Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. um þetta mál auk þess sem ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt við 6. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að skatthlutfall þessa skatts verði óbreytt frá því sem verið hefur, 1,1%, í stað 2,2% sem frv. gerir ráð fyrir. Falli sú brtt. er það tillaga mín, sem er jafnframt tillaga fulltrúa Borgfl. sem á þetta nál. skrifar einnig, að frv. verði fellt.
    Mönnum er það vel kunnugt að skattur sá sem hér er til umfjöllunar var upphaflega á lagður tímabundið, átti að gilda í eitt ár, á árinu 1979. Þessi álagning hefur þó verið framlengd árlega en að vísu með lægra skatthlutfalli frá árinu 1984 er hæstv. þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson beitti sér fyrir þeirri lækkun skatthlutfallsins.
    Þessi skattur leggst á fasteignamatsverð eigna í verslunar- og skrifstofuhúsnæði óháð skuldastöðu viðkomandi eiganda þannig að hann er að því leyti til svipaður fasteignagjöldum sveitarfélaga. Þessi skattur hefur ævinlega verið fleinn í holdi þeirra sem vilja hafa skattkerfið hlutlaust með tilliti til tegunda atvinnuhúsnæðis eða tegunda greina í atvinnulífinu, þeirra sem telja óæskilegt að gera upp á milli atvinnuvega í skattlagningu sem þessari. Engu að síður hafa menn, þar á meðal sá sem hér talar og aðrir sjálfstæðisþingmenn, undanfarin ár treyst sér til að viðhalda þessari skattlagningu á þeim grundvelli að staða ríkissjóðs leyfði ekki að frá þessari skattlagningu væri fallið þó svo að það væri markmið sem vinna bæri að.
    Nú hyggst ríkisstjórnin, sem nú situr og lýtur efnahagslegri forsögn Alþb., tvöfalda skattinn á þetta húsnæði, hækka skatthlutfallið úr 1,1% í 2,2%. Fasteignamat þeirra eigna sem hér um ræðir mun hækka um 20% á milli ára og þegar tekið er tillit til þess jafngildir þessi hækkun 140% á milli ára í krónum talið þannig að aðili sem þurfti að inna af hendi 100 þús. kr. greiðslu á þessu ári mun þurfa að greiða 240 þús. kr. á næsta ári í þennan skatt.
    Við sem skrifum undir þetta nál. teljum að slík hækkun í krónutölu á milli ára og slík hækkun prósentu á einum skatti á milli ára sé óréttlætanleg gjörsamlega og við vitum ekki til þess að slík hækkun á einum skatti eigi sér fordæmi. Því er við að bæta að gjaldþol ýmissa gjaldenda sem þennan skatt greiða er nú með versta móti eins og annarra aðila í atvinnulífinu, enda hefur það komið á daginn í framhaldi af þeim athugunum sem ég óskaði eftir í hv. fjh.- og viðskn. að á næsta ári er gert ráð fyrir að innheimtuhlutfall þessa skatts verði mun lægra en verið hefur.
    Ég gerði athugasemd við það við 1. umr. og óskaði eftir upplýsingum í hv. fjh.- og viðskn. um þær tölur sem farið er með í grg. frv., en þar segir að álagningin verði 410 millj. en innheimtan 425 millj. Ég lagði fram útreikninga sem sýndu fram á það að þessar tölur gátu ekki staðist og þegar fjármálaráðuneytismenn fóru nánar ofan í saumana á

mínum athugasemdum kom í ljós að það var villa í frv. Hún var að vísu þannig að innheimtutalan mun væntanlega standast þar sem misritast hafði í frv. álagningartalan og í stað 610 millj. sem þar áttu að vera var prentað 410 millj. sem var sú fjárhæð sem ég gekk út frá í mínum útreikningum.
    Hins vegar kom í ljós við þessa athugun ráðuneytismanna að innheimta þessa skatts er verulega lakari á síðari hluta þessa árs eins og raunar mátti við búast og það svo að í stað 64% innheimtuhlutfalls, sem reiknað er með á þessu ári, er ekki gert ráð fyrir að skatturinn innheimtist á næsta ári nema sem svarar 58% af samanlagðri álagningu og eftirstöðvum fyrri ára.
    Í þessum upplýsingum kemur fram það sem við höfum verið að lýsa margir hverjir í þingsölum um ástandið í atvinnulífinu og gjaldþol atvinnuveganna yfirleitt sem bitnar ekki síður á innheimtu skatta sem þessara en ýmsum öðrum útgjöldum sem atvinnureksturinn þarf að standa undir. Ég tel að það hafi verið gagnlegt að fá fram hver spá ráðuneytisins er að því er varðar innheimtu á næsta ári.
    Ég hef margvakið athygli á því í umræðum um bæði þetta mál og tekju- og eignarskattsfrv. ríkisstjórnarinnar síðustu dægrin að eignarskattahækkanir ríkisstjórnarinnar stefna þeirri skattheimtu í áður óþekktar stærðir. Ég vek athygli á því og minni hl. fjh.- og viðskn. í nál. sínu að af verslunar- og skrifstofuhúsnæði í einkaeign sem er yfir 6 millj. kr. að verðmæti verði á næsta ári að greiða hámark, hvorki meira né minna en 6,4% í samanlagðan eignarskatt og fasteignagjöld til ríkis og borgar. Þetta er gríðarleg hækkun frá því sem verið hefur og þýðir ósköp einfaldlega að sú ávöxtunarkrafa sem gerð er til þessara eigna hækkar sem þessu nemur og að eigendur þessa húsnæðis verða að gera hærri kröfu um afnotagjald ef þeir geta þá yfir höfuð komið sínum eignum í not, ef ekki kreppir það harkalega að að notendur fáist ekki að slíkum eignum, hvorki eigendur sjálfir né aðrir.
    Í nál. kemur fram að hækkunin til ríkisins af þessum 6,4% verður, ef öll áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga, hvorki meira né minna en 2,85% af fasteignamati og síðan bætist við sú hækkun sem verður á fasteignamatinu. Við teljum að slík stökkbreyting í skattlagningu á einum stofni sé ekki bara
gífurleg íþynging, eins og ég hef sagt, og óraunhæf að því er varðar innheimtuna, eins og fram hefur komið, heldur sé þetta líka efnahagsleg fásinna. Kem ég þá að því sem ég reyndar ýjaði að áðan og varðar ávöxtunina af slíkum eignum því að það er ljóst að eign sem verður að skila ríkinu eða yfirvöldum 6,4% af fasteignamati í skatt verður að skila eigandanum 6,4% í raunávöxtun bara til þess að hann geti borgað skattinn og þá jafngildir slík skattheimta 100% tekjuskatti á þessum tekjum. Þó að mönnum verði tíðrætt um skattlagningu eigna og fjármagnstekna þessa dagana hér á Alþingi og víðar held ég að enginn hafi gengið svo langt að halda því fram að

