Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það kemur í ljós að sú frestun sem hér hefur verið óskað eftir í sambandi við umræðu um málið þjónaði ekki tilgangi sínum í sjálfu sér vegna þess að hv. 1. þm. Vesturl. ætlaði sér alls ekkert að tala í þessu máli, en þó kom hann upp í ræðustól og flutti að mörgu leyti ágæta ræðu og sagði ýmsa hluti sem alveg eru sannir. Hann nefndi það m.a. að við þingmenn Vesturlands stæðum saman að hagsmunamálum kjördæmisins, það væri hin algilda regla. Við gerum það, en það hafa a.m.k. sumir þingmenn leyft sér að flytja ýmis málefni Vesturlands hingað inn á hv. Alþingi, hvort sem það er í formi lagafrv. eða þáltill., án þess að þar væri einhver sérstök röðun. Menn hafa tekið sig til og undirbúið mál og flutt þau. Ég veit ekki til þess að það hafi orðið úr því sérstök óánægja eins og virtist vera að spretta upp í umræðum áðan og að sumu leyti kom fram í lokaorðum hv. 1. þm. Vesturl.
    Staðreyndin er nefnilega sú að við erum ekki alveg sammála um hvernig á að vinna að þessu góða máli og við erum heldur ekki kannski alveg sammála um hvernig upphafið bar að og hvort það var endilega nauðsynlegt að bíða eitthvað þegar hv. 1. þm. Vesturl. fór fram á það við hv. þm. Inga Björn Albertsson. Það var nefnilega búið, eins og ég sagði áður í dag, að bíða þó nokkuð lengi með þetta mál. Það var búið að vekja athygli á þessu máli áður á Hvanneyri og miklu betur en var gert í haust. Við vorum leiddir um safnhúsið sem er þar til staðar, sýnt hvað væri búið að gera þar og bent á þörfina að gera þar meira og gera þar betur. En það var ekkert flutt, hvorki lagafrv. né þáltill., á síðasta þingi. Þess vegna var það ekkert óeðlilegt þó að einn úr þingmannahópnum, sem í þessu tilfelli var hv. þm. Ingi Björn Albertsson, tæki sig til og undirbyggi þáltill. þar sem er bent á þetta mál. Það var eðlileg málsmeðferð við þær aðstæður sem voru þegar var verið að undirbúa og vinna að sérstöku frv. um þjóðminjar á Íslandi.
    Í sambandi við að flytja lagafrv. um þetta sérstaka mál hef ég fengið þær upplýsingar frá aðilum sem þekkja þessi mál gerst, að það sé trúlega --- ég ætla ekki að segja meira --- ekki hinn æskilegi farvegur í sambandi við uppbyggingu búminjasafns á Hvanneyri heldur að tengja það uppbyggingu almennra safna, þ.e. tengja það við lögin um þjóðminjavernd á Íslandi í sambandi við það frv. sem hér liggur nú fyrir til afgreiðslu.
    Ég segi að það er alveg fráleitt að búast við því að einn eða neinn þingmaður Vesturlands standi gegn einhverjum ákveðnum framfaramálum á Vesturlandi. Eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði: Það þorir það enginn. Það eru stór orð. Ég held að hlutirnir séu þannig að við hljótum að velja þann kostinn sem er eðlilegastur og bestur og ég er ekki í nokkrum vafa um að í sambandi við þetta mál er besti kosturinn að samþykkja þá þáltill. sem hér er til umræðu. Þá er lagafrv. að vissu leyti óþarft.