Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fagna því að þetta frv. skuli nú flutt hér að nýju og ég læt í ljós þá von að okkur muni takast að afgreiða það sem lög á því þingi sem nú situr. Ég held að það sé mjög brýnt.
    Hæstv. dómsmrh. vék að því áðan að í sumar hefði starfað milliþinganefnd að athugun málsins. Það vill svo til að sá sem þetta mælir var formaður þeirrar nefndar. Sú nefnd skilaði áliti núna í haust og gerði nokkrar brtt. við frv. sem raunar voru frekast lagfæringar fremur en efnislegar breytingar. Skylt er að geta þess að nefndin varð ekki sammála. Það sátu sjö hv. þm. í þessari nefnd. Tveir þeirra skiluðu séráliti, hv. þm. Friðjón Þórðarson og hv. þm. Páll Pétursson.
    Ég hygg þó að um þetta mál sé miklu breiðari samstaða í þinginu en niðurstaða nefndarinnar í raun gefur til kynna. Ég hygg nefnilega að því betur sem menn hafa kynnt sér þetta mál, þeim mun fleiri hafi stuðningsmenn þess orðið. Ég hygg að þetta mál njóti mikils stuðnings hér í þinginu og það er gott að því skuli vera vísað til nefndar nú fyrir hátíðar þannig að það gefst kostur á að senda það til umsagnar. Nefndin getur síðan væntanlega fljótlega hafið vinnu undir ágætri forustu forseta þessarar virðulegu deildar og tekið snarplega á þessu máli og séð svo til, að svo miklu leyti sem í okkar valdi er hér í þessari deild, að þetta mál verði að lögum. Hæstv. dómsmrh. vék áðan að löggæslu á Keflavíkurflugvelli, hvort hún ætti ekki að heyra undir dómsmrn. Ég held að svo eigi að vera og tek undir það og fagna því að á döfinni skuli vera hagræðing á löggæslufyrirkomulagi í flugstöðinni og á þessum slóðum vegna þess að ég held að það geti haft mikinn sparnað í för með sér og sé mál sem sannarlega er af hinu góða.