Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður tók eiginlega af mér ómakið. Ég vildi eingöngu undirstrika, eins og ég hélt að hefði komið fram í svari mínu og skilist, að meðferð málsins á þessu ári er bein afleiðing af afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið þar sem það er sérstaklega tekið fram að þessir þrír aðilar skuli endurmeta málið og leggja á það mat hvort viðkomandi heimild til lántöku og að hefja nýsmíði ferjunnar skuli nýtt.
    Ég er í sjálfu sér ekki sammála því að málinu hafi verið spillt sérstaklega með þessu. Að vísu hefur þetta tekið tíma, en ég tel það mikilvægt að nú liggja fyrir mjög greinargóðar upplýsingar um það eftir ítarlega úttekt og könnun sérfróðra aðila, þriggja mismunandi aðila, bæði innlendra og erlendra ráðgjafarfyrirtækja á þessu sviði, að ekki er um hentugt notað skip að ræða á markaðnum og að það sem helst kæmi til greina mundi verða dýr kostur og mjög hæpin fjárfesting miðað við afskriftartíma skipsins og miðað við nauðsyn þess að á þessari erfiðu leið sé fyllsta öryggis gætt og það skip sem þarna er rekið mæti öllum kröfum, bæði öryggiskröfum og rekstrarkröfum sem við eigum að setja okkur í þessum efnum. Ég tel að það hafi fengist greinargóð efnisleg niðurstaða í málið eftir þá meðferð sem það hefur af eðlilegum ástæðum í framhaldi af afgreiðslu lánsfjárlaga á síðasta ári verið í yfirstandandi ár og nú sé mönnum ekkert að vanbúnaði að hefja undirbúning að lokaákvörðunum í þessu máli.