenskan landbúnað og þróun og horfur í þeim mikilvæga atvinnuvegi.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja að þess verður áreiðanlega langt að bíða að skýrslur birtist um mikilvæg íslensk mál, sem erlendir aðilar semja, sem allir geta fellt sig við. En mér finnst ekki hyggilegt að gera lítið úr slíkum skýrslum, sérstaklega þegar haft er í huga að erlendir aðilar, sem ekki eiga hér hagsmuna að gæta, eru stundum í betri stöðu til að benda á það sem aflaga kann að fara, og betur en við heimamenn sem stöndum nálægt rás viðburðanna, því glöggt er gests augað.