Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins vekja á því athygli að á þessum fagra morgni á jólaföstunni hefur hæstv. viðskrh. afneitað forsrh. sínum tvisvar. Það mundi í öðrum lýðræðisríkjum þýða að annar hvor ætti að víkja úr stjórn nema báðir væru.
    Í síðara skiptið hefur að vísu hæstv. forsrh. tekið dálítið hressilega á móti, tekið dálítið hressilega í hæstv. viðskrh., og það er vel því að í þessu efni er ég innilega sammála hæstv. forsrh. og ósammála hæstv. viðskrh. eins og mjög oft áður þegar rætt er um hin mikilvægustu efnahags- og fjármál þjóðarinnar. Þessi afneitun hæstv. viðskrh. er ekki í neinum smámálum. Hún er í meginmálum þeim sem öll íslenska þjóðin glímir nú við og þess vegna hlýtur þetta að draga einhvern dilk á eftir sér. Hæstv. forsrh. hefur svarað fullum hálsi, en það nægir ekki. Auðvitað á viðskrh. að víkja.