Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. kvartaði eins og áður yfir því að skattar hér á landi væru of lágt hlutfall af þjóðartekjum og ræddi eins og áður um nauðsyn þess að hækka skatthlutfallið. Ég get í mestri vinsemd bent hæstv. fjmrh. á að stefna hans og forsrh. leiðir auðvitað til þess að hlutfallið hækkar. Annars vegar er lagt fram á þinginu eitt frv. á dag um hækkun skatta. Hins vegar er stefnt vísvitandi að atvinnuleysi og grafið undan útflutningsframleiðslunni í landinu. Þetta hvort tveggja hefur náttúrlega það að segja að annars vegar dragast þjóðartekjurnar saman. Það hækkar skatthlutfallið. Hins vegar verða skattarnir hækkaðir. Það hækkar líka skatthlutfallið. Ég sé því ekki annað en ríkisstjórnin geti bráðum orðið mjög ánægð. Skatthlutfallið verður bráðum hið hæsta í heimi og þá geta þessir ráðherrar heldur betur sofnað rólegir og værir yfir því að nú væri þetta orðið fyrirmyndarþjóðfélagið sem allir vildu búa í, sæluþjóðfélagið.