Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Vegna mikilla anna í hv. fjvn. hefur mér ekki gefist kostur á að vera við þessa umræðu og vil því gera örstutta grein fyrir minni afstöðu við atkvæðagreiðsluna.
    Ég held að reynslan sýni að þessi skattur hafi innheimst mjög illa, m.a. vegna þeirra erfiðleika sem verslunarrekstur á Íslandi, ekki síst á landsbyggðinni, hefur búið við, sérstaklega á undanförnum mánuðum. Í öðru lagi óttast ég að þegar menn vega saman áhrif þessarar skattlagningar og eignarskatta séu menn að mismuna mjög verulega í eignarskattlagningu lögaðilum annars vegar og einkaaðilum eða einstaklingum hins vegar. Hér er hins vegar um að ræða samkomulag stjórnarflokkanna sem ég stend að sjálfsögðu að þó ég sjái ýmsar brotalamir á þessu máli. Ég segi já.