Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það mun rétt vera að virðulegur forseti ræður ekki ferðum hæstv. ráðherra, en hæstv. ráðherrum ber að sækja þingfundi eins og þingmönnum, jafnvel þótt þeir hafi varamenn fyrir sig á þingi. Það byggist á viðveruskyldu hæstv. ráðherra vegna embættis. Hæstv. forsrh. var hér í morgun og bar af sér sakir í fsp. til annarra hæstv. ráðherra, þar á meðal fsp. til hæstv. viðskrh., tók þá til máls heldur betur. Nú þegar kemur að fsp. til hans af svipuðum toga er hann horfinn úr þingsal. Og ég spyr: Hefur hæstv. forsrh. beðið um fjarvistarleyfi, hefur hann tjáð hæstv. forseta að hann sé ekki tilbúinn að svara þessari fsp. eða hefur virðulegur forseti einhverjar upplýsingar umfram þær sem hann hefur þegar gefið okkur í þessari þingskapaumræðu?