Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Heimild til að gera samning um Vestmannaeyjaferju felst í lánsfjárlögum í ár, en af einhverjum ástæðum stóð á hæstv. núv. utanrrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni að greiða fyrir málinu með þeim afleiðingum að það hefur dregist. Verður sett ný heimild inn um ferjuna á næsta ári og vil ég vænta þess að hæstv. fjmrh. verði liprari í málinu vegna þess að nauðsyn er brýn. Þessi ferja er orðin gömul og úrelt og beinlínis háskaleg þannig að það er brýn nauðsyn að hraða sem mest smíði nýrrar ferju beinlínis af öryggisástæðum.