Forseti (Salome Þorkelsdóttir):
    Forseti hefði e.t.v. getað komið í veg fyrir þessa athugasemd um þingsköp ef hann hefði athugað að undirbúa hv. 2. þm. Norðurl. e. undir það sem fyrirhugað var varðandi breytingu á dagskrá. Það var samkomulag á milli forsetanna að varaforseti sæti kyrr á meðan hv. 13. þm. Reykv. fengi að mæla fyrir sinni fsp. sem er að vísu 21. dagskrármálið. Þetta var vinnuhagræðing á milli forseta og varaforseta. En ef hv. 2. þm. Norðurl. e. leggur ríka áherslu á að fá nú þegar að mæla fyrir sinni fsp. verður að sjálfsögðu orðið við því. Að öðru leyti hefði forseti óskað eftir að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefði ofurlitla biðlund og leyfði forsetum að hafa uppi þessa vinnuhagræðingu.