Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Efnislega vil ég taka undir nál. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. sem hér er á dagskrá um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, undirritað af fulltrúa Borgfl. Inga Birni Albertssyni og frsm. Geir H. Haarde. Það sem kom fram hjá hv. frsm. var að mörgu leyti merkilegt. Þar eru útreikningar í prósentutölu og krónutölu á þeim sköttum sem ríkisstjórnin leggur uppsafnað og keðjuverkandi á fyrirtæki, verslunar- og skrifstofuhúsnæði, með þessum eina skatti. Ég tek að sjálfsögðu undir það nál. og það gera flestir ef ekki allir þingmenn Borgfl.
    Ég vil líka lýsa yfir stuðningi mínum við þá brtt. sem er á þskj. 240 þar sem flm. Geir H. Haarde leggur til að álagður skattur verði 1,1% í stað 2,2% eins og hæstv. fjmrh. leggur til. Þar er brtt. við 6. gr. fjárlaga.
    Í minni fjármálaráðherratíð lækkaði ég þennan skatt úr 1,4% niður í 1,1%. Því miður komst ég ekki neðar með hann í það skiptið, en það var stefna ríkisstjórnarinnar og stefna allra þeirra sem að henni stóðu að fella þennan skatt niður í áföngum og þá var tekið fyrsta skrefið. Þess vegna er mér óskiljanlegt hvað Framsfl. getur haft margar skoðanir. Það fer eftir því með hverjum þeir eru í stjórn að sjálfsögðu. Það er það sem gerir þá eins og gúmmíkarla að þeir geta aðlagað sig svo mörgum skoðunum. T.d. er ekki bara um þennan skatt að ræða, sem átti að fella niður í áföngum, heldur var annar skattur, eins og tekjuskatturinn, sem líka átti að fella niður í áföngum og fleira.
    En það sem kemur mér til að standa upp og tala er nál. hv. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. í þessu máli, þ.e. fulltrúa Kvennalistans Kristínar Halldórsdóttur. Ekki kannski svo mikið um skoðun Kvennalistans. Hún skiptir út af fyrir sig engu máli, ekki nokkru máli því þær hafa haft skoðanir til og frá, en aldrei þorað að taka neinar afdrifaríkar og ábyrgar ákvarðanir þegar til leiks kemur, eða þegar út í alvöruna kemur. En það er þessi almenna skoðun sem Kvennalistinn virðist ætla að nota sér og gerir oft af því að þær halda að það nái til einhvers ákveðins óánægjuhóps úti í þjóðfélaginu.
    Í upphafi segir í nál.: ,,Við dreifingu skattbyrða telja kvennalistakonur eðlilegt að horfa til hinna breiðu baka í þjóðfélaginu.`` Hin breiðu bök í þjóðfélaginu eru þá þeir sem nota verslunar- og skrifstofuhúsnæði í þessu tilfelli. En ég vildi gjarnan spyrja þessar virðulegu þingkonur: Gera þær sér grein fyrir því hvað það eru margir fyrrverandi sjálfstæðir atvinnurekendur, sem hafa þurft að standa undir öllum þeim byrðum í sköttum og öðru sem á atvinnurekstur eru lagðar og þá náttúrlega sérstaklega verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem ganga nú um sem gamalt fólk og hafa ekkert skjól og hvergi höfði sínu að halla, eru ekki einu sinni meðlimir í lífeyrissjóðum? Afrakstur af þeirra ævistarfi er enginn vegna þess að þeir hafa verið ábyrgir fyrir öðru starfsfólki. Þetta eru þessi breiðu bök sem þjóðfélagið er alltaf að elta.

    Síðan kemur seinna í nál. þeirra að sú afstaða þeirra styðst enn fremur við nauðsyn þess að hamla gegn offjárfestingu og þenslu í þessum greinum. Sér er nú hvert afrekið sem Kvennalistinn ætlar að vinna með þessari afstöðu sinni. Á hvern hátt ætlar Kvennalistinn að hamla og gegn hverju? Byggingum eins og dagblaðanna, Morgunblaðið, Dagblaðið, Alþýðublaðið eða eitthvað slíkt? Átta kvennalistakonur sig á því eða fólk almennt sem hefur þessa skoðun að lýðveldið er ekki nema rúmlega 40 ára, 44 ára? Veit fólk hvað var til hér í gömlum fjárfestingum? Veit fólk hvaða húsnæði þessi atvinnurekstur þurfti að nota fyrir stofnun lýðveldisins? Það var lítið annað en kofabyggingar. Hér var ekkert sem hét yfirbygging á atvinnuhúsnæði. Ef þetta virðulega fólk hefur séð myndir af stærstu vöruskemmum sem þá voru, Eimskipafélagsskemmurnar, þá voru það kofabyggingar sem í voru bæði Eimskipafélagið, Sameinaða gufuskipafélagið, Jes Zimsen og fleiri. Það er engin þensla í því að þessi fyrirtæki byggðu yfir sig. Þetta er eðlileg þróun. Þetta er eðlileg þróun frá því að í Reykjavík bjuggu 30.000 íbúar fyrir nokkrum áratugum upp í það að vera nú nærri 100.000 íbúar. Fólk bjó hér í gömlum moldarkofum í stórum hópum, síðan kom bárujárnsþróunin og nú erum við komin í steinsteypu. Þetta er fjárfestingin. Vilja þær halda fólkinu og fyrirtækjum í sama horfi frá einum tíma til annars? Ég held að þær átti sig bara ekkert á því hvað þær eru að tala um, hafa ekki hugmynd um hvað þær eru að tala um.
