Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Eggert Haukdal:
    Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fsp. og bregða ljósi á hvernig þetta mál hefur gengið og ég þakka hæstv. samgrh. einnig fyrir svörin.
    Fyrir ári voru mál Herjólfs á réttu róli og nýtt skip hefði komið 1990 ef síðustu lánsfjárlög hefðu gengið fram óbreytt varðandi Herjólf eins og þau voru þá lögð fram af þáv. ríkisstjórn. En tveir þáv. stjórnarsinnar í fjh.- og viðskn. Nd. beittu sér fyrir að spilla málinu með því að bera fram brtt. í Nd. sem var samþykkt. Upphaflega var tillagan um 100 millj. til hönnunar og smíði Herjólfs, en það var bætt við ,,að fengnu samþykki fjmrh., samgrh. og fjvn. Alþingis til hönnunar og smíði ferju.``
    Síðan hefur málið verið tafið. Stjórn Herjólfs var falið að leita að gömlu skipi eins og hér hefur verið lýst, en leit að því með hagkvæmni í huga reyndist árangurslaus. Þó þetta lægi fyrir hefur útboði á nýju skipi verið frestað. Meira en heilt ár hefur farið til einskis. Á þessum tíma hafa skip hækkað erlendis um 25%. Ef nú væri hafist handa kæmi nýtt skip ekki fyrr en 1991--1992.
    Hæstv. núv. samgrh. hefur ekki tafið þetta mál. Hann tók við samþykktum brtt. frá síðasta þingi. En ég treysti honum til að taka nú ákvörðun, heimila að nýtt skip verði hannað og smíðað nú þegar þannig að tafir allar séu að baki og nýtt skip geti komið sem allra fyrst.