Orkufrekur iðnaður
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Örstutt svar við fsp. hv. 1. þm. Reykv. um fjárlagatillögur vegna markaðsskrifstofunnar. Það er rétt hjá hv. þm. að fjárveiting til hennar, eins og hún birtist undir liðnum markaðsskrifstofa í fjárlagafrv., nægir ekki fyrir heils árs starfsemi miðað við fyrri hugmyndir um umfang starfseminnar. En ég vildi benda á að þessi breyting á fjárlagatillögunni er m.a. á því byggð að eitt mikilvægt verkefni, sem áður var skrifstofunni falið, þjóðhagsleg athugun á mikilvægi stóriðju og sérstaklega álvinnslu, er nú unnið á vegum iðnrn. á annan hátt á vegum þriggja stofnana ríkisins, Þjóðhagsstofnunar, Byggðastofnunar og Orkustofnunar og fer yfir á aðra reikninga. En það er rétt að það þarf að huga að nýju að fjármálum skrifstofunnar þegar árið er liðið frá því að samningurinn var gerður.