    Aftur á móti hefði kannski mátt fara svolítið hægara í að byggja Mjólkursamsöluna nýju, Osta- og smjörsöluna nýju, það voru til nothæf hús fyrir og stór. Háskólinn er kominn með margar deildir út um allan bæ sem búið er að byggja og breyta úr gömlu í nýtt, má segja. Við getum tekið kirkjurnar líka til þess að hafa þær með sem hafa verið byggðar hingað og þangað. Allt eru þetta fjárfestingar fyrir opinbert fé. Þjóðarbókhlaðan kemur beint inn í rekstur og fer sem útgjaldaliður í fyrirtæki. Við getum líka talað um sjúkrahús. Það er gríðarleg þróun í því. Leikhús, heilsugæslustöðvar. Og Samband ísl. samvinnufélaga hefur byggt hingað og þangað og er að byggja stórhýsi. Það gamla var ekki nógu fínt. Og ríkið er sjálft að endurbyggja það
hús allt og á þremur stöðum við Sölvhólsgötu og Ingólfsstræti. Ríkið sjálft er búið að breyta og byggja um alla borgina, hingað og þangað. Allt er þetta þensluaukandi. Svo ég tali ekki um Seðlabankann. Og Víðir. Nei, hvað heitir það? Ég man ekki í augnablikinu hvað þessi stóra og fína verslun heitir í Mjóddinni. ( Gripið fram í: Og Kringlan.) Kringlan, já. Kringlan er fjárfesting um 20, 30, 40 fyrirtækja, en þar eru 70 til 80 fyrirtæki hýst og á eftir að hýsa fleiri. En móðurfyrirtækið sem stendur að þessari byggingu og hefur selt vörur lægra en nokkur annar, lægra en Sambandið sem nýtur sérréttinda í skattalögum og sjóðamyndunum, hefur selt ódýrari vörur, hefur verið í leiguhúsnæði. Það hefur rekið sitt fyrirtæki í skemmubyggingu. Er það óeðlileg

fjárfesting að flytja í eitthvað nýtt eftir áratuga starfsemi? Ég skil ekki þá hugsun sem kemur fram í þessu.
    Þetta eru þessi ótrúlegu umsvif sem hafa verið á Reykjavíkursvæðinu fyrir utan það sem fólk hefur verið að færa sig úr moldarkofum, úr bárujárnsbyggingum yfir í steinsteypu og eins vegna fjölgunar. En ef við förum um landið vítt og breitt sjáum við að þessi uppbygging hefur blessunarlega verið alls staðar um landið. Það eru komin nákvæmlega sams konar hús úti á landi, bæði verksmiðjuhús og híbýli nákvæmlega eins og í Reykjavík með malbikuðum götum. Sem betur fer hefur þessi þróun verið í rétta átt. Það má segja að þegar við hlutum sjálfstæði 1944 höfum við byrjað á núlli því hér var ekkert til sem hægt er að kalla menningarverðmæti í byggingum eða jafnvel minnismerkjum. ( PP: Mundu eftir Jónasi.) Ég man eftir Jónasi. Ég man vel eftir Jónasi og man eflaust betur eftir Jónasi Jónssyni en framsóknarmaðurinn Páll Pétursson og þekkti hann miklu betur persónulega og það er eins konar guðlast að vera að kalla fram í og nota hans nafn.
    Svona gengur þetta til og við skulum fagna því og við skulum líka fagna því á vissan hátt að þó að þenslan hafi skapað einhverjar skuldir, þó að ríkið eða þjóðin skuldi eitthvað þess vegna, þá tel ég að kynslóðin sem hefur staðið að uppbyggingunni hafi gert vel í að byggja fyrir framtíðina. Ef börn framtíðarinnar ættu eftir öll þau verkefni sem hafa verið leyst af hendi hér fyrir lánsfé litist mér ekki á. Ég hef miklu minni trú á þeirri kynslóð, kóka kóla og prins póló, en aldamótafólkinu og þeirri kynslóð sem kom þar næst. Það var ekki bara skólaskírteinafólk.
