Lækkun vaxta á spariskírteinum
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegur forseti. Vextir eru að sjálfsögðu afar mikilvægt fyrirbæri í okkar þjóðfélagi, ekki síst vextir af þeim skuldabréfum sem ríkissjóður gefur sjálfur út. En þannig vill til, ef það skyldi ekki vera fjmrh. ljóst, að það er auðvitað samhengi milli þess sem ríkissjóður gerir á skuldabréfamarkaðnum annars vegar og svo þess sem ríkissjóður ætlast til af borgurunum hins vegar að því er snýr að vöxtum og ávöxtun eigna.
    Þannig vill til, eins og ég vakti athygli á í gærkvöld, að nú hefur ríkisstjórnin gert slíka himinháa ávöxtunarkröfu til eigenda húsnæðis í landinu að það er með hreinustu ólíkindum eins og ég benti á og gengur þvert gegn þeirri yfirlýstu stefnu að lækka vexti af spariskírteinum og öðrum skuldbindingum í landinu. Ég held að fjmrh. verði að gjöra svo vel að huga að þessu samhengi.
    Það er alveg ljóst að með þeim skattahækkunarhugmyndum á eignir sem nú eru uppi með ríkisstjórninni er verið að hækka svokallaða ávöxtunarkröfu af þeim eignum mikið frá því sem verið hefur og þar með að gera þá kröfu að fólk greiði sjálfu sér húsaleigu eða hafi tekjur af eignum sínum í vaxtaformi miklu hærri fjárhæðir en verið hefur og hærri prósentur en verið hefur. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstu markmiði stjórnarinnar.