Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er undarleg viðkvæmni hv. þm., formanns þingflokks Alþfl. Það er ljóst að lagt hefur verið fram í Nd. frv. Við erum staddir í Sþ. og erum að ræða tillögu um svipað efni. Ég get bara ekki skilið hvernig formaður þingflokks Alþfl., sem heitir enn þá Alþfl., getur gert kröfu um að fresta máli vegna fjarveru eins af þingmönnum Framsfl., þ.e. 1. flm. að frv. í Nd. Alþingis. Ég kannast ekki heldur við það að hv. þm. Eiður Guðnason eigi sæti í Nd. Alþingis. Eru nú völd formanns þingflokks Alþfl. orðin nokkuð mikil þegar hann talar fyrir hönd bæði framsóknarmanna og alþýðuflokksmanna.
    Það getur vel verið að hér sé einhver afbrýðisemi í garð hv. 1. flm. þessarar tillögu út af búminjasafni á Hvanneyri. Það bara skiptir ekki neinu máli. Ég veit ekki betur en um daginn hafi hér orðið umræður um skipasmíðar sem eru næstar á dagskrá. Einn þingmaður fékk að tala, einn stjórnarþingmaður. Síðan var málið tekið af dagskrá þrátt fyrir beiðni manna úr öðrum flokkum að fá að taka til máls vegna þess að það stóð sérstaklega á.
    Ég skora á hv. þm. Eið Guðnason að falla frá þessari kröfu sinni. Að öðrum kosti ætla ég að spyrja varaformann Framsfl., hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson að því: Talar Eiður Guðnason, formaður þingflokks Alþfl., orðið fyrir bæði framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn hér í Sþ.?