Skipasmíðaiðnaðurinn
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 2. þm. Norðurl. e., spyr hvort ríkisstjórnin telji nauðsynlegt að bæta rekstrarstöðu skipasmíðaiðnaðarins og treysta samkeppnisstöðu hans. Svarið er já, hún telur það.
    Eins og kunnugt er hafa íslenskar skipasmíðastöðvar átt við vaxandi erfiðleika að etja, einkum hvað varðar nýsmíði og stærri viðhaldsverkefni vegna þess að þessi verkefni hafa viljað fara til erlendra skipasmíðastöðva í auknum mæli. Margar þessara erlendu stöðva búa við ríkisstyrki eða lægri kostnað en íslensku stöðvarnar. Ríkisstjórnin telur vissulega nauðsynlegt að bæta stöðu íslensku skipasmíðafyrirtækjanna en jafnframt er auðvitað ljóst að ríkissjóður getur alls ekki staðið undir styrkjakerfi af því tagi sem tíðkast í sumum nágrannalöndum okkar. Meginatriðið er auðvitað að stuðla að aukinni hagræðingu og framleiðni í íslensku stöðvunum. Í því skyni hefur verið fengið breskt ráðgjafarfyrirtæki í samvinnu við samtök skipasmíðastöðvanna. Fyrirtækið sem heitir A & P Appledore hefur gert úttekt á samkeppnisstöðu íslensku stöðvanna. Það liggja núna fyrir frumdrög að skýrslu þessa fyrirtækis og að undanförnu hefur hún verið til umsagnar hjá ýmsum aðilum og athugunar og endanleg skýrsla mun liggja fyrir innan fárra vikna. Á grundvelli hennar og í samráði við samtök greinarinnar verður unnið að stefnumótun í málefnum íslensku skipasmíðastöðvanna. Þar kemur m.a. til greina að greiða fyrir samstarfi þeirra og samvinnu um meiri háttar verkefni.
    Eitt af þeim atriðum sem hafa verið til athugunar og hv. fyrirspyrjandi kom inn á í fsp. og í sínu máli er aðstaða íslensku stöðvanna til að bjóða að láni hluta af andvirði meiri háttar viðhaldsverkefna á skipum. Nú er til athugunar í viðskrn. og iðnrn. hvernig heppilegast sé að beita erlendu lánsfé og heimildum til erlendrar lántöku í þessu skyni. Ég er þess fullviss að á þessu finnst viðunandi lausn innan skamms og ég mun fyrir mitt leyti leitast við að tryggja að aðgangur að lánsfé verði jafngreiður fyrir sambærileg verkefni hér á landi og þar sem þau eru unnin erlendis. Hvort sem það verður nú fyrir milligöngu Byggðasjóðs eða annarra lánastofnana er það alveg ljóst að allt að 80% lánsheimild verður veitt fyrir sambærileg verkefni hér á landi og erlendis. En auðvitað er frumskilyrðið fyrir góðri rekstrarstöðu skipasmíðanna að sjávarútvegurinn gangi vel. Það er forgangsverkefnið.