Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Um leið og ég lýsi enn og aftur miklum áhyggjum mínum yfir því að hv. þm. stjórnarliðsins skuli í alvöru ætla að standa að öllum þeim hugmyndum um skatta á þjóðfélagsborgarana og einkanlega atvinnureksturinn í þessu landi, þá vil ég lýsa enn meiri undrun minni yfir því nál. sem kemur frá Kvennalistanum í því máli sem hér er sérstaklega til umræðu. Ég er satt að segja alveg furðu lostin vegna þess að skattafrumvörpin fjalla sérstaklega um skattlagningu þess hluta atvinnulífs í landinu sem hefur með höndum þjónustu við þjóðfélagsborgarana og grundvallaratvinnuvegina. Það er sá hluti atvinnulífsins sem er skattlagður í þessu frv. og í þeim hluta atvinnulífsins eru konur langsamlega fjölmennastar. Það þarf ekki annað en að nefna þá staðreynd að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem vinna við verslunar- og skrifstofustörf í landinu eru konur. Þar við bætist að skattlagning á þjónustugreinarnar sem nýta fyrst og fremst verslunar- og skrifstofuhúsnæði er líka skattlagning á allan atvinnureksturinn í landinu vegna þess að framleiðslufyrirtækin þurfa á þessari starfsemi að halda til að koma afurðum sínum áfram til neytenda. Auk þess þurfa öll atvinnufyrirtæki í landinu á einhvers konar skrifstofu- eða verslunarhúsnæði að halda sjálf. Að ráðast sérstaklega á þessa grein atvinnulífsins er rétt líkast því að heilbrigðisstarfsmaður eða læknir kippti burt ýmiss konar miðstöðvum æðakerfisins. Um þessar æðar verða verðmætin að fara í hendur þeirra sem nýta þau eða kaupa. Þ.e. um hendur þeirra og fyrir atbeina þeirra sem stunda verslunar- og skrifstofustörf fara þau verðmæti sem eru sköpuð í landinu og líka þau verðmæti sem Íslendingar þurfa á að halda annars staðar frá. Það er einkennileg árátta, sem einkanlega hefur birst árum saman í efnahagsstefnu Alþb. sem er alls ráðandi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að hjá þessum starfsgreinum sé allt illt að finna. Þarna liggi rætur allra meina í efnahagsvanda þjóðarinnar.
    En þegar við svo lítum á hina hliðina, en hæstv. ríkisstjórn eins og reyndar margar aðrar ríkisstjórnir hafa við það fyrst og fremst að etja að koma atvinnulífinu til hjálpar hreinlega til þess að starfsemi þjóðfélagsins stöðvist ekki, þá eru menn allt í einu fullir skilnings á því í öðru orðinu að ekki megi draga úr atvinnunni í landinu, það verði að halda uppi atvinnustiginu eins og sagt er stundum, það megi ekki skapa atvinnuleysi, en í hinu orðinu er ráðist gegn þeim sem þessa atvinnu skapa. Þetta fær ekki staðist. Þetta fær alveg ómögulega staðist. Og á sama tíma og menn eru að skattleggja þjóðina til að standa undir ýmiss konar aðstoð til atvinnulífsins skattleggja menn þetta sama atvinnulíf svo grimmilega að það verður innan skamms þörf á enn meiri aðgerðum. Það er augljóst að það er einungis hugsað til þess hvernig megi e.t.v. á pappírnum með einhverju móti, mögulegu eða ómögulegu, sýna að þarna komi greiðslur sem geti valdið því að e.t.v. standist báðar hliðar fjárlaganna á eða a.m.k. binda menn vonir við

það, en menn láta sér í léttu rúmi liggja þó að sömu aðferðir þýði að slakkinn verði miklu meiri á mánuðunum sem eru fram undan. Þess vegna er algerlega ljóst að hér er verið að ráðast gegn tilteknum hluta atvinnulífsins í landinu. Það er í eðli sínu afskaplega ranglátt. Það sér hver maður. Og þá þess heldur að hér er verið að tvöfalda álögur samkvæmt frv. þó ekki sé minnst á þær álögur sem koma á sama atvinnurekstur samkvæmt öðrum skattafrumvörpum sem við erum að fjalla um og það þess heldur að hér er verið að þyngja þessar álögur án þess að gjaldþolið hafi aukist. Þetta er eitt af því sem gerir nál. Kvennalistans svo einkennilegt.
