Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég harma að ég skyldi af óviðráðanlegum orsökum ekki geta verið við þær fróðlegu umræður sem hafa farið fram um þá þáltill. sem hér er á dagskrá og satt að segja hafði ég ekki hugsað mér að taka til máls um hana. Ég óskaði eftir því við hv. flm. þegar hann sýndi mér tillöguna að því yrði frestað af þessum ástæðum, en við því var ekki orðið. Það hefur verið venja hjá okkur þingmönnum Vesturlands sem betur fer í gegnum tíðina að við höfum reynt að standa saman að hagsmunamálum Vesturlandsbyggða og höfum lagt metnað okkar í það. Og ég vil vekja athygli á því, sem ég geri ráð fyrir að þingmenn annarra kjördæma hafi tekið eftir, að við þingmenn Vesturlands höfum haft þann sið ár eftir ár að við höfum farið saman í hóp fyrir hvert reglulegt þing um allt kjördæmið, ekki minna en 10--14 fundir sem við höfum setið sameiginlega með heimamönnum, forráðamönnum sveitarfélaga og atvinnurekstrar og rætt þar þau mál sem hæst ber á góma og menn hafa mestan áhuga fyrir að ræða og kynna áður en þing kemur saman. Þetta hefur verið gert í góðu samkomulagi og aldrei ágreiningur um það. Við höfum enn fremur haft þann sið að flytja sameiginlega þau mál sem fram koma frá heimamönnum á hverju svæði eftir því sem efni og aðstæður hafa leyft hverju sinni.
    Í sambandi við þetta sérstæða mál, um búminjasafnið á Hvanneyri, get ég verið stuttorður. Við komum þar á fund sl. haust eins og við höfum gert undanfarin haust og raunar oftar þar sem við mætum oftast nær við ákveðin tækifæri, slit eða setningu skólans, og þá höfum við tekið upp baráttu fyrir áhugamálum og uppbyggingu þess staðar, Hvanneyrar, og höfum lagt metnað okkar í það að efla Bændaskólann á Hvanneyri og allt í kringum hann, búvísindadeild og þá aðstöðu sem RALA er að flytja þangað upp eftir og margt og margt fleira sem mætti þar upp telja. Þetta hefur verið sameiginlegt áhugamál og við höfum notið stuðnings og trausts heimamannna í sambandi við það að vinna að þeim málum eftir því sem þau hafa legið fyrir hverju sinni.
    Á þessum fundi sl. haust voru rædd málefni Hvanneyrar eins og áður og það komu sérstaklega til umræðu þau merku tímamót sem eru í sögu staðarins á næsta ári en þá er 100 ára afmæli skólans. Eitt af því sem skólastjórinn nefndi í sambandi við þessi tímamót var að æskilegt væri að rættist sá draumur, sem þar hefur lengi verið í bígerð, að koma upp búminjasafni á Hvanneyri. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér. Hún er í greinargerð með lagafrv. sem við hv. þm. Friðjón Þórðarson höfum lagt fram á þskj. 140 sem er merkileg saga og segir það sem segja þarf í þessu máli.
    Það sem gerðist í framhaldi af þessu var að við ákváðum að sinna þessu máli og allir þingmenn voru viðstaddir þegar þetta var. Ég hringdi til skólastjórans og óskaði eftir því að hann léti semja til undirbúnings málsins greinargerð frá skólanum um sögu safnsins, sögu staðarins hvað þetta varðar, sem fylgir hér með

bréfi frá skólanum sem er dags. 11. nóv. 1988 til 1. þm. Vesturl., þar sem er greinargerð um búminjasafn, verkfærasafn eins og þar kemur fram. Þar er lagt til --- beinlínis lagt til að það væri ánægjulegt ef hægt væri að ýta þessu áfram ,,og kemur þar tvennt upp í hugann``, segir skólastjórinn, ,,lög um búminjasafn á Hvanneyri eða sérstök fjárveiting til að byggja skála yfir safnið sem núna er til, verkfærasafnið``. Vísa ég að öðru leyti til greinargerðarinnar.
    Þetta tók eðlilega sinn tíma eins og alltaf er og ég ætla ekki að fara að ræða hér um það framtak hv. þm., sem er 1. flm. að þessari þáltill., að leggja fram þáltill. um málið. Ég ætla ekki að fara að ræða það í þingsölunum. Við tókum þá ákvörðun að flytja um þetta lagafrv. Við erum tveir í hv. Nd., hv. þm. Friðjón Þórðarson ásamt mér. Við töldum að þar sem flm. þáltill. hafnaði þeirri ósk að bíða með flutning þáltill. en koma aftur sem flm. á lagafrv. væri ástæðulaust annað en við værum tveir á frv. Auðvitað dettur mér ekki í hug, enda væri það í mótsögn við allt það sem hv. þm. hafa sagt bæði á Hvanneyri og annars staðar, að nokkur þingmaður Vesturlands mundi mæla gegn svona lagafrv. Það er svo augljóst mál að enginn þingmaður Vesturlands mundi voga sér það. Það leyfi ég mér að segja. Þess vegna segi ég að öll umræða um þetta atriði er óþörf og ég ætlaði ekki að segja eitt einasta orð um þá þáltill. sem hér er vegna þess að ég tel hana óþarfan málflutning, en hún gerir ekkert ógagn, síður en svo, allt í lagi með það. Aðalatriðið er lagafrv. og það látum við verða að veruleika á því þingi sem nú stendur yfir.