Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég held að að mörgu leyti væri æskilegt að þessu máli yrði frestað og get ég vel tekið undir það með hv. 3. þm. Vesturl. að það verði gert, ekki síst vegna þeirra fullyrðinga sem hv. þm. hafði í frammi um málið. Í fyrsta lagi sagði hann að hv. 5. þm. Vesturl. hefði hlaupið til og tekið þetta mál. Ég man ekki betur en umræðan um búminjasafn á Hvanneyri hafi verið vakin fyrr en í haust. Ég man ekki betur en okkur hafi verið sýnt búminjasafnið á Hvanneyri á árinu 1987 og þá sérstaklega vakin athygli á því, en ég hef ekki orðið var við að hv. þm., hvorki 1., 2. né 3. þm. Vesturl., hafi flutt á síðasta þingi neitt frv. um þetta efni. ( Gripið fram í: En fjórði?) Né heldur sá fjórði.
    Að tala um að þetta mál eigi eitthvað að bíða eftir því lagafrv. sem lagt hefur verið fram í Nd. Af hverju ætti þetta mál að bíða sem er lagt fram á undan og á að fá alla eðlilega þinglega afgreiðslu á undan því lagafrv. sem lagt var fram í kappi við þetta mál? Það gera sér allir ljóst að það var á þeirri forsendu sem það frv. var lagt fram. Ég hef vissan grun um að ef hv. þm. sem lögðu lagafrv. fram í Nd. hefðu haft aðstöðu til að flytja um það þáltill. hefði það líkast til verið lagt fram á þann hátt. Það er alls ekki eðlilegt þegar til stendur að fjalla um þjóðminjalög, eins og allir hv. þm. vissu að til stóð, að leggja fram lagafrv. um eina grein þeirra mála, alveg fráleitt.
    Um vinnubrögðin hjá okkur þingmönnum Vesturlands er það að segja að það hefur komið fyrir fyrr að einn úr þingmannahópnum hafi tekið sér ákveðið mál og beðið aðra þingmenn að flytja það með sér eins og hv. þm. Ingi Björn Albertsson gerði núna. Ég sé ekkert athugavert við það og ég taldi rétt að vera meðflm. með hv. þm. Inga Birni Albertssyni á þessu góða máli alveg eins og ég var ekkert að móðgast við hv. þm. Eið Guðnason þó að hann flytti hér og væri í forustu með að flytja mjög góða tillögu um könnun á umferð um Hvalfjörð á síðasta þingi. Það var ekkert verið að kvarta þá undan því að það væri ekki röðin einn, tveir, þrír. Það var ekkert verið að kvarta. Það var alveg sjálfsagður hlutur að þannig væri málið flutt. Svo er flutt lagafrv., enn nefni ég það, í hv. Nd. og í greinargerð með því frv. er yfirlýsing um það að þingmenn í Ed. séu hálfgerðir meðflm. að þessu án þess að það hafi nokkuð verið gengið frá því. Ég veit það a.m.k. hvað mig áhrærir.
    Út frá þeirri umræðu sem hér hefur verið um tilurð málsins og meðferð þessara beggja mála á hv. Sþ. og í Nd. er sjálfsagt og rétt að verða við ósk hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Æskilegast væri ef það væri hægt að fresta þessu bara fram eftir degi og klára þessa umræðu. Ég tek undir þá ósk og ég held að það mundi að öllu leyti vera betri meðferð á þessu máli ef þannig væri á haldið.