Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. 3. þm. Vesturl. skyldi falla frá beiðni um frestun á þessu máli. Ég veit ekki hvernig þingstörf hefðu orðið ef í hvert skipti sem þm. er ekki ánægður með framlagningu mála eða að lík frumvörp komi fram í deildum og þingsályktunartillögur í Sþ. um hliðstæð mál geti einstaka þingmenn frestað afgreiðslu þeirra, í fullri vissu um að forseti hafi skapað fordæmi. Frestunarbeiðni bara vegna þess og á þeim forsendum að frv. liggi fyrir í deildum er engin ástæða að mínu mati. Ég lít svo á að það sé óþinglegt að fara fram á slíka frestun. Ég hugsa bara til sjálfs mín sem þm. Reykv. ef það ætti að há mér í störfum ef mér dytti í hug að koma hér fram með mál að einhverjir aðrir þm. Reykv. jafnvel úr öðrum flokkum væru að skipta sér af því hvort ég legg fram mál einn eða gera kröfu til þess að þeir fái að vera með. Það nær bara ekki nokkurri átt. Og ef einhver þm. er fjarverandi þegar mál koma á dagskrá er það bara hans mál. Hitt er annað mál, ég skal viðurkenna að það er rétt að taka tillit til þess að á annatímum fjvn. ef þm. eru fjarverandi við störf í þinginu sjálfu, að kallað sé á þá og beðið eftir að þeir komi til þess að gefa þeim tækifæri að tala um mál ef þeir svo óska. Slíka frestun get ég samþykkt, hitt alls ekki.
    Þessi þáltill. hefur verið talið þingleg, hún skaðar engan, hún gerir gott, þannig að ég fagna því að málinu skuli haldið áfram og að málið hljóti hér afgreiðslu, en ég harma það að hv. 1. þm. kjördæmisins skuli í nafni þingmanns Borgfl. biðja um greinargerð án samráðs um eitt eða annað. Hann ku hafa beðið um greinargerð í þessu máli í nafni allra þingmanna kjördæmisins. Hann hafði enga heimild til þess að gera neitt slíkt í nafni borgaraflokksþingmanns.