Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja afar fróðlegt að taka skýrslu OECD til umræðu. Ég hef kynnt mér hana betur en ég hafði gert áður og ég hef sannfærst um að hún lýsir á engan máta ástandi íslenskra efnahagsmála, langt frá því, t.d. alls ekki því ástandi sem hv. sjálfstæðismenn lýstu í Ed. í gær og var að mörgu leyti rétt. Ég tel að það hefði verið miklu þarfara fyrir þá sem skrifuðu skýrsluna að hlusta á þær umræður en skrifa þá skýrslu sem hér liggur fyrir og gefur ekki rétta mynd, langt frá því. Ég hef einnig kynnt mér sumt af því sem OECD hefur fengið í hendurnar til undirbúnings þessari skýrslu og ég tel að því miður gefi það heldur ekki rétta mynd.
    Ég vil hins vegar taka fram að ég þekki þessa stofnun að mörgu mjög góðu. Ég starfaði með þessari stofnun lengi, t.d. á sviði vísinda. Þar var mjög merkileg starfsemi rekin og afar margt gott sem þaðan kom. Þessi stofnun hefur líka tekið sér fyrir hendur að endurskoða eða gera tillögur, eftir mjög ítarlega yfirferð, margra vikna yfirferð á ýmsum mikilvægum málum í meðlimaríkjunum eins og t.d. menntamálum og skrifaði afar fróðlega skýrslu um menntamálin sem svo sannarlega er umhugsunarverð fyrir okkur.
    En því miður verð ég að endurtaka að ég tel að þessi skýrsla stofnunarinnar um íslensk efnahagsmál sé afar lítils virði.