Greiðslukortaviðskipti
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrirspyrjandi, hv. 13. þm. Reykv., spyr í fyrsta lagi hvort mér sé kunnugt um að viðskiptabankarnir hafi keypt greiðslunótur af kaupmönnum með talsverðum afföllum, allt að 30%. Ég get svarað því þannig að mér er auðvitað ljóst að affallaviðskipti með kreditkortanótur hafa tíðkast nú um nokkurt skeið. Viðskiptabankarnir sem stunda þessi viðskipti hafa gert og gera misjafnlega háar ávöxtunarkröfur í þessum viðskiptum. Þær eru ekki jafnháar hjá bönkunum, held ég, eins og sumum verðbréfafyrirtækjunum. Ég ætla að taka hér sem dæmi ávöxtunarkröfu banka í eigu ríkisins, Búnaðarbankans. Hann mun nú krefjast 27--28% ársávöxtunar í þessum viðskiptum. Það skal tekið fram að sumir bankanna kaupa alls ekki slíkar nótur, t.d. ekki Landsbanki Íslands.
    Til viðbótar við vextina reikna bankarnir sér viðskiptagjald, yfirleitt 1% af fjárhæðinni, og loks draga þeir yfirleitt frá upphæð greiðslunótanna sem þeir kaupa þá prósentu sem greiðslukortafyrirtækið ætlar sér í þóknun, en sú þóknun er yfirleitt á bilinu 1--3% af fjárhæðinni eftir því hvaða fyrirtæki á í hlut. Í þessum tölum hef ég miðað við þau kjör sem Búnaðarbankinn býður. Afföllin eru síðan reiknauð út frá þeim tölum sem ég hef nefnt og því, sem auðvitað er mikilvægast, hversu langt er til gjalddaga eða eindaga greiðslukortsnótunnar.
    Afföllin sem fyrirspyrjandi nefnir krefjast sérstakra skýringa, en ég ætla að taka hérna dæmi af viðskiptum kaupmanns við Búnaðarbankann. Ef við tækjum dæmi af nótu sem yrði gerð upp við greiðslukortafyrirtæki eftir 30 daga næmi sú greiðsla sem Búnaðarbankinn héldi eftir af greiðslukortsfjárhæðinni 5,97%. Af þessum afföllum, ef við notum það orð til þess að lýsa þessu fyrirbæri, færu 2,97% til bankans, en 3% til greiðslukortafyrirtækisins sem í hlut á. Þetta lýsir ekki öllu málinu, en þetta segir hvernig þetta gengur fyrir sig.
    Það hafa heyrst raddir um það og fyrirspyrjandi er einn þeirra sem hreyfa því að koma ætti í veg fyrir viðskipti með greiðslukortanótur á þennan hátt. Ég bendi hins vegar á að það er löng reynsla fyrir því að það dugar skammt að banna slík viðskipti með lögum. Þau munu ávallt tíðkast þegar eftirspurn eftir fjármagni er meiri en framboðið og væntanlega sjá kaupmennirnir sem selja nóturnar sér í flestum tilvikum einhvern hag í því að selja þær, en það er ekki útilokað að það geti í einstökum tilfellum verið um að ræða vítaverða misneytingu á aðstöðu af hálfu þeirra sem kaupa nóturnar með afarkjörum. Um það er ekki hægt að segja neitt almennt.
    Nú hefur hins vegar ríkisstjórnin, eins og kunnugt er og reyndar var rætt fyrr á þessum fundi, ákveðið að breyta eindaga söluskattsins frá næstu áramótum til annars dags hvers mánaðar eða næsta virka dags þar á eftir í staðinn fyrir 21. f.m. Það er enginn vafi á því í mínum huga að hjá mörgum kaupmönnum voru það einmitt söluskattsskilin fyrir lok hvers mánaðar

sem knúðu þá til að selja kreditkortanóturnar með afföllum. Þetta þrýsti auðvitað vöxtunum upp og er undirrót þess vanda sem hv. fyrirspyrjandi hreyfir hér. Með því að koma á samræmi milli dagsetninga á gjalddaga söluskatts og uppgjörs á greiðslunótum ætti að létta mjög þrýstingi af þessum affallaviðskiptum.
    Hitt er svo annað mál að sumir seljendur vöru og þjónustu kunna að koma sér að nýju í svona vandræði með því að auglýsa, eins og sumir þeirra gera, að þeir ætli ekki að framvísa greiðslukortanótunum við greiðslukortafyrirtækin fyrr en í næsta mánuði þannig að viðskipti í dag verði ekki borguð fyrr en í febrúarbyrjun í raun og veru frá hálfu neytandans. Þetta gera kaupmennirnir ótilkvaddir í því skyni að auka sína verslun fyrir jólin og að sjálfsögðu munu slíkir viðskiptahættir auka eitthvað viðskiptin hjá þeim sem kaupa greiðslukortanótur af kaupmönnum með afföllum, en auðvitað verða kaupmennirnir sjálfir að meta þetta. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti gert þarna ráðstafanir sem laga markaðsskilyrðin og ættu að tryggja sanngjarnari viðskipti en ella væru.
    Hv. fyrirspyrjandi spurði einnig um það hvað liði undirbúningi frv. um greiðslukorta- og afborganaviðskipti. Ég get svarað því þannig að nefnd sem nú starfar á vegum viðskrn. að samningu frv. um greiðslukorta- og afborganaviðskipti mun væntanlega skila áliti sínu í janúarmánuði og ég vona að ég geti þá lagt fram frv. þegar þingið kemur saman að loknu jólafríi.