Bifreiðaskoðun í Hafnarfirði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Fyrir um það bil ári var til umræðu í þinginu frv. til l. um breytingu á umferðarlögum sem varð reyndar að lögum. Gerir það ráð fyrir stofnun Bifreiðaskoðunar Íslands hf., en það fyrirtæki hefur nú þegar verið stofnað og því er ætlað að taka við verkefni sem áður var undir Bifreiðaeftirliti ríkisins, þ.e. skoðun bifreiða. Það fer ekki á milli mála að þessi breyting virðist hafa verið afar illa undirbúin og kannski ótímabær að því leytinu til að færa þetta verkefni strax yfir til þessa nýja fyrirtækis. Svo virðist sem aðstaða og möguleikar þessa nýja fyrirtækis til að taka við þessu verkefni séu ekki fyrir hendi.
    Þegar við þingmenn vorum að fjalla um þetta frv. fyrir um það bil ári reiknuðum við ekki með því að í sjálfu sér yrði um neina breytingu að ræða á þeirri þjónustu sem Bifreiðaeftirlit ríkisins hefur haft með höndum undanfarið. Nú virðist svo vera að það eigi að draga verulega saman þá þjónustu sem áður hefur verið í höndum Bifreiðaeftirlits ríkisins þannig að skoðunarstöðum verði fækkað verulega og því spyrjum við hvort það sé virkilega fyrirhugað að leggja niður skoðun bifreiða í Hafnarfirði. Það þekkja allir sem hafa átt og þurft að umskrá bíla á höfuðborgarsvæðinu að biðin eftir að fá þjónustu hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins í Ártúnshöfða hefur verið ákaflega löng og treg. Það hefur því verið mikill hægðarauki að því fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins að geta farið í Hafnarfjörð og látið umskrá bifreiðar sínar þar sem þjónusta hefur verið með afbrigðum góð og fljótvirk. Því væri það mikill missir fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins ef skoðun bifreiða í Hafnarfirði yrði hætt.