    Hv. talsmaður nál., 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir, hefur látið það ítrekað í ljós í þessum umræðum að fyrir alllöngu hefðu hún og hennar félagar e.t.v. verið til viðræðu um að hækka skatt á þessari atvinnugrein þar eð þeim virtist þenslan svo mikil þar. En það hefur komið fram bæði frá þeim og öðrum að þeirri þenslu er ekki lengur fyrir að fara. Að vísu segir í nál. að ein sú grein sem þessi skattur taki til standi með sérstökum blóma og það sé starfsemi banka og annarra aðila á fjármagnsmarkaði þannig að eftir því virðast hv. þm. Kvennalistans geta hugsað sér slíka skattlagningu á þessa aðila. En hvaða aðferð vilja þær nota til þess? Þessir hv. þm. vilja þá skattleggja alla --- alla sem nota skrifstofu- og verslunarhúsnæði tvöfalt meira, aðeins samkvæmt þessum lögum, en áður var. Og ekki nóg með það. Svo er helst að sjá sem hv. þm. Kvennalistans, ef ég geng út frá því að þetta nál. túlki skoðanir þm. Kvennalistans, gangi í þá gildru að láta plata ofan í sig einum og einum bita í einu án þess að hugsa um að þær þurfa líka að kyngja ýmsu öðru, að þetta er partur af miklu, miklu stærra máli.
    Hér er mælt fyrir því eins og afar eðlilegum hlut að þessi skattur í sjálfu sér muni einn og sér ekki setja menn á höfuðið samkvæmt því sem einhverjir sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur hitt á götu hafa sagt henni. Ekki trúi ég því á jafngrandvara konu og hv. þm. að hún hafi ekki sagt um leið þessum viðmælendum sínum að þessir sömu aðilar þurfi líka að svara skatti, sem annars vegar birtist í hækkuðu vörugjaldi og hins vegar í hækkuðum
tekju- og ekki síst eignarskatti. Ekki trúi ég því að hv. þm. hafi þagað yfir þessari staðreynd þegar hún var að upplýsa viðmælendur sína.
    En það eru ýmsir aðrir viðmælendur þingmanna sem hafa haft uppi aðrar skoðanir og aðrar ábendingar. Ábendingar um óréttlæti og ábendingar um það að skatturinn einn og sér verði ekki til þess að mörg fyrirtæki neyðist til að draga enn saman seglin ef þetta ríður þá ekki baggamuninn um að þau fari á höfuðið. Og hverjir eru það sem missa atvinnuna við þetta? Það eru fyrst og fremst konur.
    Ég mundi gjarnan vilja ráðleggja hv. þm. að auk þeirra upplýsinga sem hún hefur fengið munnlega frá þessum viðmælendum skuli hún einnig leita sér annarra upplýsinga, t.d. með því að blaða í gegnum rit sem heitir Lögbirtingablaðið og kemur út

hálfsmánaðarlega. Hv. þm. ætti að blaða í gegnum þetta rit, tölublöðin frá því seinni partinn í sumar og fram á þennan dag. Ég hygg að niðurstaða hv. þm. væri önnur en hún hefur látið hér í ljós og hv. þm. mundi líka átta sig á því með hvaða þunga þessi hluti þessa skattapakka ríkisstjórnarinnar, sem er afgreiddur í áföngum þessa dagana, muni bitna á konum og atvinnu þeirra.
    Ég ætla ekki að fara nánar út í það atriði, en ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem blasa ekki við augljóslega. Þau ganga ekki fram af orðalagi frv. Þetta einkennilega orð sem var það eina sem hv. hafði áhyggjur af og vildi fá skýringar á var ,,afgjaldsgreiðsluaðili`` eða eitthvað álíka furðulegt orð. Ég er ekki með frv. meðferðis en það var einkennilega samsett --- afgjaldskvaðarverðmæti. Ég bið afsökunar, herra forseti, hve það gengur illa að muna þetta, en það er nú svo að það sem maður ekki skilur getur maður heldur ekki munað og sú er skýringin á þessu. Mér býður þó í grun hvað þetta muni þýða. En það er ekki merking svona orðskrípa sem skiptir máli. Það er það hvernig þetta hittir lifandi fólk í landinu og þá lifandi starfsemi sem þarf að fara fram í landi okkar til þess að hér sé lífvænlegt. Ég vil leyfa mér að óska þess að okkur takist í raun og veru að finna aðra færa leið til að taka þátt í lausn þess vanda sem við er að etja því það er ekki hægt að kalla þetta leið til lausnar vandans. Þess vegna er hún hvorki illfær né fær yfir höfuð. Þetta er ekki leið til lausnar heldur leið til að auka vandann. Ég óska þess að Árni Gunnarsson, hv. 3. þm. Norðurl. e., bæði hann og ýmsir aðrir þingmenn sem vilja gæta réttsýni í þessum málum, láti það verða yfirsterkara áhuga sínum á því að ganga til þessa leiks undir forustu Alþb. og stefnu þess í efnahagsmálum.