það væri eðlilegt að leggja 100% skatt á tekjur sem myndast með þessum hætti. Það er auðvitað fjarstæða. Ef menn vilja hafa þennan skatt 50%, tekjuskatt af þessum eignartekjum, verður ávöxtun þessara eigna að vera tvöföld skattprósentan, þ.e. 12,8 af hundraði.
    Þannig mætti lengi telja og ef miðað er við þann tekjuskatt sem ríkisstjórnin ætlar einstaklingum að greiða á næsta ári, 37,2% að meðtöldu útsvari, er verið að tala um 17,2% ávöxtunarkröfu af þessum eignum, hvorki meira né minna. Ég hef leyft mér að halda því fram, bæði úr þessum ræðustól og við gerum það í þessu nál. sem undir það skrifum, að þessi ávöxtunarkrafa stingi vægast sagt mjög í stúf við fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar, einkum hæstv. fjmrh., um að lækka vextina og vaxtastigið í landinu. Auðvitað gengur þetta þvert á öll slík áform þó svo að hæstv. fjmrh. neiti eflaust að horfast í augu við það.
    Ég hef að gamni mínu reiknað út eitt lítið dæmi um verslunarhúsnæði sem væri að fasteignamati 7 millj. kr. hér í Reykjavík skuldlaust. Ef af því eru reiknuð öll þau eignagjöld sem að er stefnt í frv. ríkisstjórnarinnar, bæði þessu og öðru, kemur í ljós að af slíkri eign, sem er að fasteignamati 7 millj., þarf að greiða rúmlega 320 þús. kr. í eignarskatta.
    Þetta sundurliðast þannig að 2,2% skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði næmi 154 þús. kr., hinn almenni eignarskattur að viðbættu álagi í þjóðarbókhlöðusjóð, samtals 1,45%, næmi rúmlega 50 þús. kr., stóreignaskatturinn sem legðist á þá milljón í fasteignamatinu sem er umfram 6 millj. nemur tæpum 30 þús. kr. og loks bætast við fasteignagjöld til borgarinnar sem eru tæplega 90 þús. kr. Þessar rúmu 320 þús. kr. í gjöld nema 4,6% af fasteignamati. Hér er ég því ekki að tala um hæstu mögulegu jaðarprósentu, sem við getum kallað svo, heldur þann meðalskatt, eignarskatt og fasteignagjöld sem leggjast á þessa eign. Hvorki meira né minna en 4,6% af fasteignamati. Slík skattheimta jafngildir 12,4% ávöxtunarkröfu sé á sama hátt og áður miðað við þann tekjuskatt einstaklinga sem ríkisstjórnin ráðgerir að leggja á á næsta ári. Þetta eru vextirnir og vaxtastigið sem ríkisstjórnin telur eðlilegt í landinu miðað við þann eignarskatt og þá ávöxtun eigna sem hún ætlast til að menn standi undir miðað við þessi eignarskattaáform.
    Ég er ekkert viss um að menn hafi gert sér grein fyrir því hvað þeir eru að tala um. En miðað við þann tekjuskatt sem fjmrh. ætlar að leggja á landsmenn og miðað við þessa eignarskatta telur hann eðlilegt að menn hafi 12,4% raunávöxtun af fasteignum þeim sem hér er verið að tala um, hvorki meira né minna, 12,4%. Það er sú ávöxtun og þeir vextir sem fjmrh. telur eðlilegt að menn hafi af verslunar- og skrifstofuhúsnæði af þessari stærð og á þessu fasteignamati í Reykjavík. Það eru skilaboðin. Hitt er svo allt annað mál hvort atvinnulífið í landinu, þeir sem mundu nota þetta húsnæði, geta staðið undir slíkum kröfum um ávöxtun og hækkun afnotagjalds eða leigu fyrir slíkt húsnæði og dreg ég það mjög í

efa.
    Ég skal ekki lengja þetta frekar, herra forseti. Ég tel að öll helstu sjónarmið í málinu hafi komið fram og þess vegna sé eðlilegt að ganga brátt til atkvæða um málið. Ég hef flutt brtt., eins og fram kom áðan, í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs, sem gerir ráð fyrir óbreyttum skatti, en að slíkri till. felldri er það tillaga mín og sjálfstæðismanna að þetta frv. verði fellt.