Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það hefur komið mjög greinilega fram í þessari umræðu að þingmenn Vesturlands eru sammála um að það skuli stofna búminjasafn á Hvanneyri. Þá hefur hins vegar greint á um leiðir og ég skal ekki dæma um hvernig vinnubrögð þingmanna Vesturlands hafa verið í gegnum tíðina þar sem ég hef ekki verið í þeirra hópi svo lengi. En ég vildi aðeins benda á að nú hefur nýlokið störfum nefnd sem endurskoðar þjóðminjalögin og þar áttu fulltrúar allra þingflokka sæti. Í II. kafla þess frv. sem nú liggur frammi á borðum hv. þm. er sérstakur kafli um Þjóðminjasafn Íslands og byggðasöfn. Menn voru mjög sammála í þessari nefnd um II. kafla þar sem fjallað er um byggðasöfnin og stöðu ýmissa sérsafna, en þetta mál er 188. mál þingsins.
    Í 4. og 5. gr. frv. er fjallað um tengsl Þjóðminjasafns og byggðasafna og ýmissa sérsafna eins og t.d. Sjóminjasafns Íslands og tækniminjasafns. Það voru allir í nefndinni mjög sammála og ánægðir með þennan kafla, sérstaklega með tilliti til þess að byggðasöfnum og þessum sérsöfnum er hér gert hærra undir höfði en er í gildandi þjóðminjalögum. En með tilliti til þessa lagafrv. og þess hversu menn voru þar sammála tel ég ekki óeðlilegt að mál um búminjasafn á Hvanneyri sé borið upp með þeim hætti sem hér er gert, þ.e. í formi þáltill., því að í 5. gr. þessa frv., ef við getum búist við því að þetta verði niðurstaðan þegar frv. verður samþykkt, segir, með leyfi forseta:
    ,,Byggðasöfn geta verið sjálfseignarstofnanir eða í eigu sveitarfélaga, stofnana eða félagasamtaka. Setja skal hverju byggðasafni stofnskrá og starfsreglur þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn safnsins, eignaraðild að því, þátttöku ríkisins í kostnaði við það og ráðningu forstöðumanns. Reglugerð um byggðasafn skal staðfest af menntmrh. að tillögu þjóðminjaráðs.``
    Í 4. gr. er sagt, með leyfi forseta: ,,Deildir safnsins [þ.e. Þjóðminjasafnsins] geta haft stöðu sérstakra safna svo sem Sjóminjasafn Íslands og Tækniminjasafn Íslands. Skulu þau þá lúta ákvæðum þessara laga um byggðasöfn.``
    Ég tel að einmitt slíkt búminjasafn mundi falla undir þetta ákvæði og sé ekki að semja þurfi um það sérstakt lagafrv. þar sem aðeins þarf að semja því stofnskrá og starfsreglur. Þess vegna vil ég undirstrika það að ég tel ekki óeðlilegt að fara þá leið sem farin er með þessari þáltill. Eins og fram hefur komið í máli hv. 4. og 5. þm. Vesturl. hefur þessi hugmynd komið upp áður um sérstakt búminjasafn á Hvanneyri, bæði í fyrra, og eflaust hafa menn hugsað um þetta enn þá fyrr, og síðan nefnt það aftur í haust sem verður síðan til þess að till. þessi er flutt. Um þá grg. sem hv. 1. þm. Vesturl. bað skólastjóra Bændaskólans um var beðið án vitundar okkar og við lögðum því till. fram án þess að við vissum að beðið hafði verið um slíka grg. fyrir okkar hönd.