    Allar þessar opinberu framkvæmdir fara út í verðlagið. Fyrir hvaða fé haldið þið að Hótel Saga hafi verið byggð? Hótel Saga er eina hótelið sem ég þekki hér sem ekki hefur verið í neinum vandræðum vegna þess að hver sopi sem hvert mannsbarn drekkur eða mjólkurvara sem það borðar gefur eitthvað í sérsjóði Hótel Sögu. Allir einkaaðilar sem hafa farið út í hótelbyggingar hafa ýmist verið í vandræðum, mjög miklum vandræðum eða hreinlega farið á hausinn. Og svona er það með verslunarmenn líka sem hafa farið út í sjálfstæðan rekstur vegna þess að álagið er of mikið og það er ekki endalaust hægt að bæta við álagningu á fyrirtæki sem eru undir verðeftirliti og reyna að verjast óseðjandi klóm ríkisins. Þennan skatt á nú að tvöfalda og rúmlega það. Jafnvel yrðu þetta 140% samkvæmt útreikningum hv. 17. þm. Reykv. Það er ekki lítill skattur ofan á allt annað. Af hverju halda menn að fyrirtæki og einstaklingar séu í vanda og séu að loka? --- Er hv. 1. þm. Reykv. að koma í veg fyrir að hæstv. fjmrh. heyri það sem ég segi eða hver hefur orðið? Það er óþægilegt að tala í kapp við aðra. Af hverju halda menn að fyrirtæki og einstaklingar séu í vanda, fari á hausinn meira en nokkurn tíma áður sem ég veit til? Fyrirtækin hrynja. Það er vegna þess að þeim er íþyngt á nákvæmlega þann hátt sem hér er verið að

leggja til á margan hátt í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar núna, því miður. En það getur vel verið að það sé rétt að menn þurfi að sökkva til botns til að fá viðspyrnu til að komast upp aftur. Bara að þeir drukkni ekki á leiðinni. Það er það sem ég er ansi hræddur um að hafi komið fyrir flesta þegar jafnvel kaupfélögin eru að loka um landið allt og Samband ísl. samvinnufélaga, sem hefur hingað til í hugum manna verið sterkt, ríkt og virðulegt, er að hrynja. Það á í sínum vanda. Ég vil ekki sjá Sambandið í vanda frekar en ég vil sjá einstaklingana í vanda. Ég hef áður sagt það hér að ef þessu heldur áfram og Samband ísl. samvinnufélaga og sá vinnumarkaður sem Sambandið veitir um land allt hrynur erum við með verra og stærra vandamál en við ráðum við og heldur en nokkurt annað þjóðfélag vegna þess að þau hafa vaxið úr grasi hlið við hlið, Samband ísl. samvinnufélaga og íslenska þjóðfélagið. Við þurfum á hvoru tveggja að halda. Annars vegar er frjálsi markaðurinn og hins vegar samvinnuhreyfingin. Ef við ekki skiljum það erum við að blekkja hver annan. Það er með svona álögum, 100--140% hækkun á sköttum, sem við drepum allan hvata í íslensku þjóðfélagi, hvata til að gera vel.
    Ég vil segja það að mikið vildi ég að ég hefði haft --- ég veit ekki hvort ég á að segja vit eða kjark til þess að taka þá ákvörðun sem hæstv. fjmrh. tók í gær samkvæmt fréttum þegar hann breytti dagsetningu á kreditkortum eða innheimtu söluskatts. Því fagna allir vegna þess að það sparar stórfé öllum þeim sem skipta með kreditkort. Við skulum fagna því sem vel er gert og ég veit að atvinnurekendur fagna. Þeir eru þakklátir fyrir þessa ákvörðun hæstv.
ráðherra. En það þarf meira af svona ákvörðunum. Það þarf meira af þessu líka til að bjarga því sem bjargað verður. Þeim sem hafa þegar farið á hausinn, hvort sem það eru kaupfélög, einstaklingar eða hlutafélög, verður að bjarga einhvern veginn og það verður að gera það með því að draga í land en ekki á þann hátt sem þetta frv. bendir til að eigi að gera. Því það eykur á vandann.
    Ég þarf ekki að endurtaka þó að ég geri það að ég er að sjálfsögðu á móti þessu frv. og ég þakka 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og frsm. Geir H. Haarde fyrir þær upplýsingar sem hann hefur haft mikið fyrir að afla sér og reikna út og gefa okkur. Ég vona að það verði tekið mark á þeim og ég lýsi andstöðu minni við frv. eins og það kemur frá hæstv. fjmrh. eða ríkisstjórn. Þó ég hefði viljað sjá þær prósentutölur sem ég lækkaði úr 1,4 í 1,1 fara neðar, niður fyrir 1% í ár, hefði ég verið reiðubúinn að beita mér fyrir því að félagar mínir í Borgfl. styddu þá brtt. að skatturinn yrði 1,1% því það er alveg ljóst að þó að við viljum ekki ganga eins langt og fjmrh. í mörgum sköttum eða skattheimtu vitum við að skatta verður að innheimta og það er ekki tími nú til að draga eins mikið úr og ég hefði viljað, því miður. En samráð hefur ekki verið haft við okkur, engar viðræður hafa farið fram um hugsanlegt samkomulag um einhverja millileið og ég undirstrika það eins og

aðrir sem hér hafa talað, bæði kvennalistafulltrúar og sjálfstæðismenn, ég held að ég muni það rétt, að í þessum umræðum hafa báðir þessir flokkar staðfest það, sem ég staðfesti nú fyrir Borgfl., að við okkur hefur ekki verið rætt um málamiðlun.