Hreppstjórar
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um hreppstjóra. Vegna þess að með nýjum sveitarstjórnarlögum verða sýslunefndir lagðar niður frá næstu áramótum er nauðsynlegt að gera breytingu á þessum lögum.
    Frv. skýrir sig sjálft. Í 1. gr. er fjallað um að hreppstjóri skuli vera í hverju sveitarfélagi utan aðseturs sýslumanns nema sýslumaður telji þess ekki þörf. Með því er sagt að mögulegt sé að ekki starfi hreppstjóri í öllum sveitarfélögum heldur geti hann verið sameiginlegur fyrir nokkur sveitarfélög eða þá að sýslumaður sjái um hans starf.
    Í 2. gr. er fjallað um hvernig hreppstjóri skuli skipaður. Starf hans skal auglýst og sýslumaður velur í stöðu hreppstjóra úr hópi umsækjenda að fenginni umsögn sveitarstjórnar.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál því það er einfalt og er í raun afleiðing af öðrum breytingum sem orðið hafa að undanförnu þótt skipan þessara mála sé að öðru leyti nokkuð breytt, en það skýrist vel í frv. sjálfu.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.